06.02.1962
Sameinað þing: 42. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 644 í D-deild Alþingistíðinda. (3636)

112. mál, fjárfesting Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna erlendis o.fl.

Flm. (Einar Olgeirsson):

Hæstv. forseti. Ég hélt nú satt að segja, að það mundu verða einhverjir til að kveðja sér hljóðs, ekki sízt eftir þær spurningar, sem hv. 4. þm. Austf. lagði fyrir nú til Sölumiðstöðar hraðfrystihúsanna, og að þeir menn, sem telja sig sérstaklega hér forsvarsmenn Sölumiðstöðvarinnar, mundu vilja nota tækifærið til þess að ræða þetta mál. í fyrra var þetta mál rætt allýtarlega. Þáv. 3. þm. Austf. talaði mjög skörulega um það, og ef ég man rétt, þá talaði hv. 1. þm. Vestf. líka í því máli. En mér sýnist einhver breyting á þessu orðið nú, að þeir, sem réðust allharkalega á mig hér í fyrra fyrir að heimta þessa rannsókn, þeir virðast nú vera orðnir miklu meira fyrir að þegja núna. Það er slæmt, ég álít, að þetta sé einmitt mál. sem við þurfum að fá rætt.

Hv. 2. þm. Vesturl. sagði í sinni ræðu hér, að ég hefði farið með rangt mál, hann væri ekki formaður fyrir Coldwater Seafood Corporation. Mér þykir þetta mjög leitt, að ég skuli hafa farið með rangt mál í þessu, og bið hann mikið afsökunar á því. Ég hélt satt að segja, að hann væri formaður í Coldwater Seafood Corporation, og ég vissi eiginlega ekki almennilega, hver ætti þá að vera formaður, ef hann væri ekki formaður. Þarna eru þrír menn, og bað er okkar hv. 1. varaforseti sameinaðs Alþingis og ungur og vafalaust alveg ágætur maður annar íslenzkur og svo einn Ameríkumaður. Og hvernig átti mér að detta annað í hug heldur en okkar virðulegi forseti sameinaðs Alþingis hlyti að vera formaður í þessari stjórn? Ekki getur þó Ameríkumaðurinn verið það. (Gripið fram í.) Það eru ósannindi. Ekki fara menn þó að setja Jón Gunnarsson frá sem formann til þess að taka Ameríkumann í staðinn. Mér þótti leitt, að hv. 2. þm. Vestusl. skyldi ekki upplýsa þetta. Ég bið hann mikið afsökunar á því, að ég skuli hafa gert hann þarna að formanni, en mér fannst þetta bara svo sjálfsagt, að fyrst hann var á annað borð í stjórninni, þá hlyti hann að vera formaður, okkar virðulegi varaforseti sameinaðs Alþingis.

Enn fremur leiðrétti hann það hjá mér, og það þakka ég honum líka fyrir, að hann sagði, að það væru ekki nema tveir af þingmönnum Sjálfstfl. núna í stjórn S.H. Ég man eftir í fyrra, af því að þá kom þetta allmikið við umr., þá voru þeir þrír, sem sé einn hefur dottið út úr því. Það er náttúrlega út af fyrir sig voðalega leiðinlegt, að einn þm. Sjálfstfl. skuli hafa dottið barna út úr stjórninni. Vonandi hefur Sjálfstfl. þó ekki misst meiri hl. í stjórninni þess vegna, svo að hann eigi þar einhverja forsvara eftir sem áður, þótt svona leiðinlega hafi nú farið. En af því að svo vill nú til, að þessi hv. þm. Sjálfstfl., sem datt út, er nú búinn að sitja, ef ég man rétt, alllengi í þessari stjórn (Gripið fram í: Eitt ár.) Nú, eitt ár. Þá hefur hann a.m.k. fengið næga aðstöðu til þess að rannsaka þetta mál mjög til hlítar, því að ég efast ekki um hans samvizkusemi í þeim efnum að setja sig inn í málin, þannig að hann gæti a.m.k., fyrst hann á hérna sæti í deildinni, máske sagt okkur ofur lítið frá, hvernig var þetta eina ár, sem hann sat þarna. Ég býst ekki við, að hann líti svo á, að hann sé alveg orðinn ábyrgðarlaus af öllu því, sem snertir Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, þó að það hafi nú viljað svona óheppilega til, að hann skuli nú einmitt hafa dottið út einhvern tíma í vetur.

