18.12.1961
Sameinað þing: 29. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 469 í B-deild Alþingistíðinda. (369)

1. mál, fjárlög 1962

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Á þskj. 244 flyt ég brtt., það er þar V. liður. Meðflutningsmenn að þessum till, eru þeir hv. 5, og hv. 3. þm. Norðurl. v., og till. eru um það að auka lítils háttar fjárveitingar til brúargerða.

Samkv. till. hv. fjvn. við 2. umr, málsins var samþykkt að veita 100 þús. kr. til brúar á Fitjaá, en hún er í V-Húnavatnssýslu. Nú er það hins vegar svo, að vegamálastjóri segir mér, að gera megi ráð fyrir því, að brú yfir þessa á kosti 450 þús. kr. Af þessu mætti hv. þm, vera ljóst, að ef byggð verður brú fyrir 100 þús., þá verður hún allt of stutt yfir ána. Þetta er ekki mikið vatnsfall, þessi Fitjaá, venjulega, en þó getur hún orðið slæm yfirferðar, og það er mikil nauðsyn að fá brú yfir ána til að greiða fyrir t.d. mjólkurflutningum frá heimilum, sem þurfa að flytja mjólk yfir ána. Ég legg því til, eða við þessir þrír flm., að upphæðinni verði breytt, hún verði sett 450 þús., til þess að von sé um, að brúin nái yfir ána. Ég vona, að menn geti litið á þetta nánast sem leiðréttingu, mér finnst svo sjálfsagt að hækka upphæðina.

Þá flytjum við einnig till. um, að byggð verði brú á Reyðarlæk í Vesturhópi. Hún kostar ekki nema 390 þús. kr. það er mikil þörf á því að fá brú yfir þennan læk, skammt sunnan við Vesturhópsvatn. Þetta er á sýsluvegi, en brúin er það löng, að samkv. lögum á ríkið að bera allan kostnað af brúargerðinni.

Ég er meðflm. að þremur eða fjórum öðrum till., en geri þær ekki að umtalsefni, því að það hefur að sumu leyti og mun að öðru leyti verða gert af öðrum.

Það mun vera í þriðja skipti á stjórnartíma núv. hæstv. ráðherra, sem fjárlög eru hér til afgreiðslu. 2 fyrsta skipti var það í febr. 1960, þá voru afgreidd fjárlög fyrir árið 1960. Frv. til þeirra fjárlaga var lagt fram í Alþ. 8. febr., og næsta dag, 9. febr. 1960, sagði aðalmálgagn hæstv. ríkisstj. frá málinu og umræðunni og hafði yfirskriftir með stóru letri fyrir sínum greinum. Á forsíðu var þannig fyrirsögn með mjög stóru letri: „Stórfelldur sparnaður í opinberum rekstri fyrirhugaður.“ Tveim dögum síðar flutti sama blað, sem Morgunblaðið heitir, þætti úr framsöguræðu hæstv. fjmrh., Gunnars Thoroddsens. í fyrirsögn fyrir þeirri tilvitnun í ræðuna sagði m.a.: „Gagngerðar endurbætur gerðar á fjármálakerfi landsins.“

Næst var lagt fyrir þingið fjárlagafrv. fyrir árið 1961, í okt. 1960. 1. umr. um það mál fór fram 24. okt. Þá sagði hæstv. ráðherra m.a., að við undirbúning fjárlagafrv. fyrir 1961 hefði verið reynt að snúa inn á aðra braut og freista þess að færa gjöldin niður. Morgunblaðið sagði frá fjárlagaræðunni m.a. í leiðara blaðsins 26. okt. Þar segir, að fjmrh. hafi bent á, að nú hefði verið „brotið blað í fjármálastjórn landsins með allmikilli lækkun útgjalda flestra gjaldagreina fjárlaga“ o.s.frv. í Reykjavíkurbréfi blaðsins 30. okt. var sagt: „Ekki er síður mikilsvert, að nú er horfið frá hinum sífelldu útgjaldahækkunum og þenslu ríkisbáknsins.“

Og svo er nú komið hér að afgreiðslu fjárlaga í þriðja sinn á valdatíma núv. hæstv. stjórnar. Frv. var lagt fram í upphafi þings í haust, og í Morgunblaðinu gat að líta frásögn 12. okt. af frv. Þar stóð þvert yfir forsíðuna: „Fjárlög 1962 án nýrra skatta.“ Og í undirfyrirsögn segir: „Áfram haldið til aukinnar hagkvæmni í rekstri ríkisins og stofnana þess.“

