27.10.1961
Sameinað þing: 9. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 670 í D-deild Alþingistíðinda. (3657)

37. mál, rafstrengur til Vestmannaeyja

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það er rétt, sem hv. fyrsti fyrirspyrjandi sagði hér áðan, að í fyrra var því lýst hér yfir, að öllum tæknilegum undirbúningi til þess að leggja rafstreng til Vestmannaeyja væri lokið, og það var 14. nóv. 1960, sem gerð var pöntun á rafstrengnum frá dönsku firma. Það hafði farið fram nákvæm athugun á því, hvar væri hugsanlegt að gera hagkvæmust kaup, einnig á því, hvaða gerð af rafstreng væri heppilegust. Tæknilegum undirbúningi var lokið, og var gerð pöntun á 18.5 km streng og auk þess 1.5 km, sem átti að vera til vara, samtals 20 km. Pöntunin var þó gerð með þeim fyrirvara, að það mætti breyta lengdinni á strengnum, lengja hana eða stytta, ef ástæða þætti til við nánari rannsókn. Þegar verksmiðjan tók við pöntuninni, taldi hún líklegt, að hún gæti lokið við að fullgera strenginn það snemma s.l. sumar, að tími ynnist til að leggja strenginn, en það þykir ekki heppilegt að gera það á öðrum tíma en í júlí- eða ágústmánuði. Þegar leið á veturinn, þótti það sýnt, að strengurinn yrði ekki tilbúinn nægilega fljótt, til þess að hann yrði lagður s.l. sumar.

Þá vildi það til seinni part vetrar, að nokkrir menn hittust og voru að tala um það, að þetta væri ótrúlega löng lína, sem þyrfti milli lands og eyja. Einn minntist á það, að hann hefði alltaf heyrt, að þetta væri ekki nema 10—12 km vegalengd, en þarna væri gert ráð fyrir 18.5 km streng. Pétur Sigurðsson forstjóri landhelgisgæzlunnar kvaðst vera reiðubúinn að athuga, hvort ekki væri önnur leið styttri og heppilegri milli lands og eyja heldur en sú, sem verið hafði ákveðin. Og hann sagðist meira að segja hafa grun um, að það mætti finna grjótlausan botn skemmri leið. Og af þessum grun forstjórans, óljósum grun þó, var farið að athuga þetta nánar, og gerði landhelgisgæzlan nákvæma rannsókn á botninum á milli lands og eyja s.l. sumar. Sú rannsókn leiddi í ljós, að það fannst grjótlaus botn, og vegalengdin eftir þeirri leið er ekki nema 12.5 km, eða 6 km styttri en áður var ákveðið.

Það hefur þess vegna verið ákveðið að breyta um línu, og nú hefur pöntuninni verið breytt og verksmiðjunni tilkynnt, að strengurinn þurfi ekki að vera nema 12.5 km og 1 km til vara. Á þessu sparast stórfé, eða 1/3 þess kostnaðar, sem áður var áætlaður. Og jafnvel þó að ekkert annað hefði unnizt við þetta heldur en aðeins það, þá var það jafnvel tilvinnandi fyrir Vestmanneyinga að bíða í eitt ár, og þá sérstaklega vegna þess, að þeir eru ekki raforkulausir. Það var bætt úr því á þessu ári, að þeir fengu góða og stóra dísilvél til viðbótar því, sem þeir hafa, en það þykir nauðsynlegt í Vestmannaeyjum að hafa nægilega stórar varavélar, enda þótt rafstrengurinn sé kominn, því að það væri ekki hyggilegt að treysta eingöngu á hann, það getur komið fyrir, að hann slitni. Þótt ekki sé talið líklegt, að það verði, þá mun enginn Vestmannaeyingur vilja eiga það undir strengnum einum, hvort rafmagn er þar eða ekki.

Ástæðan fyrir því, að strengurinn var ekki lagður á s.l. sumri, er fyrst og fremst sú, að verksmiðjan taldi sig ekki vera tilbúna nægilega fljótt í sumar, og að nokkru leyti kannske sú, að það var ekki rekið á eftir verksmiðjunni, þegar kom fram á vor, eftir að þessi grunur Péturs Sigurðssonar kom í ljós, að það fyndist mun styttri leið, einum þriðja styttri leið, sem unnt væri að nota fyrir strenginn, heldur en áður var. Og ég hygg, að það lái enginn raforkumálastjórninni, þótt verkinu hefði verið frestað aðeins af þessari einni ástæðu, því að þarna getur verið 3—4 millj. kr. sparnaður frá því, sem áður var reiknað með. En nú er talið, að verksmiðjan hafi rafstrenginn tilbúinn á þessum vetri, og það ætti því ekki að vera nokkur vafi á því, að hann verði lagður á bezta tíma næsta sumar.