21.02.1962
Sameinað þing: 37. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 706 í D-deild Alþingistíðinda. (3710)

148. mál, framkvæmdaáætlun til 5 ára

Eysteinn Jónsson:

Ég vildi aðeins reyna, ef hægt væri, að fá ofurlítið nánari upplýsingar í framhaldi af fsp. Ég hjó eftir því, að hæstv. forsrh. sagði, að þessi áætlun væri gerð í samvinnu við íslenzka embættismenn og stofnanir. Ég vildi leyfa mér að spyrjast fyrir um það, því að það hlýtur að vera mjög ofarlega í huga hæstv. ráðh., hvaða stofnanir það eru, sem hæstv. ríkisstj. hefur látið kveðja til ráðuneytis um þessa áætlunargerð, og hvort það eru þá eingöngu ríkisstofnanir eða aðrar stofnanir líka, og ef hann gæti svarað því, þá hverjar?

Þá vil ég líka spyrja hæstv. forsrh., hvort þessi áætlun eða þessi áætlunardrög, sem hafa verið samin, hafi verið lögð fyrir Efnahagssamvinnustofnun Evrópu nú þegar eða sýnd þeirri stofnun, — ég er ekki alveg viss um, að ég hafi rétt nafnið á stofnuninni, það kann að vera, að þessi stofnun hafi skipt um nafn og heiti ekki lengur Efnahagssamvinnustofnun Evrópu, eins og hún hét áður, en ég veit, að hæstv. ráðh. veit, hvaða stofnun ég á við, — og ef þessi áætlun hefur verið lögð fyrir hana eða þessi dróg að áætlun, í hvaða skyni það væri þá gert. Ég vit fyrir mitt leyti nota þetta tækifæri til að leggja hina ríkustu áherzlu á, að þessi áætlun verði lögð fyrir Alþ. til skoðunar nú strax í vetur. Mér finnst það eðlilegt, að sú vinna, sem í þetta mál hefur verið lögð, komi til afnota fyrir þingið nú strax. Því hefur verið lýst yfir, að þarna hafi nú þegar verið gert uppkast að áætlun. Ég tel það miklu vænlegri aðferð, að þetta komi nú strax til athugunar í þinginu sem skýrsla, —þannig er unnið víða erlendis, — áætlunin komi nú strax til athugunar á Alþingi sem skýrsla, þótt ríkisstj, héldi áfram að vinna að málinu fyrir sitt leyti, þá kæmi þessi vinna strax að gagni fyrir aðra, sem ekkert síður en ríkisstj. þurfa að skapa sér skoðun á þessu máli. Ég vildi því mjög eindregið beina því til hæstv. ríkisstj. í framhaldi af því, sem fyrsti talsmaður fsp. sagði, að áætlunardrögin gætu komið sem skýrsla fyrir þetta þing.

Loks langar mig að minna á í þessu sambandi, að í Alþýðublaðinu kom um daginn það, sem ég held að hafi verið kallað í blaðinu hluti af þessari áætlun. Það var, má ég segja, alveg berum orðum sagt, að það væri hluti af áætlun þessari — varðandi landbúnaðinn. — Verð ég að segja, að þetta, að stjórnarblaðið birtir hluta af áætluninni, og ég er ekkert að finna að því, styður þessa ósk mína. Ég álít, að því fyrr sem hæstv. ríkisstj. treystir sér að láta birta úr áætluninni, því betra fyrir alla. En ég vil segja, að einmitt þetta, að farið er að birta einstaka hluta úr áætluninni í blöðum, bendir eindregið til þess, að málið sé komið á það stig, að áætlunin eða drögin eigi að sendast Alþingi sem skýrsla, til þess að allir þingmenn geti haft þessa vinnu til stuðnings við að móta sér skoðun um þessi mál. Hér eru engir smámunir á ferðinni, heldur að því er manni skilst tilraun til að raða niður verkefnum næstu ára. Þá varðar það náttúrlega ekki aðeins núv. hæstv. ríkisstj., heldur engu síður hv. Alþingi.

Ég vona, að hæstv. ráðh., taki þessum viðbótarspurningum vel, en að sjálfsögðu getur þetta mál komið til umræðu í einhverju formi síðar, ef hæstv. ráðh. vilja heldur hafa þann hátt á að íhuga þetta í stað þess að ræða það núna meira.