22.11.1961
Sameinað þing: 17. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 682 í D-deild Alþingistíðinda. (3675)

66. mál, rafvæðing Norðausturlands

Fyrirspyrjandi (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Samkv. 10 ára áætlun um rafvæðingu landsins, eins og hún lá fyrir á árinu 1957, var gert ráð fyrir, að svonefnd Norðausturlandsveita frá Laxárvirkjun yrði lögð á árunum 1962–1963 eða lokið á þeim árum, þ.e.a.s. á tveim síðustu árum áætlunarinnar. Samkv. uppdrætti, sem þá lá fyrir, átti að leggja háspennulínu frá Húsavík austur í Kelduhverfi, þaðan til Kópaskers og austur yfir heiði til Þórshafnar. En álmu með lægri spennu átti að leggja frá Kópaskeri yfir Sléttu til Raufarhafnar. Frá spennistöðvum í þorpunum þremur og í Kelduhverfi og e.t.v. víðar var svo gert ráð fyrir að dreifa orku um sveitir. Má gera ráð fyrir, að í Kelduhverfi, þar sem þéttbýli í sveitum er mest, gætu 30–40 bæir fengið rafmagn frá þessari línu samkvæmt þeim reglum, sem farið er eftir við dreifingu orkunnar frá almenningsveitum um sveitir. Er þá einnig gert ráð fyrir nokkrum bæjum í Axarfirði.

Á öndverðu þessu ári, þ.e.a.s. á árinu 1961, fluttum við þm. Norðurlandskjördæmis eystra og hv. 10. landsk. till. til þál. þess efnis, að hafinn yrði nú í ár undirbúningur að því verki, sem hér er um að ræða, eða öðrum þeim ráðstöfunum, sem kynnu að geta komið að sama gagni fyrir þau byggðarlög, sem hér er um að ræða. Þessari tillögu var vísað til hv. fjvn. Fjvn. breytti nokkuð orðalagi tillögunnar, og var á það orðalag fallizt til samkomulags af hálfu flm. Málið var síðan afgr. á Alþingi 27. marz s.l. með svo hljóðandi ályktun, með leyfi hæstv. forseta, varðandi rafvæðingu Norðausturlands:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta á árinu 1961 gera rækilega athugun á því, á hvern hátt auðið sé að leysa raforkumál Norður-Þingeyinga á viðunandi hátt innan þeirra takmarka, er 10 ára rafvæðingaráætlunin gerir ráð fyrir:

Þannig var till. samþykkt sem ályktun Alþingis 27. marz 1961. Það var sérstaklega tekið fram í ræðu af hálfu fjvn. í samráði við flm. till., að æskilegt væri, að hæstv. ríkisstj. hefði við framkvæmd ályktunarinnar samráð við raforkumálanefnd Norður-Þingeyinga, en í henni eru m.a. allir oddvitar á því svæði, sem hér er um að ræða. Sú nefnd var kjörin heima í héraði skömmu eftir að rafvæðingarlögin voru sett á Alþingi 1954 og hefur unnið að þessum málum á ýmsan hátt.

Eins og hv. þm. hafa heyrt, er í þál. frá 27. marz kveðið á um, að athugun sú, sem þar er gert ráð fyrir, fari fram á þessu ári. En nú er komið fram í nóvembermánuð, og ég hef í samráði við aðra flm. þáltill. á síðasta þingi leyft mér að bera fram til hæstv. raforkumrh. svo hljóðandi fsp. á þskj. 84:

„Hvað líður framkvæmd þingsályktunar 27. marz 1961 varðandi rafvæðingu Norðausturlands?”

Til viðbótar leyfi ég mér svo að grennslast eftir því, hvort samráð hafi verið haft við raforkumálanefnd Norður-Þingeyinga um þetta mál.