21.02.1962
Sameinað þing: 37. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 711 í D-deild Alþingistíðinda. (3715)

148. mál, framkvæmdaáætlun til 5 ára

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Það er aðeins út af því, sem hér hefur verið rætt um frásögn Alþýðublaðsins og það, sem hv. 1. þm. Austf. sagði þar um, sem ég kvaddi mér hljóðs, þar sem hv. 1. þm. Austf. hefur notað þann tíma, sem hann hafði yfir að ráða við þessa fyrirspurn. En í Alþýðublaðinu laugardaginn 10. febr. 1962 er sagt frá tíu ára áætlunargerð í framkvæmd landbúnaðarmála, og er upphaf þeirrar greinar svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

Ríkisstj. hefur enn ekki birt úr framkvæmdaáætlun þeirri, sem unnið er að, en Alþýðublaðið getur nú skýrt lesendum sínum frá hluta framkvæmdaáætlunarinnar, þ.e. áætlun um framkvæmdir í landbúnaði 1961—1970. Samkvæmt þeirri áætlun er talið, að varið verði til framkvæmda í landbúnaði 2 milljörðum 610 millj, kr. næstu tíu árin.“

Ég tel, að það orki ekki tvímælis. (Gripið fram í.) Já, en það orkar ekki tvímælis í upphafi greinarinnar, að Alþýðublaðið segir frá þessu sem hluta úr framkvæmdaáætlun hæstv. ríkisstj., og um það var deilt. Ég get ekki gert að því, þó að þeir Alþýðuflokksmenn orði sínar frásagnir þannig, að erfitt sé að skilja það. Það getur hæstv. sjútvmrh. talað um á sinu heimili, en hér orkar ekki tvímælis, hvað sagt er.