22.11.1961
Sameinað þing: 17. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 691 í D-deild Alþingistíðinda. (3683)

80. mál, öryrkjamál

Sjútvmrh. (Emil Jónason):

Herra forseti. Tvær veigamestu tillögurnar í nál. öryrkjamálanefndarinnar felast væntanlega í þeim tveimur frumvörpum, sem fylgdu nál. Þar er, eins og hv. fyrirspyrjandi skýrði réttilega frá, í fyrsta lagi lagt til, að öryrkjar skuli njóta þess réttar til úthlutunar byggingarlána, sem um getur í 1. mgr. 16. gr. 1., enda séu þeir að stofna heimili eða koma úr húsnæði, sem er þeim sérlega óhentugt. En þetta þýðir, eins og kunnugt er, að öryrkjar hér njóta beztu lánakjara til íbúðabygginga, sem völ er á. Þetta hefur verið til athugunar og er til athugunar hjá þeirri nefnd, sem nú endurskoðar lögin um húsnæðismálastjórn. 1511 húsnæðismálalöggjöfin er í endurskoðun, og verður þeirri endurskoðun væntanlega bráðlega lokið. Þótti eðlilegt, að þetta mál yrði undir hana borið, og verður tekið til athugunar og fyrirgreiðslu, þegar sú nefnd skilar sínu áliti.

Í öðru lagi er lagt til, að af innlendum tollvörutegundum, sem taldar eru í lögum nr. 60 1939, um gjald af innlendum tollvörutegundum, I. kafla, nr. 1—7, og II. kafla, nr. 2—5, skuli næstu 10 ár greiða gjald að upphæð 3 kr. af kg og renni þetta gjald til Sjálfsbjargar, landssambands fatlaðra. Verð á sælgæti, sem gjald þetta greiðist af, er heimilt að hækka sem gjaldinu nemur, segir líka í frv.

Þetta mál hefur verið til ýtarlegrar athugunar í félmrn. og auk þess rætt nokkuð á fundum ríkisstj. En það er bezt að játa það strax, að bæði ráðuneytið og ríkisstj. öll hefur verið nokkuð hikandi og óráðin í því, hvað gera skyldi, og þess vegna ekki komið til endanlegrar afgreiðslu málsins. Þetta gjald, sem nú er lagt til, að lagt verði á þessa vöru, sælgæti og súkkulaði, kemur til viðbótar öðru gjaldi, sem innheimt er nú þegar og nemur kr. 41.58 á hverju einasta kg, sem framleitt er, og sýnist það vera svo mikið, að a.m.k. orki tvímælis, hvort verulegu sé á það bælandi.

Það málefni, sem hér um ræðir, er vissulega góðra gjalda vert og þarfnast fjárhagslegs stuðnings frá því opinbera í einhverri mynd. En hins vegar verður ekki hjá því komizt að athuga nánar þá stefnu, sem í frv. felst og hefur raunar komið til framkvæmda á öðrum sviðum, eins og ég skal lítillega koma að siðar. En mér hefur líka verið tjáð, að nokkur brögð mundu vera að því, að ekki kæmu öll kurl til grafar, þegar þessar vörur væru taldar fram til skattgjalds. Um þetta skal ég ekkert fullyrða, en hitt er augljóst, að freistingin í þessu efni vex vitaskuld með hækkuðu gjaldi, sem þegar er orðið mjög hátt. Það hefur því verið leitað að öðrum gjaldstofni, sem ekki væri eins viðkvæmur, og verður þeirri athugun haldið áfram, því að þessi óbeinu skattgjöld á ýmsum vörutegundum í sérstöku augnamiði eru orðin svo mörg og umsóknir um fjölgun þeirra og hækkun talsverðar, þannig að ástæða er til að taka það mál allt upp til endurskoðunar. A.m.k. hefur ríkisstj. ekki treyst sér til þess að ráðast í þetta, án þess að nánari endurskoðun fari fram.

Lamaðir og fatlaðir hafa um skeið notið sérstakrar aðstoðar með gjaldi af eldspýtum, sem nemur 8.47 kr. á hverjum 1000 eldspýtustokkum, sem mun gefa árið 1961 í kringum 600 þús. kr. Nefndin lagði til, að þetta gjald hækkaði um 10 aura á stokk og mundi þá verða í heild, ef samþykkt yrði, talsvert á aðra millj. kr. Þó að óskylt sé, þá má aðeins geta þess, því að það er svipaður gjaldstofn, að til landgræðslusjóðs rennur nú gjald af nokkrum tegundum af sígarettum eða 15 kr. af hverjum 1000 stykkjum eða 11/2 eyrir af hverju stykki, sem gefa mun á þessu ári um 2.8 millj. kr. Þá er til styrktar vangefnum innheimt gjald að fjárhæð 10 aurar af hverri flösku af öli og gosdrykkjum, en þetta gjald nemur nú milli 1 millj. 800 þús. og 2 millj. kr. á ári. En hér er þó um þá sérstöðu að ræða, að þetta gjald rennur í sérstakan sjóð, sem ríkisstj. ráðstafar og hefur eftirlit með til eflingar velferðarmálum hinna vangefnu. Úr þessum sjóði hefur ráðuneytið þegar ráðstafað í byggingarstyrk fyrir vangefna, sem nemur í heild 6 millj. 285 þús. kr.