Svo þarf ég að leiðrétta ofur lítið fleira af því, sem hv. 2. þm. Vesturl. sagði, því að hann hefur annaðhvort ekki tekið nógu vel eftir því, sem ég sagði, eða einhvern veginn ruglazt hjá honum.

Hann sagði, að ég hefði sagt, að S.H. væri svindlfyrirtæki. Það var nú ekki rétt Ekki sagði ég það nú. Ég sagði hins vegar, að ég væri hræddur um, að það kynni einhvers staðar að fyrirfinnast eitthvert svindl, ef vel væri leitað, og þess vegna lagði ég til, að málið væri rannsakað. Og það eru jafnvel stjórnarblöð, sem virðast hafa dróttað slíku að, þannig að ég held, að það sé langbezt fyrir S.H., að slíkt væri rannsakað alveg til fulls, og ef svindl ekki fyrirfinnst neins staðar í námunda við hana, þá sé hún hreinsuð alveg af því.

Þá sagði hv. 2. þm. Vesturl., að ég hefði sagt, að þeir hefðu fjárfest 300–400 milli. kr. á síðasta ári. Það var ekki rétt, ekki sagði ég það. Ég sagði skv. upplýsingum hv. 3. hm. Austf., Einars Sigurðssonar, að þá hefðu verið skv. hans tölum um 150 millj. orðnar fastar erlendis af því fé sem fiskimenn á Íslandi eiga, og ég sagði, að því væri fleygt manna milli og um það talað, að það kynni að hafa vaxið það mikið á síðasta ári, að þetta væri komið upp í á milli 300 og 400 milli. Og ef þessi tala mín er röng, sem ég hef aðeins sett fram sem ágizkun, þá vil ég leyfa mér að skora á hv. 2, þm. Vesturl. að upplýsa hér nú nákvæmlega, hve mikið er fast erlendis af því fé, sem S.H. hefur undir höndum. Í grg. minnar þáltill, er talið upp í 6 liðum það sem Einar Sigurðsson upplýsti í fyrra að búið væri að fjárfesta erlendis. Og það hefur hækkað síðan, því að það var í dollurum og pundum, og síðan hefur hv. 2. þm. Vesturl. tekið þátt í því að fella gengið, þannig að það er út af fyrir sig orðin upphæð, sem ég gæti trúað að færi að fara hátt unn í 200 millj. Það hefur verið sagt, að bara stækkunin á stöðinni vestra hafi kostað einar 20—25 milli. kr., og þar að auki hefur því verð haldið fram, að útvegsmenn og hraðfrystihús fái mun seinna greitt nú en áður. Mér hefur þess vegna alls ekki þótt þetta mjög ósennilegt, að þessi upphæð, sem var 150 milli. kr. í fyrra, kynni að vera komin upp í 300–400 millj. kr. nú. Og ef þetta er rangt hjá mér þá vil ég nú skora á hv. 2. þm. Vesturl. að nefna töluna um þetta. Hans samstarfsmaður í stjórn S.H. tók til nákvæma tölu um þessa hluti í fyrra, las okkur hér upp, og ég þakkaði honum fyrir það, alveg nákvæmlega þessar tölur, sem allar eru birtar í minni grg. upp úr hans ræðu. Er ástand S.H. þannig nú, að það sé ekki óhætt að gefa þessar tölur upp nú eins og í fyrra? Hvað er í veginum fyrir að gefa þær upp? Einar Sigurðsson áleit ekkert í veginum fyrir að gefa þær upp í fyrra. Hví er ekki hægt að nefna þessar tölur nú, þannig að hvorki ég né aðrir séu með neinar ágizkanir í þessum efnum? Mig langar ekkert til þess.

