18.12.1961
Sameinað þing: 29. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 473 í B-deild Alþingistíðinda. (370)

1. mál, fjárlög 1962

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég flyt ásamt hv. 1. þm. Norðurl. e. og hv. 4. þm. Norðurl. e. brtt. við fjárlagafrv., sem prentaðar eru á þskj. 244 og 247. Ég mun nú mæla fyrir nokkrum þessara tillagna og þar á meðal fyrir nokkrum tillögum, sem hv. 1. þm. Norðurl. e. ætlaði að mæla fyrir, en hann er nú fjarverandi vegna veikinda.

Ég vil þá leyfa mér að byrja á því að mæla fyrir brtt. á þskj. 247, og er þá í fyrsta lagi II. brtt., við 13. gr. fjárlagafrv. Ég vil taka það fram, áður en ég mæli fyrir þessum brtt. við 13. gr., að við þm. Norðurl. e. héldum með okkur fund til þess að ræða um skiptingu þess fjár, sem tilkynnt var af hv. meiri hl. fjvn., að lagt yrði til af þeim meiri hl., að veitt yrði til vega, hafna og brúa. Og það varð samkomulag milli okkar þm. kjördæmisins um skiptingu þess fjár til nánar tilgreindra vega, brúa og hafna, og voru fjárveitingar til einstakra framkvæmda samþykktar við 2. umr. Hins vegar er það skoðun okkar, sem að þessum tillögum stöndum, að þær upphæðir í heild, sem veittar eru til þessara framkvæmda samkv. frv., eins og það er nú, séu of lágar. Þó að við séum út af fyrir sig öðrum þm. kjördæmisins sammála um það, að þeim upphæðum, sem í frv. eru nú eftir 2. umr., skuli skipta á þá leið, sem nú er gert í frv., viljum við nú freista þess að leggja til, að upphæðirnar verði hækkaðar og veitt verði meira fé í þessu skyni til þessara mála en nú mundi vera gert samkv. frv., eins og það er nú. Leggjum við þá til, hvernig þessari fjárveitingu skuli ráðstafað. Ég ætla, að hv. 1. minni hl. fjvn. hafi á öðru þskj. gert tillögur varðandi tekjubálk fjárl., sem mundu, ef samþykktar væru, hafa það í för með sér, að þessar brtt., sem bornar hafa verið fram, þótt samþykktar yrðu, yrðu ekki til þess að skapa halla á fjárlögum.

Ég kem þá að 1. brtt., sem er um það, að fjárveiting til Hólsfjallavegar verði hækkuð úr 85 þús. upp í 100 þús. kr. Þetta er vegurinn milli Öxarfjarðar og Hólsfjalla um Hólssand, alllöng leið, og hefur verið unnið að þessum vegi alllengi, en hann er því miður enn hvergi nærri fullgerður. Við höfum lagt til, að fjárveiting til hans hækki um 15 þús. kr., og hefði þó verið þörf að sjálfsögðu á meiri hækkun þar eins og víðar.