1. umr. um þetta frv. fór fram að kvöldi 17. okt. Næsta dag, 18. okt., sagði áðurnefnt málgagn ríkisstj. frá ræðu hæstv. fjmrh., og þvert yfir forsíðu er þar prentað stórum stöfum: „Við eigum að gæta víðsýni og hagsýni í fjármálum.“ Þetta er vel mælt og réttilega. Víst eigum við að gæta víðsýni og hagsýni í fjármálum. Og í umsögn blaðsins um fjárlagaræðuna segir m.a. á þessa leið: „Gat ráðherrann um margvíslegar sparnaðarráðstafanir, sem ýmist væru í undirbúningi eða þegar komnar til framkvæmda.“ En nú var svo skipt um, að þetta um sparnaðarráðstafanirnar var aftast í þeim formála, sem blaðið hafði fyrir ræðu ráðherrans. Það virtist því vera þannig í haust, að það væri nokkuð farið að draga niður í þeim viðkomandi sparnaðinum, bæði hæstv. ráðh. og aðalmálgagni ríkisstj. En meiri hluti hv. fjvn., skipaður fimm mönnum úr liði stjórnarinnar, bætir þetta dálítið upp. Í nál. meiri hl., sem dags. er 10. þ. m., segir svo m.a., með leyfi hæstv. forseta: „Fjárlagafrv. ber með sér, að þeirri stefnu hefur verið fylgt að gæta ýtrasta sparnaðar í rekstri ríkisins og ríkisstofnana.“ í framhaldi af þessu segja þeir: „Nefndin hefur einnig miðað tillögur sínar við það sjónarmið. Fjmrh. skýrði frá því í framsöguræðu sinni með fjárlagafrv., að enn sé unnið að athugunum á því, hvað unnt sé að gera til aukinnar hagsýni og sparnaðar í rekstri ríkisins og stofnana þess. Meiri hluti nefndarinnar fagnar því og er þess fullviss, að einmitt með vandlegum undirbúningi og athugunum muni árangur í þeim efnum verða beztur.“

Þarna er okkur færður sá fagnaðarboðskapur, að ýtrasta sparnaðar hafi verið gætt við samningu fjárlagafrv., en nú sé enn unnið að athugunum á því að auka sparnaðinn. Til viðbótar ýtrasta sparnaði, sem þegar hefur náðst, á að koma enn meiri sparnaður. Mikið stendur nú til.

Hv. meiri hl, vitnar í ræðu fjmrh., er hann lagði fjárlagafrv. fyrir þingið í haust. Ég vil leyfa mér að víkja nokkuð að því, sem hann sagði þar um sparnaðinn. Hæstv. ráðh. sagði, með leyfi hæstv. forseta: „Ég skal nú nefna nokkrar þær umbætur til sparnaðar og hagræðingar, sem ýmist eru komnar fram eða undirbúningi vel á veg komið.“ Síðan nefndi hann nokkur atriði. Það var fyrst sameining áfengis- og tóbakseinkasölu. Hann sagði, að spöruðust 11 starfsmenn og húsnæðiskostnaður. En fjárlagafrv., eins og það nú er, ber þó með sér, að þessi sparnaður, sem hæstv. ráðh. hér minnist á, hefur ekki svipað því vegið á móti auknum rekstrarkostnaði að öðru leyti, því að rekstrarkostnaður hinnar sameiginlegu stofnunar er þrátt fyrir þetta allmiklu meiri en hinna tveggja áður.

Þá nefndi hæstv. ráðh. það, að innflutningsskrifstofan hefði verið lögð niður, og sagði, að talið væri, að við það hefðu sparazt yfir 3 millj. Ekki fylgdu neinir útreikningar þessu, og þeir liggja ekki fyrir mér vitanlega. En ég vil benda á það, að árið 1958 fékk ríkissjóður rúmlega 1 millj. kr. í tekjuafgang frá innflutningsskrifstofunni, það var afgangur af leyfisgjöldum, eftir að reiknaður hafði verið kostnaður við skrifstofuna og einnig kostnaður við verðlagseftirlitið, og ég hygg, að 1959 hafi þessi afgangur verið um 1½ millj.

Nú er svo ákveðið í lögum, að bankarnir skuli fá allt að helming af leyfisveitingagjaldinu, sem má vera 1%, til þess að standast kostnað við leyfisveitingar. Ef einhver afgangur verður af því, þá fer það til bankanna, en ekki ríkisins. Að öðru leyti á leyfisgjaldið samkv. lögum að ganga til að greiða kostnað við verðlagseftirlitið. Mér er ekki kunnugt um, hvernig þessir reikningar standa, en væntanlega verður hægt að fá upplýsingar um það síðar.

