22.11.1961
Sameinað þing: 17. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 687 í D-deild Alþingistíðinda. (3678)

66. mál, rafvæðing Norðausturlands

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. — Hv. fyrirspyrjandi spyr að því, hvort það hafi verið höfð samráð við raforkumálanefnd Norður-Þingeyjarsýslu. Það skal tekið fram eins og áðan, að raforkumálastjóra var send þál, með bréfi og honum falið að framkvæma það, sem í þál. stóð. Og ég er ekki í nokkrum vafa um það, að hann hefur gert það af samvizkusemi og eins og fært var, miðað við þann mannafla, sem hann nú hefur. Og án þess að ég hafi minnzt á þetta atriði við raforkumálastjóra, þá vil ég segja það, að mér þykir mjög sennilegt, að hann hafi haft samband við þessa nefnd. Ég vitanlega lagði ekki fyrir hann, hvernig hann skyldi haga vinnubrögðum í þessu. Hann fékk tillöguna, og það var í hana vitnað að gera þá athugun, sem hún fer fram á. Það hefur verið gert að verulegu leyti, eins og fram kom í bréfi raforkumálastjóra.

Hv. þm. talaði um, að það væri ekki vitað mál, að lína frá Laxárvirkjun um Norður-Þingeyjarsýslu yrði dýrari en aðrar linur, sem lagðar hafa verið eða jafnvel verið er að leggja. Ég skal viðurkenna, að ég er ekki á þessari stundu fær um að gera samanburð á því. Ég hef ekki þetta í huga. En það er áreiðanlega ólíkt raforkumálastjóra að taka þessa línu út úr og mæla gegn henni vegna kostnaðar, en mæla svo með öðrum línum. Mér er ekki kunnugt um, að það hafi nokkur veita verið byggð gegn mótmælum raforkumálastjóra, vegna þess að hann hafi talið hana sérstaklega óhagkvæma. En ég vil benda hv. fyrirspyrjanda á, að það má áreiðanlega benda á aðalveitur, sem eru kostnaðarmeiri en veita frá Laxárvirkjun um Þingeyjarsýslu. En það er vitanlega ekki aðalatriðið, hver stofnkostnaðurinn er á veitunum, heldur það, hvar þörf er fyrir þessa vegna og hvað mikil orkukaup geta farið fram, eftir að búið er að leggja veituna. Og það er undir því komið, hvort veitan er arðbær eða ekki arðbær, eftir því, hvað hún þarf að flytja mikla orku. Ef það væru helmingi fleiri búendur í þorpunum í Norður-Þingeyjarsýslu heldur en er og meiri atvinnurekstur, þá vitanlega yrði þessi lína mun hagstæðari en hún er samkvæmt því, sem nú hefur verið reiknað. Ég skal viðurkenna það, að ég er ekki fagmaður í þessu, og það er hv. fyrirspyrjandi ekki heldur, en ég skal engan dóm leggja á það, hvort Norður-Þingeyingar eiga nú þegar að fá veituna frá Laxárvirkjuninni eða raforkuna með þeim hætti, sem raforkumálastjóri leggur til. Það er álit raforkumálastjóra, að þetta sé óhagkvæmt, það sé hagkvæmara að leysa málið með þeim hætti, sem hann segir. Það er hans álit, en við getum áreiðanlega verið sammála um það öll hér í þessari hv. deild, að þetta er dýrt. Það er dýrt, þegar það kostar 30 þús. kr. á mann. Og þá er eðlilegt, þegar kostnaðurinn er orðinn svo mikill, að það sé athugað, hvort ekki sé annað hagkvæmara, þangað til fólkinu fjölgar og þangað til atvinnureksturinn verður meiri og meiri þörf fyrir orkunotkun á þessu svæði.

Þetta hlýtur að koma upp í umr. um þessa fsp., því að athugun á því, á hvern hátt raforkumál Norður-Þingeyinga verða leyst, hlýtur að byggjast á því að gera sér grein fyrir orkuþöfinni. Ég mun að sjálfsögðu hafa samband við raforkumálastjóra á ný um þessa þál. og inna hann örugglega eftir því, hvort það sé fleira í sambandi við þál., sem fram þarf að taka, sem gæti leitt eitthvað nýtt í ljós eða rennt stoðum undir það, að það væri ekki örugglega hagkvæmast, sem raforkumálastjóri bendir á. Þetta virðist nú liggja nokkuð ljóst fyrir af bréfum raforkumálastjóra, hvað að hans áliti sem fagmanns er hagkvæmast í þessu efni, en svo er það hins vegar þingsins að taka ákvarðanir um, hvort það skuli haft að engu og önnur leið farin.