18.12.1961
Sameinað þing: 29. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 468 í B-deild Alþingistíðinda. (368)

1. mál, fjárlög 1962

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Við þingmenn Framsfl, í Norðurl. v. höfum flutt fáeinar brtt. við fjárlfrv., sem er að finna á þskj. 244. Ég er fyrsti flm. að einni af þeim brtt., brtt. II á því þskj. Ég ætla aðeins að segja nokkur orð um hana, en meðflm. mínir að hinum till. munu gera grein fyrir þeim.

Þessi brtt., sem er við 11. gr. A, er um það, að þar verði settur inn nýr liður og að veittar verði til sumarlöggæzlu á Sauðárkróki 30 000 kr. þessi brtt. er flutt í samræmi við óskir frá sýslumanni, sem fram koma í bréfi frá honum til dómsmrn. Ástæður, sem færðar eru fram fyrir þessari beiðni, eru þær, að íbúatala er þarna orðin nokkuð há, 1200 íbúar á staðnum, auk þess allfjölmennt hérað, sem að liggur. Á sumrin er þarna allmikið um aðkomubáta og aðkomufólk, og umferð er einnig þarna talsvert mikil yfir sumarið. Af þessum ástæðum er löggæzla talin þarna ófullnægjandi yfir sumarmánuðina. Mér er að sjálfsögðu ljóst, að það er í mörg horn að líta í þessu efni. En ég fæ ekki betur séð en þessi staður sé sambærilegur við ýmsa þá staði aðra, sem fjárveitingu hafa fengið í fjárlögum í þessu skyni. Hér er farið fram á mjög smáa fjárveitingu.

Ég vænti þess, að hv. þm. líti með vinsemd á þessi tilmæli og þeir geti greitt þessari brtt. atkvæði. Ég sé ekki ástæðu til að hafa um hana fleiri orð.