21.03.1962
Sameinað þing: 44. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 730 í D-deild Alþingistíðinda. (3750)

306. mál, gjald af innflutnings- og gjaldeyrisleyfum

Fyrirspyrjandi (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. viðskmrh. fyrir upplýsingar um það, hve mikill þessi skattur hefur reynzt, og ég vil láta í ljós ánægju mína yfir því, að það leyfisgjald, sem heimilað er í 10. gr. laganna, hefur ekki verið innheimt að öllu leyti. En í umr., sem urðu á sínum tíma um þetta mál hér í þinginu, var því haldið fram, bæði af mér og öðrum, að leyfisgjaldið væri ákveðið óþarflega hátt, eins og líka hefur sýnt sig. Hins vegar er þess að gæta í sambandi við þær upplýsingar, sem hæstv. ráðh. taldi sig gefa hér um kostnað við innflutningsskrifstofuna á sínum tíma, að það er nokkuð villandi, vegna þess að hún annaðist fleiri störf en þau sem gjaldeyrisbankarnir hafa tekið að sér. Hún annaðist ýmsa skýrslusöfnun, sem Seðlabankinn hefur tekið að sér að nokkru leyti og Framkvæmdabankinn líka tekið að sér að öðru leyti, svo að sá samanburður, sem hann gerði hér, er þess vegna ekki tæmandi, vegna þess að hann nær ekki til nema nokkurs hluta af þeim störfum, sem innflutningsskrifstofan hafði áður með höndum. Þrátt fyrir það er það þó upplýst, að sá kostnaður, sem gjaldeyrisbankarnir einir hafa af þeim störfum, sem innflutningsskrifstofan áður hafði með höndum, nema rösklega 2 millj. kr. Hvað mikið aðrar stofnanir greiða svo vegna starfa, sem innflutningsskrifstofan annaðist áður, er ekki upplýst af því, sem hæstv. ráðh. sagði hér áðan.

Ég sem sagt vil lýsa ánægju minni yfir því, að þetta gjald hefur ekki verið innheimt nema að hálfu leyti, og það staðfestir það, sem haldið var fram í umr. hér á sínum tíma af mér og fleirum, að það væri ekki þörf á því að hafa það eins hátt og heimilað er í lögum.