Enn nefndi hæstv. ráðh. póstinn og símann, vildi telja það til sparnaðar, að ekki væri greiddur úr ríkissjóði rekstrarhalli þessara stofnana. En þarna hefur enginn sparnaður átt sér stað. Gjöld þessara stofnana hafa hækkað eins og hjá öðrum, og þær hafa hækkað til mikilla muna sín gjöld, sem almenningur verður að borga fyrir þá þjónustu, sem þar er veitt.

Símagjöld og burðargjöld hafa hækkað verulega, og þarna er ekki um neinn sparnað að ræða fyrir okkur.

Enn nefndi hæstv. ráðh. það, að nú væri tekið að úthluta fé til vegagerða þannig, að það færi í færri staði en áður var, og taldi, að vegavinnutæki mundu nýtast betur með þessu fyrirkomulagi, meira væri unnið fyrir féð. Ég held, að þetta sé nokkuð vafasöm fullyrðing. Á öllum ríkisvegum þarf að fara fram viðhald ár hvert, það þarf að framkvæma viðgerðir á vegunum. Þess vegna þurfa vegagerðarmenn með sín tæki að vera á ferð árlega á öllum ríkisvegum, og þá hefur það í mörgum tilfellum lítið að segja, hvort þeir vinna þar fyrir þúsundi meira eða minna, og mundi ekki vera á neinn hátt óhagkvæmara í mörgum tilfellum, að þeir, um leið og þeir vinna að viðgerðum á einhverjum vegi, vinni einnig að nýbyggingu á sama stað. Það kann að vera, að sums staðar náist eitthvað hagkvæmari vinnubrögð með þessu, en ég held, að hæstv. ráðh. hafi gert of mikið úr því.

Hann nefndi sendiráðin í París, sem hefðu verið sameinuð, en kostnaðurinn við umboðsmennsku í Parísarborg er nú þrátt fyrir þetta miklu hærri en hann áður var.

Hann nefndi skyldusparnað, talaði um, að nú væri von um, að 1 millj. mundi nægja til að framkvæma skyldusparnaðinn, en gaf ekki upplýsingar um, hvað sá kostnaður hefði áður verið, og mér er það ekki ljóst.

Þá var að sögn ráðh. nokkur breyting á Keflavíkurflugvelli. Hann sagði, að þar hefðu verið sameinaðar flugumsjónardeild svonefnd og flugvélaafgreiðsla. En þrátt fyrir þessa sameiningu er það svo, að í fjárlfrv., sem hér liggur fyrir, er gert ráð fyrir, að kostnaður við rekstur Keflavíkurflugvallar verði rúmlega 60% meiri en hann var samkv. fjárl. 1958.

Enn talaði hæstv. ráðh. í fjárlagaræðu sinni um, að undirbúnar væru breytingar á störfum Skattstofu Reykjavíkur og innheimtu þinggjalda og till. væru í smíðum eða jafnvel gerðar um breytt fyrirkomulag viðkomandi bifreiðarekstri ríkisins, og hann sagði í okt., að ákvarðanir yrðu teknar bráðlega. En þess mun ekki hafa orðið vart, að enn væru nokkrar breytingar gerðar á fjárl. í sambandi við þetta, enda þarna um fyrirheit að ræða, en ekki þegar gerðar framkvæmdir, og geri ég það því ekki frekar að umtalsefni.

Í sambandi við þetta má benda á, að það eru fleiri stofnanir en pósturinn og síminn, sem hækka gjöld fyrir þá þjónustu, sem þær veita. Samkv. frv., sem hér liggur fyrir, er gert ráð fyrir því, að aðeins 22% af kostnaði við löggildingarstofuna verði greidd úr ríkissjóði, en 1958, samkv. fjárl. fyrir það ár, greiddi ríkið 48% af þeim kostnaði. Nú er gert ráð fyrir því, að ríkið greiði aðeins 9% af kostnaði við Skipaskoðun ríkisins, en greiddi helminginn af þeim kostnaði samkv. fjárl. 1958. í athugasemdum með fjárlfrv. nú segir, að gert sé ráð fyrir að mæta auknum kostnaði hjá Skipaútgerð ríkisins með hækkun far- og farmgjalda. Þarna er á ýmsum sviðum verið að leggja skatt á þjóðina til viðbótar því, sem fyrir var, þó að sagt væri í haust, að nú fengjum við að sjá fjárl. án nýrra skatta.

