21.03.1962
Sameinað þing: 44. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 726 í D-deild Alþingistíðinda. (3744)

176. mál, greiðslur vegna ríkisábyrgðar á árinu 1961

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Þessi fsp. fjallar um einn þátt í útgjöldum ríkisins á s.l. ári. Í rauninni má segja, að eðlilegast hefði því verið að fresta svörum við þeirri fsp., þangað til ríkisreikningur liggur fyrir endanlega uppgerður. Það er ekki enn þá búið að loka ríkisreikningi að fullu né gera hann upp, þó að hvort tveggja hafi verið gert síðustu tvö árin allmiklu fyrr en venja er til og verði einnig svo á þessu ári. En þar sem þess er sérstaklega óskað að fá upplýsingar um ríkisábyrgðirnar, áður en ríkisreikningurinn liggur fyrir uppgerður og prentaður, þá er sjálfsagt að verða við því, eftir því sem fært er á þessu stigi.

Ef ætti að svara fsp. bókstaflega, mundi öll sú sundurliðun og upptalning nafna og talna taka miklu lengri tíma en ætlaður er fyrir fyrirspurnir. Ég vil geta þess til skýringar, að í ríkisreikningi fyrir 1960 eru skýrslur um ríkisábyrgðir og taka rúmlega 40 bls. í reikningnum. Á bls. 188—225 eða á 38 blaðsíðum eru prentaðar með smáu letri skýrslur um ábyrgðir ríkissjóðs í árslok 1960, bæði eins og þær hafa verið í upphafi, hvernig þær hafa breytzt o.s.frv. Á bls. 126–128 í reikningnum er svo skýrsla um greiðslur á árinu 1960 sérstaklega vegna ríkisábyrgða. Í ríkisreikningi fyrir 1961 munu að sjálfsögðu verða jafnýtarlegar skýrslur og kannske ýtarlegri, og vil ég að sjálfsögðu um einstök atriði vísa til reikningsins, þegar hv. alþm. fá hann í hendur.

Varðandi ríkisábyrgðirnar í heild á s.l. ári eða greiðslur ríkissjóðs vegna þeirra, þá hef ég áður gefið þær upplýsingar, eins og hv. fyrirspyrjandi gat um, að ríkissjóður hefði orðið að greiða um 80 millj. á s.l. ári vegna áfallinna ríkisábyrgða. Á þeim tíma, sem liðinn er, síðan ég gaf þessar upplýsingar, hafa nokkrar upphæðir greiðzt inn, verið endurgreiddar, þannig að þessi upphæð, 80 millj., lækkar niður í kringum 68 millj. vegna þeirra endurgreiðslna, sem orðið hafa frá áramótum og væntanlega fram til reikningsloka eða þangað til nú.

Í stórum dráttum, ef ábyrgðir eru flokkaðar niður í nokkra meginflokka, þá hafa greiðslur ríkissjóðs vegna ábyrgðanna á s.l. ári orðið sem hér segir, — og í öðru lagi mun ég nefna, eins og spurt er um, það, sem greitt hefur verið áður:

Í fyrsta lagi er það vegna hafnargerða, þá voru greiddar á árinu 1961 8.9 millj. kr., til ársloka 1960 höfðu verið greiddar 27.1 millj. Samtals er því hér um að ræða 36 millj, tæpar.

Í öðru lagi eru frystihús og fiskiðjuver. Greiðslur vegna þeirra á árinu 1961 voru 14 millj., til ársloka 1960 höfðu verið greiddar 10.8 millj., samtals um s.l. áramót 24.9 millj. Þar sem ég nefni hér ekki tugi þúsunda eða lægra, þá breytast samlagningartölur nokkuð af þeirri ástæðu.

Í þriðja lagi eru síldarverksmiðjur. Á s.l. ári voru greiddar 1.6 millj. vegna þeirra, en til ársloka 1960 höfðu verið greiddar 28.9 millj., samtals 30.6 millj.

Í fjórða lagi eru togaraútgerðarfélög. Á s.l. ári voru greiddar 15.4 millj., fram til ársloka 1960 34.1 millj., samtals 49.5 millj.

Í fimmta lagi er Hambro's lán vegna 10 togara, sem ekki fellur formlega undir ríkisábyrgðir, en alveg hliðstætt, þar sem ríkissjóður var lántakandi og endurlánaði það. Greiðslur vegna þeirra á s.l. ári eru 10.4 millj., til ársloka 1960 33.6 millj., samtals 43.9 millj.

Í sjötta lagi greiðslur vegna austur-þýzkra skipa. Á árinu 1961 12.9 millj., til ársloka 1960 2.8 millj., samtals 15.7 millj.

Í sjöunda lagi ræktunarsjóður vegna ICA-láns á s.l. ári 2.8 millj.

Í áttunda lagi vegna samgangna á sjó og í lofti. Ef við tökum fyrst vegna samgangna á sjó, eru það 144 þús. á s.l. ári, áður greitt 6.1 millj. eða samtals 6.3. Vegna samgangna í lofti á s.l. ári 197 þús., áður 5.5 millj., samtals 5.7 millj.

Í níunda lagi eru vaxtagreiðslur vegna Marshall-lána 1.9 millj. á s.l. ári, áður greitt 5.2, samtals 7.1 millj. En svo háttar þessum Marshall-lánum, að það var á árinu 1948, sem ríkissjóður tók þau lán, samtals að fjárhæð 2.3 millj. dollara upphaflega, og endurlánaði ýmsum innlendum fyrirtækjum, síldar- og fiskimjölsverksmiðjum aðallega. Og greiðslurnar undir þessum síðasta níunda lið stafa af því, að sumir innlendir aðilar hafa ekki staðið í skilum með sinar vaxtagreiðslur af endurlánunum og ríkissjóður orðið að standa skil á þeim út á við.

Samtals eru greiðslur vegna ríkisábyrgða á árinu 1961 því 68 millj. 190 þús., en þar frá dragast endurgreiðslur vegna eldri vanskila, þ.e.a.s. eldri vanskila en frá árinu 1961, 254 þús., þannig að eins og nú standa sakir, þá er nettótalan, greiðslur ríkissjóðs vegna ríkisábyrgða á árinu 1961, 67 millj. 936 þús. kr.

Ég ætla, að hv. fyrirspyrjandi og þm. aðrir hafi fengið nokkra hugmynd um bæði heildarupphæð ríkisábyrgðanna og helztu flokka þeirra af þessari skýrslu. Mér er ekki ljóst, hvort hv. fyrirspyrjandi hefur óskað eftir því, að farið yrði í ýtarlega sundurliðun fyrir hvern einstakan aðila og greiðslur hans vegna, bæði á s.l. ári og áður, og þá væntanlega líka um greiðslur til aðila, sem lentu ekki í vanskilum á s.l. ári, en greitt hefur verið áður fyrir. Eins og ég gat um, þá tel ég, að það mundi verða svo langt mál, að það færi út yfir þann ramma, sem fyrirspurnum og svörum við þeim er yfirleitt ætlaður, en vil í því sambandi aðeins benda á tvennt, annars vegar þá sundurliðun, sem mun birtast í ríkisreikningnum fyrir 1961, og hins vegar, að hv. fyrirspyrjandi eins og aðrir alþm. getur að sjálfsögðu fengið allar þessar sundurliðanir hjá ríkisbókara, og hefur verið lagt fyrir hann að gefa þær upplýsingar þeim hv. þm., sem þess kynnu að óska.