Þá sagði hv. 2. þm. Vesturl., að það væri rangt, að þeir hefðu verið að biðja um einokun, eins og ég hefði viljað halda fram. Þarna hef ég kannske ekki komizt nógu nákvæmlega að orði. Ef það að fara fram á einokun þarna hefur verið skilið á þann hátt, að S.H. vildi taka undir sig þann útflutning, sem SÍS hefur haft, þá er það náttúrlega rétt, að S.H. er ekki að biðja um einokun. Hún hefur ekki farið fram á það heldur í þessari ýtarlegu grein í blaði hennar, sem ég rakti hér í gær, að hún fengi algera einokun á þessum útflutningi. En það, sem ég meinti, hvort sem ég hef komizt nægilega skýrt að orði með það eða ekki, bað er, að útilokuð væri samkeppni við Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, og það er það, sem er andinn í þessari grein, Brezki fiskmarkaðurinn og frjáls samkeppni. Öll þessi grein gengur út á það, grein beinlínis frá S.H. og hennar stjórn, að þessi frjálsa samkeppni við S.H. sé óheppileg.

Ég skal ekkert fullyrða um, hvernig sambandið er á milli SÍS og S.H, en mér þykir mjög líklegt, að það sé ekki um neina verulega samkeppni þar að ræða. Ég gæti trúað að það væri miklu frekar um samvinnu að ræða, kannske samkeppni í því að selja sem allra mest, en ekki í því að undirbjóða hvor annan. Þó skal ég ekkert um það segja, ég er ekki nærri nógu kunnugur þeim málum. En ef það hefur misskilizt, sem ég sagði í gær, þegar ég talaði um, að raunverulega væri S.H. að biðja um einokun, á þann hátt, að ég hef þar með verið að eiga við það, að þeir vildu taka réttinn af SÍS að flytja út freðfisk, þá skal ég með ánægju leiðrétta það. Ég hef aldrei gengið út frá því, að S.H. væri að fara fram á slíkt. En hinu vil ég halda fram, að hún hafi nú sent út neyðaróp, þar sem hún kvartar um frjálsa samkeppni við sig. Þetta á sérstaklega við England. Eftir því sem ég bezt veit, hefur Samband ísl. samvinnufélaga ekki neina sölu þar. Þá á þetta fyrst og fremst við að það sé verið að heimta einokun til handa S.H. í Englandi. Og ég vil spyrja: Er þetta rétt eða er þetta ekki rétt? Er S.H. og hennar stjórn fylgjandi því, að allir mögulegir aðilar geti fengið að bjóða íslenzkan freðfisk í Englandi til hvers sem er? Af hverju var þá verið að ráðast sérstaklega á Emil Jónsson., á hæstv. sjútvmrh.? Af hverju var þá verið að biðja hæstv. forsrh. ásjár? Ég held að það væri mjög æskilegt, að þetta væri skýrt, því að annars fer þetta að líta allt saman hálfundarlega út.

Þá kom hv 2. þm. Vesturl. inn á viðskiptin austur á bóginn og vildi halda því fram að það væri einvörðungu ótætis Rússunum að kenna, að ekki væri selt meira þangað austur. Ég veit ekki, hvort hv. 2. þm. Vesturl. man eftir því, að um það leyti sem hinn nýja stefna ríkisstj., stefna hinnar frjálsu samkeppni, einkaframtaksins og vestrænna viðskipta, var tekin upp, þá kom grein í Morgunblaðinu viðvíkjandi þessum viðskiptum, þar sem það var beinlínis sagt, að það yrði að losa sig við þessi viðskipti, Ísland yrði að losna úr þessum viðskiptum austur á bóginn, þau væru hættuleg og það yrði að brjóta þau niður, jafnvel þó að það kostaði tjón fyrir Ísland. Það var talað hreint út. Ég veit ekkert, hvort hæstv. ríkisstj. vill skrifa undir allt, sem í Morgunblaðinu stendur, en þetta er a.m.k. sá áróður, sem ríkisstj. lætur reka. Þetta er það almenningsálit, sem ríkisstj. er að reyna að láta skapa gegnum leiðarana í Morgunblaðinu. Með allri þeirri fádæma heimsku og vitleysu, sem þeir leiðarar eru skrifaðir af, þá er alveg greinilegt, að það er verið að stefna að því að reyna að blinda fólk í þessum efnum. Og það er stundum komizt svo skýrt og greinilega þarna að orði, að það fer ekki neitt á milli mála.

