06.02.1962
Sameinað þing: 42. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 650 í D-deild Alþingistíðinda. (3637)

112. mál, fjárfesting Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna erlendis o.fl.

Sigurður Ágústsson:

Hæstv. forseti. Það hefur verið beint að mér ýmsum spurningum frá hv. 3. þm. Reykv. og hv. 4. þm. Austf. í sambandi við Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, en ég er stjórnarmeðlimur í því fyrirtæki. Ég var satt að segja dálítið undrandi yfir þeim mörgu fyrirspurnum, sem hv. 4. þm. Austf. beindi að mér sem stjórnarmeðlim Sölumiðstöðvarinnar, og sömuleiðis, að hann skuli koma með fyrirspurnirnar fram hér á Alþingi, því að hann hefur vissulega haft aðstöðu til að flytja slíkar fyrirspurnir og slíka gagnrýni fram á öðrum vettvangi, sem slíkar fyrirspurnir eiga meira heima á, eða á aðalfundum S.H., sem þessi virðulegi þm. hefur setið ár eftir ár. Það er vissulega meiri nytsemd, að slík gagnrýni, ef réttmæt væri, kæmi fram á slíkum fundum heldur en hér á hinu háa Alþingi, yfir hv. þm., sem tiltölulega litið þekkja til þessara mála. En það þykir heppilegra hjá þessum hv. þm. og sömuleiðis hjá hv. 3. þm. Reykv. að beina geiri sínum hér á hinu háa Alþingi í stað þess að koma með þessa gagnrýni fram á þeim vettvangi, sem ég benti á og hv. 4. þm. Austf. hefur haft aðstöðu til, og það siðast á aðalfundi 1961, eftir að hv. 3. þm. Reykv. hafði flutt till. sína til þál. hér á hinu háa Alþingi.

Ég tel að mestu óþarft að svara þeim fyrirspurnum, sem hv. 4. þm. Austf. beindi til mín, en vil þó, sérstaklega í sambandi við það, að hann vildi hér leiða athygli hv. þm. að því, að fiskverksmiðja sú. sem byggð hefur verið á vegum Coldwater Seafood Corporation í Nanticoke, væri mjög vafasöm eign og stofnkostnaður hennar hefði orðið óeðlilega mikill, svara því nokkrum orðum. Mun hv. þm. beina þessum fyrirspurnum fram af þeirri ástæðu, að tveir söluframkvæmdastjórar, sem voru á vegum Coldwater í Bandaríkjunum, hafa í skýrslu, sem hv. alþm. hefur líklega haft aðgang að, talað um, að þessi fiskverksmiðja væri vafasöm eign. Ég get upplýst það, að eitt stærsta fyrirtæki í Bandaríkjunum á sviði framleiðslu matvæla úr frystum fiskblokkum hefur skrifað hæstv. atvmrh. og boðizt til að kaupa þessa verksmiðju, og raunar einnig boðizt til að leigja hana, en aðeins sett sem skilyrði, að þeir fengju að vera kaupendur að vissu fiskmagni, þannig að þeir gætu tryggt rekstur verksmiðjunnar. Ég tel, að með slíku tilboði sé þessi fullyrðing slegin niður, þar sem eitt stærsta fyrirtæki Bandaríkjanna á þessu sviði virðist hafa áhuga fyrir því í dag að kaupa verksmiðjuna.

Í stuttri ræðu, sem ég flutti hér í gær, lýsti ég yfir því, að ég mundi svara ýmsum þeim fyrirspurnum, sem hv. 3. þm. Reykv. bar hér fram og hv. þm. má vera ljóst, að ég er ekki reiðubúinn að svara á stundinni, þó að ég sé stjórnarmeðlimur í S.H. Það voru svo margvíslegar spurningar og gengu vítt og breitt, að það er ekki á færi mínu sem stjórnarmeðlims þessa fyrirtækis að svara því nema með nokkrum undirbúningi. Hins vegar lýsti ég því yfir þá, að ég mundi, þegar þessi till. til þál. kemur úr nefnd, gefa upplýsingar um ýmis þau atriði, sem hv. þm. bar fram.