Í öðru lagi leggjum við til, að framlag til Kelduhverfis-, Kópaskers- og Raufarhafnarvegar til Þistilfjarðar og Þistilfjarðarvegar verði hækkuð upp í 800 þús. Hér er um að ræða alla aðalþjóðvegi á svæðinu milli Tjörness og Þórshafnar á Langanesi, og hefur til skamms tíma a.m.k. öðru hverju verið veitt fé til allra þessara vega. En fyrir nokkru var þessi fjárveiting sameinuð í eitt til allra veganna. Þannig hagar til víða í þessu héraði, eða allvíða a.m.k., að þar er þurrlent, og þess vegna var í öndverðu auðvelt að leggja þar vegi á ódýran hátt með ruðningi. En þetta eru ákaflega ófullkomnir vegir, og sérstaklega á veturna leggur þar fljótt snjó, og eins í illviðrum blotna vegirnir fljótt, og þar hefur verið unnið að því nú í mörg ár að byggja þessa vegi upp og er mikið verk. Auk þess er svo þess að geta, að nú seinni árin hefur verið unnið að því að gera akfært milli Raufarhafnar og Þistilfjarðar, svokallaðan Hálsaveg, sem liggur fyrir ofan svokallaðar Víkur við utanverðan Þistilfjörð að vestanverðu. Þessi vegur á nú að heita akfær orðinn, en þó aðeins að sumarlagi, og er eftir að verja miklu fé enn til þess að byggja veginn upp, þannig að hann megi teljast viðunandi fyrir þá umferð, sem þarna á sér stað og þarf að vera bæði sumar og vetur, og bróðurparturinn af þessari upphæð, sem veitt hefur verið undanfarin ár til veganna milli Tjörness og Þórshafnar á Langanesi, hefur gengið til þess að byggja þennan veg upp, gera hann færan, þannig að mjög lítið hefur farið til veganna í byggðunum, Kelduhverfi, Öxarfirði, Núpasveit, Sléttu, Þistilfirði og á innanverðu Langanesi. Til þeirra vega hefur farið mjög lítið síðustu árin, síðan fjárveitingarnar voru sameinaðar. Út af fyrir sig er það mjög nauðsynlegt að reyna að gera þennan veg vel akfæran, en hinu er svo ekki að leyna, að það er mjög bagalegt fyrir þá, sem byggja þessar sveitir, að verða að bíða mjög lengi eftir umbótum á sínum aðalframleiðslu- og kaupstaðarvegum. í þeim sveitum, sem hér er um að ræða, hefur til þessa einkum verið stunduð sauðfjárrækt. En nú er vaknaður mikill áhugi fyrir því að taka jafnframt upp mjólkurframleiðslu, og má gera ráð fyrir því, að ekki líði langt, þangað til úr því verður. Þá eykst mjög nauðsynin á því og verður sérstaklega brýn, að vegirnir séu færir allt árið nokkurn veginn, a.m.k. oftast nær, og er alveg nauðsynlegt að auka framlag til þeirra m.a. með tilliti til þess, enda hafa borizt um það áskoranir frá bændum í þessum sveitum að auka framkvæmdir á þessum vegum. Með tilliti til þess, sem ég hef nú sagt, leggjum við til, að upphæðin verði hækkuð nokkuð til þessara vega í heild.

Þá er lagt til, að framlag til Langanesvegar verði hækkað úr 50 þús. upp í 65 þús. Hér er um að ræða þjóðveg, sem eðlilega er ruddur frá Heiði, eða frá Skálanesi utan við Heiði, út að Skoruvík á Langanesi. Það er mjög nauðsynlegt, að þarna sé vegarsamband, þótt ekki sé um mikla byggð að ræða. Það er til þess að nytja ýmis hlunnindi, sem þarna eru við sjóinn, og eins vegna vitans á Langanesfonti og sömuleiðis vegna slysahættu á sjó, sem alltaf er til staðar við nesið utanvert. En það þarf ekki að fara um það mörgum orðum, hversu mikilsvert það er, að byggð sé ekki mjög fjarri þeim stöðum, þar sem slík slysahætta er. Af þeim sökum hefur verið í það ráðizt að ryðja þennan veg, enda þótt þar sé um litla byggð að ræða, og við höfum lagt til, að sú upphæð verði hækkuð lítils háttar.

Þá er lagt til, að fé verði veitt til tveggja brúa, og er þar um að ræða ár á sýsluvegum, Gilsbakkaá í Öxarfirði og Þorvaldsstaðaá í Þistilfirði. Það er lagt til, að veittar verði 125 þús. til þess að byggja brú á Gilsbakkaá og 75 þús. til að byggja brú á Þorvaldsstaðaá. Sýsluvegurinn í sambandi við Gilsbakkaá er í ofanverðum Öxarfirði, og liggur vegurinn meðfram efstu bæjaröð þar í sveitinni. En Gilsbakkaá er þar slæm torfæra. Þorvaldsstaðaá er á svonefndum Frambæjavegi í Þistilfirði, sem þegar hefur verið gerður akfær að nokkru leyti, og áin er þar farartálmi.

Ég kem þá næst að V. lið á sama þskj., en þar er lagt til, að framlag til hafnarframkvæmda á Þórshöfn verði hækkað úr 450 þús. upp í 500 þús., en 500 þús. er sú upphæð, sem veitt var til þessarar hafnar á fjárlögum 1961. Á Þórshöfn hefur verið unnið að hafnarmannvirkjum alllengi. Það hafa verið byggðar þar tvær bryggjur, skipabryggja og bátabryggja, og dýpkuð innsiglingin í höfnina. Undanfarið hefur verið unnið að því að gera hafnargarð eða öldubrjót, og er gert ráð fyrir, að fremst á öldubrjótnum komi hafskipabryggja. Enn er mikið óunnið að þessum mannvirkjum, til þess að þarna geti talizt sæmileg bátahöfn og sæmileg aðstaða fyrir hafskip. Sennilega eða samkvæmt áætlun er eftir að vinna fyrir 8 millj. Skal ég ekki fara um það fleiri orðum, en aðeins benda á það, að framtíð staðarins er að miklu leyti undir því komin, að þessi hafnarmannvirki komist upp. Ágæt fiskimið eru við Langanes og Sléttu og á Þistilfirði, en hafnarskilyrði hafa hamlað vexti útgerðarinnar á þessum stað. Eins og hv. þm. er kunnugt, urðu miklar skemmdir á hafnarmannvirkjum á Þórshöfn í ofviðrinu, sem gekk yfir Norðurland 23. nóv. s.l. Skemmdist þá fremsti hlutinn af hafnargarðinum, sem ég hef áður nefnt, en þær skemmdir verða væntanlega bættar sérstaklega og gert ráð fyrir því í fjárlagafrv., ásamt skemmdum, sem orðið hafa á öðrum höfnum, enda hefur það tíðkazt, þegar slíkt hefur komið fyrir, að ríkið hefur þá hlaupið undir bagga á einhvern hátt.

