28.03.1962
Sameinað þing: 46. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 732 í D-deild Alþingistíðinda. (3754)

193. mál, lausn verkfræðingadeilunnar

Fyrirspyrjandi (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að spyrjast fyrir um það, samkv. þingsköpum, hvernig hæstv. ríkisstj. hafi leyst verkfræðingadeiluna, að því er snertir ýmsar ríkisstofnanir og þörf þeirra fyrir verkfræðinga í þjónustu sinni. Þar hef ég sérstaklega spurt um verkfræðingaþörf vitamálaskrifstofunnar, vegamálaskrifstofunnar og landssímans, og þætti auðvitað vænt um að fá upplýsingar um, hvernig þessi mál standa að því er fleiri ríkisfyrirtæki snertir, sem eiga að hafa á hendi framkvæmdir, sem ríkisvaldið hefur á prjónunum.

Ég tel, að þessi fsp. liggi alveg augljóslega fyrir og þurfi engar málalengingar um hana að hafa, en hins vegar svo mikið í húfi, að þessi mál hafi fengið einhverja viðunandi lausn með nægum sérfræðingum í þjónustu þessara framkvæmdafyrirtækja ríkisins, og því fannst mér ástæða til þess að óska vitneskju um það.