Hvað gerist nú, eftir að þessir leiðarar koma í Morgunblaðinu um, að það verði að losa Ísland við austurviðskiptin? Nokkru seinna fer stjórn S.H. eða hennar umboðsmenn að tala við fulltrúa Sovétríkjanna hér um slík viðskipti. Sovétríkin höfðu um alllangt árabil verið stærsti viðskiptavinur S.H. Alheimsforstjóri S.H., Jón Gunnarsson, hafði ekki allan þann tíma, í 15 ár, sem Sölumiðstöðin hafði haft skipti við Sovétríkin, sýnt þeim einu sinni svo mikla kurteisi sem að fara þangað einu sinni. S.H. hafði allan hann tíma, sem hún hafði þessi viðskipti við Sovétríkin sem stærsta kaupanda að íslenskum freðfiski, aldrei sinnt því að reyna að gera nokkurn skapaðan hlut fyrir markaðinn þar — aldrei, þó að henni hefði verið bent á hvað eftir annað, að það væri heppilegt, að það fylgdu með, þegar hraðfrysti fiskurinn væri seldur þangað, ýmiss konar leiðarvísar um, hvernig ætti að fara með hann, þegar honum væri skipað upp við höfnina, hvernig ætti að fara með hann, þegar hann væri fluttur í vögnum, hvernip ætti að fara með hann, þegar hann væri seldur í búðum. Þó að henni hafi hvað eftir annað verið bent á þetta, bæði af mönnum, sem hafa komið þangað, og af íslenzka sendiráðinu í Moskvu, þá hefur S.H. aldrei sýnt neitt framtak í því að vilja gera nokkurn skapaðan hlut til þess að gera þennan fisk að eins vinsælli vöru og hann þrátt fyrir hennar aðgerðaleysi er orðinn í Sovétríkjunum, þó að oft hafi ýmislegt misheppnazt með afgreiðslu á honum. M.ö.o.: Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna hafði sýnt frámunalegt skeytingarleysi í því að efla þennan markað. Ég býst við, að það hafi jafnvel ekki verið gert svo mikið, sem er nú vaninn hjá okkar fiskbröskurum að gera allmikið að, að halda veizlur erlendis, til þess þó a.m.k. einu sinni að heilsa upp á þá viðskiptavini sína. Ég býst við t.d., að þær veizlur, sem Jón Gunnarson hefur haldið á Waldorf Astoria, séu með fínni veizlum, sem haldnar eru í slíkum bransa. En ég býst við, að það hafi ekki verið haft einu sinni svo mikið fyrir af hálfu þeirra æðstu manna í stjórn S.H. að tala við þá menn, sem hafa verið kaupendur að upp undir helmingnum af öllum íslenzkum freðfiski um allmörg ár. Svo er breytt um stjórnarstefnu hér heima. Svo er því lýst yfir í Morgunblaðinu, að það sé nauðsynlegt, — og jafnvel Vísir tekur enn þá dýpra í árinni stundum, — það sé nauðsynlegt að fara að losa sig við austurviðskiptin. Og svo koma fulltrúar S.H. á fund fulltrúa Sovétríkjanna hér í Reykjavík og byrja að semja. Og hvað gerist? Hv. 2, þm. Vesturl. skýrði ekki frá því hér í gær. Um alllangt árabil hafði verðið, sem Sovétríkin höfðu gefið fyrir freðfisk, verið 128 sterlingspund á tonn. Svo koma fulltrúar Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna og segja við fulltrúa Sovétríkjanna hér: Það verð, sem við nú viljum fá, er 184 sterlingspund á tonn. Þetta kemur dagana eftir að búið er að lýsa því yfir, að það sé nauðsynlegt að losa sig við austurviðskiptin. Þeir menn, sem stjórna S.H. hljóta að vera teknir nokkurn veginn sem alvarlegir viðskiptamenn. Það er varla gengið út frá því, að þeir séu einhverjir braskarar, sem ætla í dag að ná einhverjum toppprís og á morgun að setja verðið niður fyrir allt. Það verður að taka þessa menn alvarlega.