Þá kem ég að VII. brtt., við 14. gr. Hún er um það, að veittar verði 640 bús. kr., sem er fyrsta greiðsla til byggingar barnaskóla á Raufarhöfn, en þetta er sú upphæð, sem fræðslumálastjóri telur að þurfa muni til þessarar fyrstu greiðslu á hluta ríkissjóðs af byggingarkostnaðinum. Á Raufarhöfn var byggt barnaskólahús skömmu eftir 1930, en það er nú fyrir löngu orðið of lítið og ófullnægjandi. Þegar það hús var byggt, voru íbúar á Raufarhöfn um 170, ef ég man rétt, en nú munu þeir vera fast að 500. Auk þess hefur í seinni tíð verið starfandi unglingaskóli í þessu húsi. Nú er þannig ástatt, að einn bekkur skólans er til húsa í læknisíbúð, sem þarna er á staðnum og er auð, vegna þess að þar vantar lækni, eins og sakir standa, en vonandi verður það ekki lengi, og þegar héraðslæknir fæst í þetta hérað, verður skólinn að sjálfsögðu að láta af hendi þetta húsnæði. Getur það orðið hvenær sem er. Ég tel það mjög illa farið, ef ekki verður byrjað á því að veita fé til þessa skólahúss nú á næsta ári, því að það þýðir, að ekki er hægt að hefja framkvæmdina samkvæmt lögum. Mér er kunnugt um það, að hlutaðeigandi námsstjóri hefur talið mjög nauðsynlegt að ráðast í byggingu þessa húss og hvatt til þess þar, og í fyrra reyndu forráðamenn skólans að fá fjárveitingu og áttu um það viðræður, einkum við fræðslumálastjóra. Af því gat þá ekki orðið, og það er illt, að það þurfi enn að dragast um eitt ár, að hafizt verði handa um þetta mjög svo nauðsynlega verk. Það er nú svo, þó að töluverður húsakostur sé á Raufarhöfn, sem notaður er sem mannaíbúðir á sumrin, á sumarvertíðinni, þá hentar það húsnæði engan veginn, jafnvel þótt hægt væri að fá bað á leigu, til skólahalds, m.a. vegna þess að upphitunarkostnaður við það húsnæði er mikill. Það er því eiginlega óhjákvæmilegt að ráðast í þessa húsbyggingu, og verður mjög bagalegt, ef ekki verður hægt að byrja á henni á næsta ári.

Ég vil þá næst koma að brtt. á þskj. 244, og er þá fyrst IV. brtt., við 13. gr., um, að fjárveiting til Austurhlíðarvegar verði hækkuð úr 90 þús. upp í 150 þús. Unnið hefur verið að þessum vegi fyrir lánsfé, og hvílir á honum allmikil skuld. Er nauðsynlegt, að þessi upphæð verði hækkuð.

Þá kem ég að VII. lið á sama þskj. Þar er fyrst brtt. við 13. gr. um það, að fjárveiting til brúar á Laxá í S-Þing. verði hækkuð úr 210 þús. í 570 þús. Þessi brú er í Laxárdal. Þangað var flutt fyrir nokkrum árum — ég ætla, að það hafi verið 1958 — gömul brú af annarri á, sem var ekki orðin nothæf þar, og var þar þá byggð ný brú. Þessi gamla brú, sem er járnbrú, hefur síðan staðið þarna hjá brúarstæðinu á Laxá í Laxárdal, og hefur tvisvar sinnum verið veitt fé til hennar. Nú eru þeir, sem koma til með að nota þessa brú, orðnir nokkuð óþolinmóðir, og hingað til Alþ. hafa borizt áskoranir frá bændum í Laxárdal í þessu sambandi. Nú eru í fjárlagafrv., eins og það liggur fyrir eftir 2. umr., ætlaðar 210 þús. til brúarinnar, en til þess að setja hana niður og ganga frá henni þarf 570 þús., og við höfum leyft okkur að leggja til, að fjárveitingin verði hækkuð, þannig að hægt verði að byggja brúna eða setja hana niður á næsta sumri. Vegurinn að þessari brú liggur öðrum megin árinnar, ég ætla að vestanverðu við ána, og þegar brúin er komin á ána, mundu bæir hinum megin við ána komast í vegarsamband. Hafa menn mikinn áhuga á því, sem vonlegt er. Skiljanlegt er, að þeim þyki erfitt að bíða, þegar brúin er þarna komin, enda munu menn hafa vonazt eftir því í öndverðu, að ekki mundi liða á löngu, þangað til hún kæmi að notum.

