27.10.1961
Sameinað þing: 9. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 673 í D-deild Alþingistíðinda. (3662)

301. mál, hækkun framfærsluvísitölu

Fyrirspyrjandi (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér fsp. til hæstv. viðskmrh. um hækkun framfærsluvísitölu. Fsp. er á þessa leið:

„Hvað er gert ráð fyrir, að framfærsluvísitalan hækki mikið frá því, sem hún var í júnímánuði s.l., þegar full áhrif allra þeirra verðhækkana, sem nú er vitað um, eru komin fram? Hvernig skiptist þessi hækkun: a) Vegna kauphækkana? b) Vegna gengislækkunarinnar síðustu? c) Vegna hækkaðrar álagningar, sem leyfð hefur verið á vörur og þjónustu? d) Af öðrum ástæðum og þá hverjum?“

Mér er kunnugt um það, að lengi hefur það verið svo, að ríkisstj. hefur talið sér skylt að fylgjast með því á hverjum tíma, hvaða breytingum framfærsluvísitalan muni taka með tilliti til þeirra almennu aðgerða, sem gerðar hafa verið í landinu á hverjum tíma. Nú liggur það fyrir, að nokkur hækkun muni verða á vísitölunni vegna almennra kauphækkana, sem voru á s.l. sumri, og einnig að sjálfsögðu vegna gengislækkunarinnar, sem samþ. var í ágústmánuði, þá koma hér einnig til áhrifa breytingar þær, sem gerðar hafa verið á almennum álagningarreglum. Ég tel því vist, að hæstv. ríkisstj. hafi látið eins og að undanförnu athuga um þessi mál, en vildi mjög gjarnan fá hér upplýst á Alþingi, við hverju má búast í sambandi við hækkun vísitölunnar á næstu mánuðum samkvæmt þessum athugunum og hvernig þá þessi áætlaða hækkun skiptist á þessa liði, sem tilgreindir eru í fsp., því að það gefur manni strax nokkrar upplýsingar um það, hvernig þetta mál stendur sem heild. Ég vænti svo, að hæstv. ráðh. treysti sér til þess að svara fsp., eins og hún er hér lögð fram.