Hvað þýðir það, þegar menn hafa í mörg ár gert meginið af viðskiptunum með helminginn af freðfiskinum, sem seldur hefur verið frá Íslandi, fyrir 128 sterlingspund á tonnið og koma allt í einu og segja: Nú heimta ég 184 sterlingspund — og engar stórbreytingar almennt á mörkuðum? Þetta þýðir það, að það er verið að segja við viðskiptavininn: Nú þarf ég ekki lengur að tala við þig, góði. Nú ætla ég ekki að verzla meira við þig, góði. — Og hv. 2. þm. Vesturl. getur spurt hvaða verzlunarmann sem er, hvar í heiminum sem er, hvernig svona hlutur mundi vera skilinn. Þetta var tilkynning um það, að þeir kærðu sig ekkert um þessi viðskipti, að S.H. kærði sig ekkert um þessi viðskipti. Hvað því hefur valdið, veit ég ekki og er ekki svo kunnugur innanhúss í Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna. Ég veit ekki, hvort Jón Gunnarsson hefur kannske álitið, að hann væri í þann veginn að brjóta niður Unilever í Englandi, Unilever væri nú að gefast upp og búðir S.H. mundu fljóta þarna yfir London, eða hvort hann hefur sett svo mikla von á, að í hinu landi Unilevers, í Hollandi, mundu þjóta upp búðirnar, sem nú er hætt við að reisa, eða hvort Jón Gunnarsson hefur gengið út frá því, að í Ameríku mundi ekki eina verksmiðjan þar nægja lengur, það yrði að byggja aðra í viðbót einhvers staðar annars staðar, kannske á heppilegri stað. Ég er ekki kunnugur hugsanagangi þeirra manna, sem svona stjórna. En ef hann hefur hugsað eitthvað svipað og þeir menn Morgunblaðsins, sem álitu, að nú væri farið að brjóta niður austurviðskiptin og það mundi allt standa okkur opið í vesturlöndum, Unilever væri bara smákarl, sem við gætum sparkað út af brezka markaðnum, þá er náttúrlega ósköp skiljanlegt, að Jón Gunnarsson segi stjórnendum S.H. að segja bara við Rússa: Nú skuluð þið heimta 184 sterlingspund. Ef þeir vilja kaupa á því verði, þá geta þeir fengið eitthvað, annars höfum við ekkert með þá að gera. — Svona hlýtur hver maður að skilja þetta. Þetta voru aðferðirnar, sem hafðar voru af hálfu S.H. Svo er ekki til neins að koma hér og segja: Það er Rússunum að kenna, að það er ekki selt meira þangað. Það er ekki hægt að fara svona að við viðskiptavininn. Þetta er sama sem að segja við viðskiptavininn annaðhvort: Ég vil ekki verzla við þig, eða: þú ert svo vitlaus, að mér er óhætt að heimta hvað sem er af þér.

Ég verð nú satt að segja að segja það, að menn, sem yfirleitt koma svona fram í viðskiptum með stærstu útflutningsvöru Íslands, mér sýnist þeir alllítt færir um að hafa þessi viðskipti á hendi. Ég er hræddur um, að þeir þurfi mjög alvarlega að athuga sinn gang, og a.m.k. er bezt fyrir þá að stinga hendinni í eigin barm, ef eitthvað gengur illa, og fara ekki að reyna að skella skuldinni á aðra. Eftir alla þá vanrækslu, sem stjórn S.H. hefur sýnt í því að reyna virkilega að vinna upp markaðinn í Rússlandi og gera okkar flök þar vinsæl, þá var það eins og kórónan á allt saman að fara allt í einu fram á það í fullri alvöru, að verðið væri sett úr 128 sterlingspundum upp í 184. Svona er ekki hægt að fara að. Og ég efast ekki um, að þetta hefur valdið okkur stórtjóni. Þetta eyðileggur viðskipti, að koma fram á þennan máta. Hitt er svo allt annað mál, að reyna að þoka upp verðinu hjá Sovétríkjunum. Það er allt annað mál. Þó á maður að gera það af einhverri alvöru og með því að sýna einhvern áhuga fyrir að koma vörunni þar inn, en ekki með svona aðferðum og sízt af öllu þegar verið er um leið að hefja áróður fyrir því, að það eigi að fara að brjóta niður þessi viðskipti. Þeir menn, sem við þá erum að eiga við, skilja fullvel, fyrr en skellur í tönnunum, og það er til fiskur víðar en á Íslandi, þó að hann sé ekki eins góður.