Næst er, undir þessum sama tölulið, VII, till. um, að veittar verði 100 þús. kr. til hafnargerðar á Grenivík við Eyjafjörð. Það er nýr liður. Grenivík er þorp og útgerðarstaður við utanverðan Eyjafjörð að austanverðu, í Höfðahverfi. Á þeim slóðum hefur lengi verið útgerð, og munu ýmsir minnast þess, sem lesið hafa ævisögur Tryggva Gunnarssonar og Einars í Nesi, að Höfðhverfingar stunduðu hákarlaveiðar á 19. öld og reyndust hinir vöskustu við þau störf. Hákarlaveiðarnar voru á þeim tíma mikilsverður þáttur í atvinnulífi Höfðhverfinga og reyndar Eyfirðinga bæði austan og vestan fjarðar. Nú í seinni tíð hefur verið töluverð útgerð frá Grenivík, og þorpið hefur byggzt upp, myndarlegt þorp, margir hafa byggt þar hús yfir sig í seinni tíð, og íbúar staðarins munu nú vera nokkuð mikið á annað hundrað og fer fjölgandi. Þarna hafa verið gerðir út eða verið skráðir tveir allstórir vélbátar, sem að mestu leyti hafa verið mannaðir Grenvíkingum og öðrum Höfðhverfingum og stundað sjóinn bæði norðanlands og sunnan með góðum árangri. En hafnarskilyrði eru slík, að þessir bátar hafa yfirleitt ekki getað lagt aflann upp í heimahöfn. Hins vegar eru á Grenivík nokkrir minni bátar, opnir bátar og litlir þilfarsbátar, sem eru gerðir þaðan út á vorin, sumrin og haustin og leggja þar afla á land, ýmist í Grenivík eða í Hrísey. Fyrir nokkru var hafizt handa um bryggjugerð í Grenivík og nokkuð að henni unnið í áföngum, en við nánari athugun kemur í ljós, að sú bryggja er ekki heppilega staðsett, því að við hana er lítið skjól í hafátt. Fyrir einu ári eða svo fór fram nákvæm mæling á höfninni á vegum vitamálaskrifstofunnar, og þá kom í ljós, að dýpið hinum megin í höfninni, þar sem bátarnir venjulega liggja, er meira en menn höfðu ætlað. Þarna virðist allhagkvæmt að gera hafnarmannvirki, a.m.k. er dýpið því á engan hátt til fyrirstöðu, þarna virðist vera heldur dýpra. Og þarna mundu hafnarmannvirkin vera í miklu betra skjóli en bryggja sú, sem byggð hefur verið. Það er því ætlun manna að hætta við þessa gömlu bryggju, byggja hana ekki lengra fram, og hefja framkvæmdir á hinum staðnum. Hefur verið gerð áætlun um að byggja þarna grjótgarð fram frá landinu með steyptri þekju og haus og afgreiðslubryggju fyrir báta innan á garðinum. Þetta mannvirki, a.m.k. eins og það er hugsað nú fyrst um sinn, mun kosta kringum 4 millj. kr. Hér voru á ferðinni í vetur fulltrúar Grýtubakkahrepps og Grenvíkinga, sem hér eiga hlut að máli, til þess að ræða við vitamálastjóra og þm. um þessa fyrirhuguðu framkvæmd, og þar hjá heimamönnum er mjög mikill áhugi á því, að hægt verði að hefja framkvæmdir þegar á næsta sumri. Sú framkvæmd, sem þá þyrfti að geta átt sér stað, væri sú að gera veg eftir sjávarbakka fram að garðstæðinu. Það er nokkuð mikið verk, því að bakkinn er hár, áður ekki talið fært, en nú munu ekki neinir erfiðleikar á því með tækjum, sem menn hafa yfir að ráða. Þetta mannvirki er nauðsynlegt að geta framkvæmt á næsta sumri og jafnframt að gera athuganir og byrjunarframkvæmdir. Í grjótnámi, þar sem sennilega verður tekið efni í hafnargarðinn. Upphæðin, sem við förum fram á, er ekki há, 100 þús. kr., og er aðallega við það miðuð, að hægt verði að hefjast handa, þannig að næsta ár á eftir væri þá hægt að byrja á verkinu af fullum krafti. En í Grenivík eru miklar vonir bundnar við þetta hafnarmannvirki, og vitneskjan um það, að hafnargerð sé möguleg á þessum stað, að skilyrði séu betri en menn höfðu áður gert ráð fyrir, hefur mjög glætt bjartsýni fólks á þessum slóðum. Þarna er mikið af ungu og uppvaxandi fólki og margir dugandi sjómenn.

