07.03.1962
Sameinað þing: 40. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 720 í D-deild Alþingistíðinda. (3730)

163. mál, tónlistarfræðsla

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Eins og hv. fyrirspyrjandi gat um, átti ég á sínum tíma hlut að því, að umrædd þáltill. var hér fram borin, og voru ástæðurnar þær, sem raunar hefur komið fram í meginatriðum hjá fyrirspyrjanda, að það var orðið hið mesta vandamál í sambandi við hina mörgu tónlistarskóla, sem reistir hafa verið hér og þar um landið, hversu færi um viðskipti þeirra og ríkisvaldsins, einkum á fjármálasviðinu. Það hafði komið í ljós, og ég þekkti það af margra ára reynslu í fjvn., að þetta var sívaxandi vandamál með þessa skóla. Þetta voru augljóslega miklar nauðsynjastofnanir og fram komnar af brýnni þörf, því að þetta voru einkastofnanir hver á sínum stað. Það hafði svo verið leitað á ríkissjóðinn með fjárstyrki, og það verður að segjast, að í ýmsum tilfellum hafa þeir fjárstyrkir verið nokkuð handahófskenndir af eðlilegum ástæðum, vegna þess að fyrir fjvn. var að sjálfsögðu ógerlegt að gera sér grein fyrir því, hversu væri háttað kennslu eða gæðum þessara skóla, því að vitanlega eru þeir mjög mismunandi. Það var því hin brýnasta nauðsyn að setja annars vegar reglur um það, hvaða skilyrði þessir skólar þyrftu að uppfylla til þess að fá ríkisstyrk, ef sá styrkur setti að veitast, og í annan stað að setja þá reglur um, hver sá styrkur yrði.

Ástæðan til þess, að ég stóð hér upp nú, var aðeins að skýra frá því, sem annars hefði mátt telja tómlæti frá minni hendi að fylgja þessu máli eftir, að mér var kunnugt um það, að hæstv. menntmrh. hafði á s.l. hausti ákveðið að efna til fundar skólastjóra um þetta mál, sem var fullkomlega eðlilegt og nauðsynlegt á fyrsta stigi málsins, til þess að kynna sér, hvaða námskröfur væru gerðar í skólunum, og reyna að samræma þær, og ég hafði reiknað með því, að í framhaldi af því yrðu undirbúnar ákveðnar tillögur af hálfu menntmrn. um það, hversu aðstoð ríkisins við þessa skóla yrði háttað eða hlutdeild hinna ýmsu aðila um rekstrarkostnaði þeirra. Þetta er orsökin til þess, að ég hef ekki sérstaklega vakið máls á þessu. Og ég vil aðeins taka undir það, sem hv. fyrirspyrjandi sagði, að það er hin mesta nauðsyn, að þessu máli verði hraðað svo sem verða má.

Það var við afgreiðslu fjárlaga í þetta skipti ljóst, að þessi vandamál voru brýn, og m.a. var frestað ýmsum breytingum í sambandi við þessa skóla og erindum frá þeim, vegna þess að fyrir hendi væri á næsta leiti að fá löggjöf um málið. Ég vildi því mjög beina því til hæstv. ráðh. og er enda kunnugt um hans áhuga á því máli, að það verði reynt að ganga svo frá því, að það verði fyrir næsta þing og áður en kemur til afgreiðslu fjárlaga þá endanlega búið að gera sér grein fyrir því, hversu heppilegast muni vera að koma fyrir rekstri þessara skóla og tilhögun allri.