18.12.1961
Sameinað þing: 29. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 481 í B-deild Alþingistíðinda. (375)

1. mál, fjárlög 1962

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég mælti hér fyrir till. í dag á þskj. 244, við 22. gr., að XXIII. liður orðist eins og þar segir. Ég skýrði frá því, að hér væri verið að óska eftir, að ríkissjóður gæfi eftir 1. veðrétt í ákveðnum eignum, enda verði jafnframt samið um það við viðskiptabanka fyrirtækjanna, að atvinnurekstur þeirra gæti haldið áfram með eðlilegum hætti, eins og segir í till. Nú hef ég orðið þess var, að samningar standa yfir um, að takast mætti að halda þessum atvinnurekstri áfram, og það án þess að til komi að gefa eftir þetta, ef eitthvað komi í staðinn, og í trausti þess, að þessir samningar takist milli viðkomandi aðila, og jafnframt í trausti þess, að hæstv. ríkisstj. geri allt, sem í hennar valdi stendur, til þess að auðvelda þá samninga, svo að ekki þurfi að stöðva fyrirtækin og gera fjölda manna atvinnulausa í þessum stað, þá tek ég þessa till. aftur. Till. undir a-lið er tekin aftur.

Till. undir b-lið óska ég að verði látin ganga til atkv. Ég hef skýrt frá því, hvernig stendur á um það atriði.

Hvað snertir c-liðinn, þá er það ljóst, að skyldi það koma fyrir, að stöðva yrði sölu á rafmagni til frystihússins, þá mundi frystihúsið liggja undir stórum skemmdum, en ríkissjóður á veð í húsinu fyrir stórum upphæðum, og ég veit, að það mundi ekki þurfa neina heimild frá Alþingi til þess að bjarga þeim málum. í trausti þess, að það verði ekki látið koma til stöðvunar og hæstv. ríkisstj. grípi þar inn í, svo sem eðlilegt er, þá tek ég einnig till. undir c-lið aftur.