07.03.1962
Sameinað þing: 40. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 719 í D-deild Alþingistíðinda. (3729)

163. mál, tónlistarfræðsla

Fyrirspyrjandi (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. svör hans. Þau voru greinileg, og vænti ég þess, að það, sem eftir er af framkvæmd þál., verði nú fljótlega framkvæmt og að til þessa fundar, sem fyrirhugaður hefur verið, verði boðað sem allra skjótast, enda hefði gjarnan mátt vera búið að halda hann. Eins og hæstv. ráðh. vék að, var ætlunin að gera það s.l. haust, og ég vona, að það dragist ekki nema til loka þessa skólaárs nú á þessu vori.

Það er alkunna hjá þeim, sem annars fylgjast nokkuð með þessum málum, að margir tónlistarskólar eiga í fjárhagslegum erfiðleikum og sumir þeirra eru að berjast við að halda uppi vandaðri kennslu og hafa ráðið til sín mjög færa og góða tónlistarkennara, sem hafa menntazt erlendis, og mér er einkum kunnugt um það á Akureyri, að þar er talsverð hætta á, að skólinn missi starfskrafta sína, ef ekki verður fundin varanleg lausn á fjárhagsvandræðum skólans. Og ég treysti hæstv. ráðh. til þess að beita sér fyrir þessu í samræmi við þá þál., sem hér var samþ. fyrir tveimur árum.