08.11.1961
Sameinað þing: 13. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 678 í D-deild Alþingistíðinda. (3669)

49. mál, öryggisráðstafanir á leiðinni Reykjavík - Hafnarfjörður

Fyrirspyrjandi (Sveinn S. Einarsson):

Herra forseti. Á síðasta Alþingi fluttu hv. 3. þm. Reykn., hv. 1. landsk. og hv. 8. landsk. till. til þál. um umferðaröryggi á leiðinni Reykjavík–Hafnarfjörður. Till. þessi hljóðaði svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj, að láta í samráði við vegamálastjóra gera athugun á því, á hvern hátt hægt sé að tryggja betur öryggi vegfarenda á leiðinni Reykjavík–Hafnarfjörður en nú er gert, og verði þær úrbætur, sem gerðar verða, miðaðar við lagningu tvöfaldrar akbrautar:

Þáltill. þessi var samþykkt samhljóða, og hafði hv, fjvn, áður mælt með samþykkt hennar. Frsm. fjvn., hv. 6. þm. Norðurl. e., benti á það í umr. um till. þessa, að samkvæmt umferðartalningu vegamálastjórnarinnar hefðu í júlí til október 1960 að meðaltali 10 630 bílar á dag farið yfir brúna á Fossvogslæk og 5250 yfir brúna á Kópavogslæk. Þessi hv. þm. skýrði enn fremur frá því, að samkvæmt skýrslu vegamálastjóra væri talið, ef ég má — með leyfi hæstv. forseta — lesa orðrétt, „að vegur með einni akbraut í hvora átt geti ekki með góðu móti annað meiri umferð en 9–10 þúsund bilum á dag. Haldi byggðin í Kópavogi, Garðahreppi og Silfurtúni áfram að aukast með svipuðum hraða og verið hefur, verður orðið fullkomið umferðaröngþveiti á núverandi vegi milli Reykjavíkur og Kópavogs og umferðin sunnan við Kópavogslæk mun þá einnig komin yfir það hámark, sem núverandi vegur getur annað”.

Ég þarf hér engu við að bæta öðru en því að undirstrika, að vöxtur umræddra byggða hefur haldið áfram með sízt minni hraða en áður var, enda sér þess glögg merki á umferðinni á umræddum vegi.

Mér er að sjálfsögðu ljóst, að undirbúningur aðgerða í þessu mikla vandamáli tekur óhjákvæmilega nokkurn tíma. En ég vil leyfa mér að minna á, að miklir hagsmunir reka á eftir, að þessum aðgerðum sé hraðað, eftir því sem kostur er. Ekki aðeins er um sérstakt vandamál að ræða fyrir Kópavogsbæ, þar sem þessi mikla gegnumgangandi umferð fer um hjarta bæjarins þvert á leið tuga eða hundraða unglinga á ferð til skóla, auk allra þeirra, sem fara í eða úr almenningsvögnum á þessum vegi, heldur er þessi vegur einnig aðalumferðaræð byggða með nálægt 20 þús. íbúa sunnan Fossvogslækjar.

Herra forseti. Með tilliti til þessa hef ég leyft mér að bera fram svo hljóðandi fyrirspurn til hæstv. samgmrh., sem prentuð er á þskj. 58:

„Hvað liður framkvæmd þáltill. þeirrar, sem samþ. var á síðasta Alþingi um aukið umferðaröryggi á leiðinni Reykjavík—Hafnarfjörður?”