Ég er dálítið undrandi á málflutningi hv. 3. þm. Reykv. í sambandi við sölu á fiski til Rússlands.. Eins og ég lýsti yfir í gær, er það sameiginlegt álit allrar stjórnar S.H., að það sé mjög æskilegt að geta haldið uppi viðskiptum við þetta stóra viðskiptaland, og eins og hv. þm. mætti vera ljóst, þá var mjög miklum erfiðleikum háð að halda þeim viðskiptum áfram sökum þess, hve Rússarnir voru erfiðir að hlusta á nauðsyn þess, að verð á þeim fiski, sem gert var ráð fyrir að selja til Rússlands, yrði hækkað að verulegum mun. Það hefur verið alger neitun frá Rússanna hendi um nokkra hækkun um 7 ára skeið á þorskflökum. Þetta veit hv. þm., og þess vegna var, eins og markaðshorfur voru fyrir sölu frysts fisks á öðrum mörkuðum, bæði í Evrópu og Bandaríkjunum, óhugsanlegt, að stjórn S.H. gæti lagt til við meðlimi sína, að þeir framleiddu fisk fyrir Rússland til sölu á verði, sem var langt undir því, sem aðrir markaðir gátu tryggt, eða aðeins 128 sterlingspund fyrir smálestina.

Bæði hv. 3. þm. Reykv. og hv. 4. þm. Austf. hafa borið þá spurningu fram við mig, hvort ég teldi þörf á því, að þessi rannsókn færi fram. Ég tel hana með öllu óþarfa. Eins og ég tók fram í gær, hafa viðskiptabankar Sölumiðstöðvarinnar tekið þá ákvörðun að senda fulltrúa sína til Bandaríkjanna til þess að framkvæma talningu á fiskbirgðum þar, og þegar það er vitað, að jafnframt fá viðskiptabankarnir reikninga Coldwaters fjórum sinnum á ári, eða ársfjórðungslega, og fylgjast því með öllum eignahreyfingum og öðru slíku hjá þessu fyrirtæki, þá tel ég þá till. til þál., sem hér liggur fyrir frá hv. 3. þm. Reykv., óþarfa. Það er mitt álit. Ég tel einnig mjög óheppilegt, að það sé verið að blanda í umr hér á Alþ. rekstrarfyrirkomulagi stærsta útflutningsfyrirtækis Íslendinga, sem S.H. vissulega er, og það getur aldrei haft annað í för með sér en tortryggni. Ég álít það óþarfa tortryggni, þrátt fyrir allar þær fullyrðingar, sem hv. 3. þm. Reykv. hefur haft hér í frammi um það gagnstæða. Ég er þó ánægður að heyra það af munni hv. 4. þm. Austf., að hann telur þessi samtök, sem meðlimir hraðfrystihúsanna hafa myndað með sér, ekki einungis gagnleg, heldur og sjálfsögð.

Ég mótmæli því enn, að stjórn Sölumiðstöðvarinnar hafi nokkru sinni farið þess á leit við hæstv. ríkisstj., að S.H. fengi einkaleyfi fyrir sólu á frystum fiski á erlenda markaði. Þetta er röng staðhæfing hjá hv. þm. Hins vegar er það álit mitt og ég held flestra frystihúsaeigenda, fiskvinnslustöðvaeigenda, og einnig hv. 4. þm. Austf., að það sé mjög nauðsynlegt, að samtök eins og S.H. séu starfandi, og ekki vitað, hvað hollt það er, að allt of margir aðilar fari að selja frystan fisk á erlendum markaði. Ég held, að þetta sé almenn skoðun frystihúsaeigenda hér á landi, að það muni ekki gefa betri raun að láta allt of marga seljendur fara að annast sölu á frystum fiski á erlendum markaði, og ég tel, að eftir þeirri reynslu, sem Íslendingar hafa fengið af sölumálum útflutningsafurða í sambandi við beina frjálsa sölu á fiskmjöli og lýsi, að oft hefur sala á þessum afurðum tekizt mjög miður, vegna þess að þessar afurðir hafi verið á boðstólum hjá of mörgum sölumönnum. Og sérstaklega þegar framboðið er mikið, þá er miklu meiri hætta á undirboðum, því að hinir mörgu seljendur leggja megináherzlu á að koma sölunni í gegn, og þá er ekki alltaf hugsað um það, hvort fáist einu sterlingspundi meira eða minna fyrir smálestina, þegar verið er að knýja á, að sala takist.

Hv. 4. þm. Austf. og ég erum þarna á sömu skoðun, þó að hann að öðru leyti fylgi flokksbróður sínum að málum við ýmsa gagnrýni á hendur S.H. En eins og ég tók fram áðan, væri æskilegra, að slík gagnrýni kæmi fram á aukafundum og aðalfundum Sölumiðstöðvarinnar, þar sem hv. þm. hefur haft aðstöðu til að mæta, heldur en hér í sölum Alþingis.

Ég mun, þegar till. kemur úr nefnd, gera henni nánar skil og mun þá ráða yfir frekari upplýsingum en ég ræð yfir í dag.