21.02.1962
Sameinað þing: 37. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 705 í D-deild Alþingistíðinda. (3708)

148. mál, framkvæmdaáætlun til 5 ára

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Hv. 1. fyrirspyrjandi, flm. fsp. á þskj. 292, vitnaði hér í ummæli þau, sem hæstv. þáv. forsrh. hafði haft um þessa framkvæmdaáætlun í ræðu á hæstv. Alþ. 25. okt. s.l. Ég get gert orð hans að mínum og þarf þess vegna ekki um þá hlið málsins að ræða. Mér er ekki kunnugt um þá blaðagrein, sem hann vitnar til, ég hef ekki lesið hana, og leiði alveg hjá mér, hvað þar hefur verið sagt.

En út af því, sem spurt er um í þessari fsp., þá vil ég segja það, að eins og öllum hv. alþm. er kunnugt um, biða mörg viðfangsefni á sviði verklegra framkvæmda úrlausnar, sem ríkisstj. Íslands þarf að hafa forgöngu um að leysa. Fjármunir eru hins vegar af skornum skammti, og þess vegna er að okkar viti nauðsynlegt, að sem gleggst heildaryfirlit sé fyrir hendi yfir þörfina, svo að hægara verði í þeim efnum að hafna og velja. Þetta er sú skoðun, sem liggur til grundvallar fyrir gerð þessarar framkvæmdaáætlunar. Ríkisstj. hefur af þessum ástæðum talið nauðsynlegt að láta gera áætlun um þær framkvæmdir, sem helzt kynnu að koma til greina á næstu árum, og fengið til þess erlenda sérfræðinga, sem hafa verið í samvinnu við íslenzka embættismenn og stofnanir.

Nú liggja fyrir drög að þessari áætlun, sem eru í nánari athugun. Þegar ríkisstj. hefur gengið endanlega frá tillögum sinum, verða þær lagðar fyrir Alþingi, eftir því sem talið verður við eiga og efni standa til. Enn er óunnið mikið og vandasamt verk í þessum efnum, sem að mínu viti án efa tekur marga mánuði að ljúka við.

Ég vænti þess, að í þessum fáu orðum liggi svar við þeirri fsp., sem borin hefur verið fram hér.