22.11.1961
Sameinað þing: 17. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 689 í D-deild Alþingistíðinda. (3679)

66. mál, rafvæðing Norðausturlands

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Þetta er að sjálfsögðu ekki vettvangur, eins og sagt hefur verið, til þess að ræða almennt um raforkumál Norður-Þingeyinga og lausn þeirra, heldur, eins og hv. fyrirspyrjandi gat um, fyrst og fremst um það að ræða að fá upplýsingar um, hvað gert hefur verið í sambandi við framkvæmd þeirrar þál., sem samþykkt var hér á síðasta þingi eftir tilhlutun þingmanna þessa kjördæmis. En það var aðeins einstakt atriði, sem ég vildi ræða í sambandi við framkvæmd málsins og óska eftir, að hæstv. ráðh. tæki sérstaklega til athugunar við raforkumálastjóra.

Í tillögu okkar er það látið liggja á milli hluta, hvernig þessi mál séu framkvæmd. Við gerðum okkur fullkomlega grein fyrir því, að það mundi verða erfitt um vik, eins og sakir standa, að fá lagða þá stofnlínu, sem ráðh. vék að í sinni ræðu áðan og vissulega er mjög dýrt mannvirki, og það var með fullkomnu raunsæi þess vegna, sem þessi tillaga var flutt, og engar staðhæfingar bornar fram, sem ekki fengju auðveldlega staðizt. Það, sem var því efni málsins hjá okkur, var, að það yrði rannsakað, eftir hverjum leiðum öðrum væri auðið að ná svipuðum árangri. Það er auðvitað veigamikið atriði í þessu sambandi að fá orkuna við sama verði og er í öðrum byggðarlögum, þar sem héraðsrafmagnsveitur ríkisins selja orku. Og því marki má vissulega ná með því móti, að rafmagnsveiturnar yfirtaki dísilstöðvar í kauptúnunum og selji raforkuna þaðan við sama verði og frá vatnsaflsstöðvum. En það, sem hins vegar vakti fyrir okkur, að athugað yrði til viðbótar þessu, sem við gerðum okkur vel ljóst, var sá möguleiki, hvort ekki væri auðið að tengja einstök byggðarlög til að byrja með við þessar orkustöðvar í kauptúnunum, til þess að tryggja það, eins og segir í ályktuninni, að íbúar í þessu héraði fái viðunandi raforku a.m.k. ekki seinna en 10 ára áætlunin gerir ráð fyrir. Og það er atriði, sem mér sýnist eftir bréfi raforkumálastjóra að dæma að ekki hafi verið gerðar athuganir á, hvaða sveitir væri hugsanlegt með skipulegum hætti að tengja til að byrja með við dísilstöðvarnar í kauptúnunum.

Ég skal taka það fram, að Norður-Þingeyingar hafa haft um þetta samstarf sín í milli og haft raforkumálanefnd, sem hv. fyrirspyrjandi gat um, og mér er kunnugt um það af málflutningi þeirrar nefndar við okkur þingmennina, að þeir menn, sem í henni sitja, líta á þetta mál af fullkomnu raunsæi og eru ekki með neinar kröfur, sem þeir sjá fram á að ekki fái staðizt með sæmilegum hætti. Ég hefði því talið, að það væri fyrir framgang málsins og friðsamlega lausn þess mjög skynsamlegt, að þessir menn væru hafðir með í ráðum, því að ég hef ekki að óreyndu a.m.k. trú á, að þeir muni gera óeðlilegar kröfur í þessu sambandi. En ég hefði talið það mjög æskilegt, að nú þegar yrði um það hafizt handa, ef það ekki þegar hefur verið gert, sem mér sýnist ekki eftir bréfi raforkumálastjóra, að rannsaka það rækilega, hvaða línur kæmu til greina út frá þeim dísilstöðvum, sem nú eru til, eða sem mætti leggja með aukningu þeirra dísilstöðva. Ég hygg, að það séu til línur, sem hæglega gætu fallið innan núverandi 10 ára áætlunar, og að það kynni þess vegna að vera auðið á þennan hátt að fá fram jafnvíðtæka rafvæðingu þessara byggðarlaga og 10 ára áætlunin gerði ráð fyrir.

Ég skal svo ekki, herra forseti, lengja þetta mál. En ég taldi rétt, að þetta atriði kæmi fram til skýringar á, að það var m.a. þetta, sem vakti fyrir okkur flm. þáltill. að yrði kannað til hlítar. Við vissum hins vegar að sjálfsögðu um þær leiðir, sem fyrir voru, til þess að rafvæða með dísilstöðvum og einkarafstöðvum, þar sem aðstaða væri til, en ef hægt væri að leggja þessar línur út um héruðin, þar sem vegalengdir væru ekki meiri en eðlilegt mætti teljast, þá væru þær línur til staðar og þetta verk unnið, þegar svo að því kemur, sem hlýtur að verða innan tíðar, að fært þyki að leggja stofnlínu í þessi byggðarlög.