Ég vil vonast eftir því, þó að seint sé, að hv. 2. þm. Vesturl. verði nú við því að svara einhverju af því, sem fram hefur komið nú í þessum málum, bæði af hálfu hv. 4. þm. Austf. og af minni hálfu. Ég verð að segja það og taka undir það, sem hv. síðasti ræðumaður sagði, að mér finnst S.H. hafa farið mjög mikið út fyrir sinn verkahring í sambandi við fjárfestinguna erlendis. Og vissulega er áslandið þannig í þessum málum, að það vantar raunverulega alla löggjöf um þessi útflutningsfyrirtæki okkar, um þessi samlög. Þar er allt á huldu, allt í óvissu um þetta, alveg eins og hv. 4. þm. Austf. kom með hér síðast í sinni ræðu. Þetta er algert ófremdarástand, sem verður að ráða bót á, áður en eitthvert stórfjármálahneyksli hlýzt af. Allur fjárhagsgrundvöllurinn að S.H. og sérstaklega þessum eignum erlendis er ákaflega vafasamur. Og í minni tillögu tala ég enn fremur um veð ríkisbankanna í þessu sambandi. Þar er — ég skal ekki kannske segja beint hætta á ferðum, en það en þó a.m.k. vissir erfiðleikar. Ég skal ekkert fullyrða um, hvað mikið það er, sem ríkisbankarnir, Útvegsbankinn og Landsbankinn, eiga raunverulega þannig hjá S.H. en ég gæti vel trúað, að það gæti skipt 100—200 millj., ég hef ekki hugmynd um það. En það eru a.m.k. allmiklar fjárhæðir, sem þarna er um að ræða, svo að fyrir utan það, að það þarf að varðveita og tryggja rétt sjómanna og útvegsmanna og hraðfrystihúsaeigenda og annarra slíkra í þessu sambandi og verkafólksins, hvers fyrir sig, þá þarf að tryggja þarna líka bankana.

Það, sem ég álít höfuðatriði í sambandi við þetta mál, er, að þessi rannsókn verði látin fara fram og að þessi till. verði samþykkt. Það var slæmt, að sú till., sem ég flutti í fyrra, skyldi ekki vera samþ. þá. Það hefði vafalaust mátt afstýra ýmsu af þeim óhöppum, sem máske hafa hlotizt af ráðslaginu þarna öllu saman síðan, og ég vil leggja höfuðáherzlu á, að það fáist greið afgreiðsla á þessu máli.

Ég hafði lagt til, að þetta mál færi til fjhn. Ég hef orðið var við, að hæstv. ríkisstj. vill gjarnan, að það fari til sjútvn. Það út af fyrir sig skiptir ekki svo miklu máli. Hitt er aðalatriðið, að sú nefnd, sem fær þetta mál til meðferðar, athugi þetta mál vel og afgreiði þetta mál. Ég álít, að það væri ekki vansalaust fyrir Alþ. að hlaupa þannig frá þessu máli nú í annað skipti, sem það er lagt hér fyrir, að það sé ekki afgreitt. Það er of þýðingarmikið mál hér á ferðinni til þess, og of margir Íslendingar eiga af mikið undir því, sem hér er verið að gera, til þess að Alþingi láti það afskiptalaust eða svæfi það.