Ég kem þá næst að brtt. við 14. gr., sem er um það, að fjárveiting til barnaskóla í Mývatnssveit verði hækkuð upp í 600 þús. kr. Bygging þessa skólahúss hefur staðið yfir undanfarin ár. Áætlað ríkisframlag til skólans mun vera um 1½ millj, kr., og er búið að greiða af því tæpar 800 þús. kr. Eftir eru þá rúml. 700 þús. kr. Við höfum leyft okkur að leggja til, að upphæðin verði hækkuð, eins og ég sagði, upp í 600 þús., og þá með það fyrir augum, að hægt yrði að koma verkinu það áleiðis, að skólinn gæti komizt í notkun á árinu 1962. Það er mikil nauðsyn á því, að hægt verði að taka þetta hús í notkun sem allra fyrst, því að skólinn býr nú við mjög óæskilega aðstöðu. Kennsla fer í raun og veru fram í íbúð skólastjórans og hefur gert undanfarin ár, og er það mjög bagalegt, ekki aðeins af því, að húsnæðið er óhentugt fyrir skóla, heldur einnig ákaflega bagalegt fyrir skólastjórann og fjölskyldu hans að þurfa að sjá af íbúð sinni til þessara nota. Hér voru á ferðinni í vetur forráðamenn þessa skóla til þess að leita fyrir sér um það, að þeir yrðu aðstoðaðir við það að koma húsinu svo áleiðis á næsta ári, að hægt yrði að nota það næsta vetur, og okkur virðist eðlilegt, að reynt yrði að líta á þeirra mál. Í Mývatnssveit munu nú vera um 30 börn á skólaskyldualdri, og allt útlit er fyrir, að fólksfjölgun verði í þessari sveit á næstu árum. Eins og kunnugt er, hefur það verið haft á orði, að ungt fólk í Mývatnssveit kysi það helzt yfirleitt að setjast að í átthögum sínum. Þar hefur mikið verið gert að því að byggja nýbýli, og úrræða hefur verið leitað um nýjar atvinnugreinar, þannig að mér þykir mjög líklegt, að þarna verði um verulega fólksfjölgun að ræða næstu árin. Ýmis náttúruskilyrði eru þarna, sérstaks eðlis, sem geta greitt fyrir eflingu atvinnulífsins, svo sem jarðhiti þar nálægur og hráefni til iðnaðar á botni Mývatns, sem margir kannast við og verið hefur í rannsókn nú undanfarið.

Síðasta brtt., sem ég mæli fyrir á þskj. 244, er um það, að framlag til Reykdælaskólahverfis, byggingar skóla þar, verði 240 þús. kr. þessi skóli í Reykjadal er áætlaður á 3113 000 kr., og er gert ráð fyrir að taka fyrir helming hússins, en ríkisframlag, 3'4 hlutar, því að hér er um heimavistarskóla að ræða, er þá um 1200 þús. kr. og fyrsta greiðsla ætti þá að vera 240 þús. kr. Eins og stendur, starfar þessi skóli í leiguhúsnæði, en skólinn hefur fengið land að gjöf úr jörðinni Litlu-Laugum, og sveitarfélagið á heita uppsprettu eða laug, sem notuð verður til að hita upp húsið. Gert er ráð fyrir, að skólinn fái aðstöðu til íþróttaiðkana og verknáms í húsi héraðsskólans, og er að því mikið hagræði.

Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um þessar brtt., en vænti þess, að þeim verði tekið með skilningi af hv. þm. og hv. fjvn., sem væntanlega á eftir að starfa eitthvað enn þá, enda mun varla verða annað sagt en hér sé hóflega í sakirnar farið og af nauðsyn.