21.02.1962
Sameinað þing: 37. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 707 í D-deild Alþingistíðinda. (3711)

148. mál, framkvæmdaáætlun til 5 ára

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Út af fyrirspurnum hv. 1. þm. Austf. vil ég fyrst svara því, að þessir sérfræðingar, sem hér voru að verki, leituðu til ýmissa stofnana og manna um upplýsingar. Af hendi stjórnarvaldanna var þeim sagt, að þeir skyldu leita hvert sem þeim sjálfum sýndist til þess að fá sem víðtækastar upplýsingar. Við bentum þeim fyrst og fremst á stofnanir eins og vegamálaskrifstofu og vitamálaskrifstofu og póst og síma, banka o.fl. og gerðum að öðru leyti ráðstafanir til, að allar dyr, sem við höfðum nokkur lyklavöld að, stæðu þeim opnar, því að fyrir okkur vakti tvennt: að láta hið glögga gestsauga sjá myndina eins og hún er, og þá að sjálfsögðu að hagnýta þá þekkingu, sem fyrir hendi er hjá mönnunum, sem eru gerkunnugastir málunum vegna sinnar reynslu í störfum, hver á sínu sviði. Veit ég, að allir eru sammála um, að þetta séu hyggileg vinnubrögð.

Þá spurði hv. 1. þm. Austf, um það, hvort þessi drög eða skýrslur hefðu verið lögð fyrir OECD, væntanlega í París. Ríkisstj. hefur engar ráðstafanir gert til þess að senda þessi drög þangað, hvort sem svo verður síðar, það getur vel verið, þegar þar að kemur. — Tel ég ekki ólíklegt, þegar stjórnin er búin að ganga frá skýrslunni, að hugsanlegt geti verið að láta vissa erlenda aðila fá þær upplýsingar, m.a. í því skyni að treysta aðstöðu okkar til að afla þess fjár, sem þurfa mun til að framkvæma áætlunina.

Þá minntist hv. 1. þm. Austf. á, að Alþýðublaðið hefði birt nokkurn hluta af þessari áætlun. Það er að því leyti á misskilningi byggt, að Alþýðublaðið birti skýrslu úr Árbók landbúnaðarins.

Kem ég þá að því síðasta, sem hann gat um, og það var, hvort ekki væri auðið að leggja málið fyrir þetta þing. Ég segi það sem mitt álit, að það sé ekki hægt. Okkur gengur nógu illa hér að koma okkur saman, þó að af hendi stjórnarvaldanna sé sá háttur á hafður, að þau leggi fram sínar tillögur, gangi endanlega frá þeim og segi: Þetta er það, sem við leggjum til, og með þessu viljum við standa eða falla, eða: Við skulum hlusta á breytingar, sem koma fram, og taka þær til athugunar — En ég held, að þessu máli geti aldrei orðið svo langt komið fyrir lok þessa þings, að stjórnin geti sagt: Við eru í fyrsta lagi búnir að grandskoða málið, hver ráðherra fyrir sig í samráði við þær stofnanir, sem undir hann heyra, og við höfum auk þess getað borið þau sjónarmið saman, samræmt þau og fellt þau í heildartillögur, sem nú skulu lagðar fyrir Alþingi. — Það er, eins og allir hv. alþm. án efa gera sér fulla grein fyrir, ekkert áhlaupaverk að ljúka þessu máli eða ganga frá því þannig, að stjórnin telji sig með sæmd geta lagt það fyrir þingið og hafi haft þann undirbúning, sem hún telur nauðsynlegan. Og ég veit, að hv. 1. þm. Austf. þekkir það af langri reynslu, að eins og staðið hefur á fyrir okkur í stjórninni, siðan við fengum þessi drög í hendur, þá hefur ekki verulegur tími unnizt til þess að líta á þetta stóra og mikla mál. Það er svo, að meðan þing stendur og jafnvel í þinghléinu voru svo mörg önnur mál, sem við þurftum að fjalla um, að ekki hefur unnizt tími til að sinna þessu máli nægilega, og ég vil ekki gefa neinar falskar vonir um það; að ég telji möguleika á, að málið verði lagt fyrir þetta þing.