14.02.1962
Sameinað þing: 35. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 698 í D-deild Alþingistíðinda. (3690)

304. mál, síldariðnaður á Vestfjörðum

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Eins og fram kemur í ályktuninni, sem hér var lesin upp af hv. fyrirspyrjanda, var hún afgreidd hér frá Alþingi í maímánuði 1960. Þegar í júnímánuði næstum á eftir, 1960, var bréf sent fiskveiðahlutafélaginu Alliance og hlutafélaginu Ingólfi h/f, þar sem spurzt var fyrir um ástand verksmiðjunnar og hvað gera þyrfti til þess að koma þeim í vinnsluhæft ástand. Bæði þessi fyrirtæki svöruðu þegar í júlímánuði, annað með bréfi 2. júlí og hitt með bréfi 13. júlí, hvers þau töldu við þurfa til þess að koma verksmiðjunum báðum í sæmilega nothæft ástand. Þá var enn fremur síldarverksmiðjum ríkisins sent bréf um þetta mál, þar sem óskað var eftir, að síldarverksmiðjustjórnin léti ráðuneytinu í té umsögn sína um málið. Svar frá síldarverksmiðjum ríkisins barst ekki, og var þó eftir því gengið, a.m.k. einu sinni og jafnvel tvisvar. En eftir að þessi fsp. kom fram, hefur verið gengið eftir svari frá síldarverksmiðjum ríkisins eða stjórn þeirra, og það svar barst mér í gær og er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Á fundi síldarverksmiðja ríkisins í dag var gerð eftirfarandi bókun:

Tillaga um síldariðnað á Vestfjörðum, sbr. bréf atvmrn., dags. 22. júní 1960. Tillagan hafði verið tekin til umr., skömmu eftir að bréfið barst, en afgreiðslu frestað. Eftir nokkrar umræður kom fram svo hljóðandi tillaga:

„Vegna aflabrests þess, sem verið hefur á síldveiðisvæðinu vestan Skaga s.l. 17 ár, telur stjórn síldarverksmiðja ríkisins ekki fært að mæla með því, að S.R. leggi í kostnað við að stuðla að starfrækslu síldarverksmiðjanna á Ingólfsfirði og Djúpuvík. Jafnframt bendir verksmiðjustjórnin á, að árið 1946 var byggð á vegum S.R. ný síldarverksmiðja á Skagaströnd. Hefur það bakað S.R., stórkostleg útgjöld að halda þessari verksmiðju í starfhæfu áslandi, en verksmiðjan þó aðeins tekið á móti samtals um 125 þús. málum á 16 árum. Telur verksmiðjustjórnin, að beina þurfi framkvæmdum að þeim stöðum, þar sem líklegast er, að um verulega vinnslu geti orðið að ræða:

Tillagan borin upp og samþykkt með 4 shlj. atkv.”

Í þessu svarbréfi síldarverksmiðja ríkisins felst raunverulega kjarni málsins. Síldin hefur því miður lagzt frá þessu svæði í talsvert á annan áratug, og þess vegna hafa þeir, sem eru eigendur að verksmiðjunum á Ingólfsfirði og Djúpuvík, ekki séð sér hag í því að reka þær, og raunar þó að verksmiðja hafi legið austar, eins og Skagastrandarverksmiðjan, og hafi verið haldið opinni og í fullkomnu, rekstrarhæfu áslandi, hefur ekki fengizt þar, nema — eins og í bréfi stjórnar síldarverksmiðjanna segir — um það bil eða innan við 10 þús. mál á ári að meðaltali, og er það náttúrlega enginn grundvöllur fyrir rekstur jafndýrs atvinnufyrirtækis og þessa. Hins vegar hefur það skeð á þessu tímabili, að síldin hefur flutt sig til við landið og er nú aðallega við Austurland, og eru þar verkefni svo stór og brýn til þess að geta tekið á móti síldinni, sem þar er, að ég tel það a.m.k. ekki hagkvæmt að leggja í verulegan kostnað á þeim stað, þar sem engin síld er fáanleg, á meðan verkefnin bíða og æpa óleyst á þeim stöðum, þar sem síldin veður.

Ég læt mér skiljast það, að þetta er náttúrlega erfitt fyrir þann landshluta, sem fyrir þessu verður, að sætta sig við það, að fyrirtækin annaðhvort grotni niður eða þurfi að kosta miklu til viðhalds, án þess að nokkuð fáist á móti. En við þessu er ekki að gera, á meðan göngusíldarinnar eru eins og þær hafa verið að undanförnu. Ég hef líka, — og skal geta þess í þessu sambandi, þó að ekki sé beint um það spurt, — látið athuga um kostnað við flutning á síld til þessara verksmiðja, og hefur sá árangur orðið því miður neikvæður, vegna þess að flutningskostnaðurinn á Faxaflóasíld, — og hann er það eina, sem kemur til greina í þessu sambandi, hefur orðið það mikill, að telja verður útilokað að gera út á bræðslusíldarveiði fyrir verksmiðjurnar með þeim kostnaði á flutningi, sem talinn er að muni verða„ ef út í hann yrði farið. Þannig hníga öll rök að því í bili, að þarna sé því miður ekki hægt að gera hluti, a.m.k. ekki kostnaðarsama hluti, til þess að bæta úr áslandinu, vegna þess að það sé ekki undir því sá fjárhagslegi rekstrargrundvöllur, sem nauðsynlegt verður að telja, að þurfi að vera.

Út af lokaorðum hv. þm. um flutning á því, sem eftir er, eða þeim helmingi, að ég ætla, sem eftir er af Ingólfsfjarðarverksmiðjunni, á annan stað get ég ekki upplýst annað en það, að það hefur aldrei undir mig verið borið og ég þekki þess vegna ekki það, sem kann að hafa verið um þetta talað. Ég hef þó á skotspónum heyrt því fleygt, að það muni hafa mætt andstöðu hjá eigendum sú hugmynd, sem hreyft hafði verið um að flytja verksmiðjuna, og þess vegna hafi ekki orðið úr því í bili. En um þetta þori ég ekki að segja ákveðnara.