14.03.1962
Sameinað þing: 41. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 724 í D-deild Alþingistíðinda. (3740)

305. mál, alumíníumverksmiðja

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Svar mitt við þessari fsp. hv. þm. er einfalt. Í hinni upphaflegu fsp. er ekki beinlínis spurt um virkjunarkostnað á rafmagnsorkunni, heldur einungis kostnað við byggingu alúminíumverksmiðju. Í þeirri tillögu til svars, sem ég fékk frá réttum aðilum um þetta mál, var því eingöngu sú grg., sem ég las upp um byggingarkostnað alúminíumverksmiðju. Ég taldi það hins vegar ekki vera fullnægjandi og spurði: Hvað kostar sjálf virkjunin á orkunni? — og fékk þetta svar og athugaði ekki að grennslast frekar eftir því, hvort það svar væri á tilviljun byggt eða vegna þess að athugunum væri lengra komið með Búrfell heldur en hitt. Ég taldi rétt, að menn fengju nokkra hugmynd um þetta í mjög stórum dráttum, og taldi því svarið fullnægjandi til upplýsingar því. Hitt er mér að sjálfsögðu ljóst, að það verður ekki ákveðið, hvar verksmiðju skuli reisa né hvaða fljót skuli virkja, nema fyrir liggi raunhæfur samanburður á kostnaði á hvorum staðnum um sig. Það er hvorki hægt fyrir íslenzka ríkið né fyrir viðsemjendur að gera sér til hlítar grein fyrir grundvallaratriðum málsins, nema fræðilegur samanburður liggi fyrir á þessu tvennu. Það er vitað mál, að hinir útlendu viðsemjendur leggja að sjálfsögðu megináherzlu á að fá orkuna við sem vægustu verði og þeirra framkvæmdir verða algerlega háðar því, að við getum selt orkuna á því verði, sem þeir telji viðunandi. Sjálfsagt verður þar um mikið álitamál og deilumál að ræða, en það verður að vera slíkur samanburður fyrir hendi um þá staði, sem helzt koma til greina, að á fræðilegum rökum sé hægt að gera sér grein fyrir, hvorn staðinn skuli velja. Þetta tel ég alveg sjálfsagt.