Nú hafa blindir, sem vissulega hafa þörf fyrir mikinn styrk til sinnar starfsemi, borið fram ósk um að fá 10 aura af hverjum kaffipakka, sem mundi gefa 400—500 þús. kr. á ári, ef samþykkt yrði. Styrktarfélag vangefinna hefur sótt um, að 10 aura flöskugjaldið yrði hækkað upp í 30 aura og mundi þá nema í heild milli 51/2 og 6 millj. kr. Að sjálfsögðu eru mörg önnur félög og félagasamtök, sem vinna að margvíslegum velferðarmálum, sem ætla má að bætist í hóp þeirra, sem fengið hafa liðsinni hins opinbera með þessum sérstaka hætti. Og hætt er því við, að fyrr eða síðar verði að taka þessa þróun mála til endurskoðunar og freista þess, hvort ekki mætti færa þessi mál í annað og betra horf með öðru skipulagi.

Gjald það til Sjálfsbjargar, sem frv. fjallar um, eða 3 kr. af hverju sælgætiskg, 10 aura hækkunin á eldspýtustokki til Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra, 10 aura gjald á kaffipakka til blindra, sem áður er nefnt, og hækkun flöskugjaldsins vegna vangefinna, þetta hefur allt verið í athugun hjá ríkisstj. að undanförnu, en ákvörðun um það, hvernig með þessi mál skuli farið, hefur enn ekki verið tekin, því að ríkisstj. hefur ekki að svo stöddu séð sér fært að ráðast í þessar hækkanir yfirleitt, en vildi áður rannsaka til hlítar, hvort nokkur annar möguleiki væri fyrir hendi.

Af öðrum tillögum tel ég þá einna athyglisverðasta, þar sem nefndin leggur til, að vinnustöðvar verði reistar af öryrkjasamtökunum með fjárhagslegri aðstoð erfðafjársjóðs og reknar af félögunum. Vinnustöðvar reistar með aðstoð erfðafjársjóðs tækju öryrkja til þjálfunar í samráði við hæfnisprófunarstöðvarnar, eins og þetta er orðað í nál. Um þetta vil ég segja, að vinnustöðvum fyrir öryrkja hefur verið komið á fót með fjárhagslegri aðstoð erfðafjársjóðs. Lán og styrkir úr sjóðnum hafa upp á síðkastið verið eins og hér segir, með leyfi hæstv. forseta: Samband ísl. berklasjúklinga hefur fengið í þessu skyni styrk að upphæð 926 500 kr., og það hefur fengið lán úr sjóðnum upp á 3 137 500 kr. Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra hefur fengið 100 þús. kr. styrk og 250 þús. kr. lán. Sjálfsbjörg á Ísafirði hefur fengið 25 þús. kr. styrk. Og Sjálfsbjörg á Siglufirði hefur fengið 40 þús. kr. styrk og 120 þús. kr. lán. Enn má geta þess að úr þessum sjóði, erfðafjársjóði, hafði áður verið veitt til öryrkjavinnustofunnar Sunnu, sem þó því miður virðist ekki hafa náð þeim tilgangi í starfi sinu, sem til var ætlazt, en upphæðin, sem veitt var sem styrkur til hennar, nam 115 þús. og lán 303 þús. kr. Og loks má geta þess, að Blindrafélagið hefur fengið lán úr sjóðnum, — þó að það sé þessu kannske óviðkomandi, þá er það þó hliðstætt a.m.k., — upp á 125 þús. kr. í styrk og 1 millj. 75 þús. kr. sem lán. Á það má loks benda, að Samband íslenzkra berklasjúklinga hefur gert mjög myndarlegt átak í þessu efni með öryrkjavinnustofu þeirri, sem það hefur stofnað, og fengið styrk og lán úr erfðafjársjóði, eins og ég gat um, að upphæð um 4 millj. króna samtals, auk þess sem það samband hefur styrk frá sinni happdrættisstarfsemi.

Þó að málum þessum sé ekki lengra komið, þá er það ekki vegna þess, að ekki hafi verið um þau hugsað. Þvert á móti, þau hafa verið athuguð mjög gaumgæfilega, þó að ýmis ljón hafi þar verið á veginum, sem tafið hafa fyrir. En ég vil leggja áherzlu á, að hér er vonandi aðeins um töf að ræða, því að bæði ráðuneytið og ríkisstj. í heild gera sér ljóst, að hér er mikil þörf úrbóta, bæði hjá öryrkjum í þess orðs venjulegu merkingu og eins og ekki síður hjá bæði vangefnum og blindum og raunar fleirum, sem vissulega þyrftu meira fé til starfsemi sinnar.

Ég vil aðeins geta þess að lokum, að um sama leyti og þessi nefnd var kosin hér á Alþingi til athugunar á málum öryrkjanna, þá var kosin hér nefnd til þess að athuga skilyrði aldraðs fólks til að nota starfsorku sína. Þessi nefnd hefur ekki enn skilað áliti, en mun vera komin mjög nálægt því að ljúka störfum, og mér er kunnugt um, að hjá henni hefur komið fram sú hugsun, að tillit yrði tekið til þess fólks, þegar byggðar yrðu vinnustofur eða heimili fyrir öryrkja, þannig að aldrað fólk með skerta starfsorku gæti fengið þar vinnu eða vist. Þetta er einnig eitt vandamálið, sem er tengt þessu, sem hér er um að ræða, og væntanlega verður tekið upp til afgreiðslu í sambandi við það.