En hvað segir þá sjálft fjárlfrv., sem hér liggur fyrir, um sparnaðinn? Ég hef verið að líta í frv., eins og það nú liggur fyrir eftir 2. umr., og þær tölur, sem ég nefni, tek ég úr því. En nú sé ég, að hv. fjvn. gerir till. um að bæta dálitlu við gjöld. Ég hef gert hér nokkurn samanburð á þessu fjárlfrv., nokkrum greinum þess, og fjárl. fyrir 1958. Ég vil nefna hér fyrst t.d. 8. gr. frv. þar er færður kostnaður við æðstu stjórn landsins. Sá kostnaður er nú samkv. fjárlfrv. yfir 40% meiri en hann var samkv. fjárl. 1958. Sama er að segja um kostnaðinn við stjórnarráðið, sem fært er á 10. gr. I. lið, þar er hækkunin frá 1958 milli 40 og 50%, nær 50% þó. Svo er það 11. gr. A, þar er kostnaður við dómgæzlu og lögreglustjórn. Mér reiknast svo til, að samkv. þessu frv. eftir 2. umr. sé sá kostnaður 100% meiri en hann var áætlaður í fjárl. 1958. Þá er kostnaður við utanríkismál. Hann hefur aukizt tiltölulega enn meira en þetta, þrátt fyrir sameiningu þessara tveggja sendiráða í París. Náttúrlega valda gengisbreytingarnar hér miklu um.

Ég hef lagt saman upphæðir á gjaldagreinum fjárlfrv. og á fjárl. 1958 til samanburðar, þ.e.a.s. ég sleppi á báðum stöðum 19. gr., og það geri ég vegna þess, að það hafa verið undanfarið mismunandi aðferðir við fjáröflun til greiðslu á útflutningsuppbótum og til lækkunar á vöruverði innanlands, og þess vegna sleppti ég 19. gr. á báðum stöðum. En þá er útkoman sú, að eins og þetta frv. er nú eftir 2. umr., þá eru rekstrargjöldin á því rúmlega 90% hærri en þau voru á fjárl. 1958. Þegar maður virðir þessar tölur fyrir sér, Þá sér maður það, að aukin útgjöld þess opinbera vegna þeirra kaunhækkana, sem urðu á þessu ári, eru ekki nema örlítið brot af þeim miklu hækkunum á gjöldum ríkisins, sem orðið hafa í stjórnartíð núv. ríkisstj.

Það hefur verið nefnt af öðrum, að nú er hlutfallslega miklu minna en áður af ríkistekjunum látið ganga til nauðsynlegra verklegra framkvæmda ýmiss konar. Ég ætla að nefna hér aðeins þrjú dæmi um þetta: Til nýrra akvega er nú veitt samkv. fjárlfrv. tæplega 28% hærri upphæð en var 1958, og þetta er náttúrlega mjög langt frá því að vega á móti þeirri hækkun á vegagerðarkostnaði, sem orðið hefur síðan. Og þó eru framlögin til brúargerða enn meira skert. Til brúargerða er nú samkv. frv. aðeins varið 14.6% hærri upphæð en 1958. Sjá þá allir, að það verður langtum minna, sem hægt verður að vinna fyrir upphæðina nú en fyrir fjárveitinguna fyrir fjórum árum. Ég ætla enn að nefna raforkuframkvæmdirnar, þ.e.a.s. framlög til þeirra frá ríkissjóði. Árið 1958 var veitt úr ríkissjóði til raforkusjóðs og til nýrra raforkuframkvæmda samtals 25 millj., en nú eru þessar upphæðir 24 250 000 kr., það er lækkað um 750 þús. En hvað ætli kostnaðurinn hafi aukizt mikið við rafvæðinguna á þessu tímabili? Það er ekkert lítið.

Þegar maður athugar þessi mál með því að líta yfir fjárlfrv., þá er hvergi hægt að finna þann sparnað, sem hefur verið talað um og manni hefur þó skilizt af ummælum bæði hæstv. ráðherra og fleiri manna og þeirra blaða, sem styðja ríkisstj., að hefði verið töluverður. En maður finnur hann ekki. Maður finnur stórkostlegar hækkanir gjalda í staðinn fyrir sparnaðinn. Þetta er í miklu ósamræmi við yfirlætisfullar yfirlýsingar um sparnað, og vel mætti segja við þessa menn, eins og Grímur bóndi á Bessastöðum kvað: „Ykkur er nær að láta minna.“

Enn er þó skrifað um sparnað og ekki spöruð fyrirheitin.

Þeir hv. fimm stjórnarstuðningsmenn, sem skrifa undir álit meiri hl. fjvn., telja, að ýtrasta sparnaðar hafi verið gætt við undirbúning fjárlaga nú. En þeir vilja gera enn betur, blessaðir. Í nál. þeirra má sjá, að stefnt er að því að koma á enn meiri sparnaði en þeim ýtrasta. Víst er það þakkarvert, að hv. meiri hl. fjvn. lætur okkur hafa ofur lítið til að gleðja hugann.