22.11.1961
Sameinað þing: 17. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 690 í D-deild Alþingistíðinda. (3682)

80. mál, öryrkjamál

Fyrirspyrjandi (Björn Jónsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja ásamt 1. þm. Austf. fsp. til hæstv. ríkisstj. um öryrkjamál. Fsp., sem er á þskj. 102, hljóðar svo:

„Hvað líður framkvæmdum á tillögum milliþn. um öryrkjamál?“

Forsaga þessa máls er sú, að vorið 1959 kaus Alþingi mþn., sem fengið var það verkefni að rannsaka og gera heildartillögur um lausn á atvinnumálum og félagslegum vandamálum öryrkja í landinu, en þannig var verkefni n. skilgreint í þeirri þáltill., sem samþykkt var um þessa nefndarskipun og flutt hafði verið af þingmönnum úr öllum flokkum, en fyrsti flm. hennar var núv. hæstv. fjmrh. Mér og áreiðanlega flestum þeim, sem eitthvað eru hugleikin mál öryrkja, er vel kunnugt um, að þeir almennt og samtök þeirra sérstaklega væntu sér mjög mikils af starfi þessarar nefndar og hugðu, að tillögur hennar yrðu þungar á metum hjá stjórnarvöldum og yrðu undirstaða verulegs átaks af þeirra hálfu til þess að ráða fram úr mjög mikilvægu þjóðfélagslegu vandamáli.

Mþn. vann ágætt starf og af mikilli kostgæfni og varð í öllum atriðum sammála um tillögur til ríkisstj., en þær voru lagðar fyrir hana í októbermánuði 1960, fyrir rösku ári. Auk þess starfaði svo n. að lausn ýmissa vandamála öryrkjasamtakanna á annan hátt, m.a. með því að beita sér fyrir greinilegri starfsskiptingu þeirra og fyrir stofnun öryrkjabandalags, sem nú er komin í framkvæmd, og fleira mætti tilgreina, sem n. fékk til vegar komið og ekki heyrir beint undir ríkisvald eða ríkisstj. Hér eru ekki tök á og ekki ástæða til að rekja allar tillögur mþn., en ég vil nefna eftirfarandi fjögur meginatriði, sem öll snúa sérstaklega að ríkisstj. og löggjafarvaldinu.

Það er í fyrsta lagi, að erfðafjársjóður yrði efldur með árlegu ríkisframlagi með því markmiði, að öryrkjaheimili og vinnustofur njóti erfðafjárskatts óskerts, eins og til var ætlazt, þegar lögin um hann voru sett.

Í öðru lagi, að öryrkjar eigi kost á að eignast húsnæði með þeim kjörum, sem lagaákvæði um útrýmingu heilsuspillandi húsnæðis gera ráð fyrir. Um þetta efni samdi mþn. frv. og lagði það fram í nál. sínu.

Í þriðja lagi, að starfsgrundvöllur þeirra samtaka, sem alveg sérstaklega skortir fasta tekjustofna, verði tryggður með því í fyrsta lagi að leggja þriggja krónu gjald á hvert kg. af innlendum tollvörum í hæsta tollflokki og rynni það fé til Sjálfsbjargar, landssambands fatlaðra, í öðru lagi, að gjald það, sem á er lagt samkv. 22. gr. fjárlaga og rennur til Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra, hækki um 10 aura á hvern eldspýtnastokk og renni það einnig til þess félags.

Í fjórða lagi, að eftirgjafir aðflutningsgjalda af bifreiðum öryrkja verði afskrifaðar á 5 árum og hlunnindi varðandi önnur farartæki þeirra verði aukin. Óska ég sérstaklega, að upplýst verði um framkvæmdir eða undirbúning framkvæmda á þessum tillögum af hálfu hæstv. ríkisstj. Mþn. varð sammála um, að öryrkjasamtökin gætu ekki leyst af hendi þau þjóðfélagslegu verkefni, sem hugsað er að þau létti raunverulega af ríkinu, nema með því, að þau fengju aukna tekjustofna, eins og tillögurnar gera ráð fyrir, og því beri að skaða fyrirætlanir og framkvæmdir í þá átt mikilvægustu atriðin í sambandi við þessi mál. Því er lögð áherzla á það af hálfu okkar fyrirspyrjenda að fá glöggar upplýsingar um þessi atriði og fyrirætlanir þau varðandi, því að þau eru þannig vaxin, að þar hefur hæstv. ríkisstj. raunverulega úrslitavaldið í sínum höndum.