22.02.1962
Neðri deild: 53. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 663 í D-deild Alþingistíðinda. (3650)

116. mál, viðskipti fjármálaráðuneytisins við Axel Kristjánsson

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Hæstv. forseti. Í sambandi við það mál, sem hér liggur fyrir til umr., vildi ég leyfa mér að gefa eftirfarandi upplýsingar:

Ríkisstj. tók á árinu 1959 að sér rekstur togarans Brimness eftir beiðni forráðamanna Seyðisfjarðarkaupstaðar, skv. heimild í 22. gr. fjárlaga fyrir árið 1959, og fól Axel Kristjánssyni forstjóra útgerðarstjórnina. Heimildin gilti samkv. fjárlögum til 1. sept. 1959, en útgerðinni var haldið áfram nokkru lengur vegna beiðni bæjarstjórnar Seyðisfjarðar, sem ekki þótti fært annað en verða við. Þegar útgerð Axels Kristjánssonar á Brimnesi lauk, var af hálfu fjmrn. þegar í stað gerð gangskör að því að krefjast reikningsskila. Þegar reikningsskil bárust rn., var skipuð skilanefnd til athugunar á þeim og til þess að hafa umsjón með endurskoðun reikninganna. Endurskoðunina framkvæmdu tveir starfsmenn ríkisendurskoðunarinnar á vegum skilanefndar. Eftir að endurskoðun var lokið og skilanefnd hafði afhent athugasemdir sínar, taldi fjmrn. rétt að fá umsögn ríkisendurskoðanda. Er málið nú til lokaathugunar í ráðuneytinu.

Að því er varðar hlutafélagið Ásfjall, hefur bú þess verið tekið til gjaldþrotaskipta og mun sæta venjulegri meðferð búa undir gjaldþrotaskiptum.