11.04.1962
Sameinað þing: 52. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 743 í D-deild Alþingistíðinda. (3774)

208. mál, jarðhitarannsóknir á Norðurlandi

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Í tilefni af því, að hv. fyrirspyrjandi las kafla úr ræðu, sem ég hafði flutt hér í fyrra, þá kannast ég við það, að í fyrra var gert ráð fyrir, að það yrði byrjað í Húsavík. Raforkumálastjóri gerði ráð fyrir því og aðrir, sem um þessi mál ræddu. En við nánari athugun málsins þykir hagkvæmara að byrja á Ólafsfirði, m.a. vegna þess, að á Ólafsfirði er ekki hægt að vinna nema yfir hásumarið. Á Ólafsfirði er ekki gert ráð fyrir, að það taki nema 4—5 vikur að bora það, sem bora þarf. Og það er aðeins nánari athugun á þessum málum, sem hefur leitt í ljós, að hagkvæmara þykir að byrja á Ólafsfirði.

Ég heyrði það einnig á hv. fyrirspyrjanda, að hann hafði út af fyrir sig ekkert við þetta að athuga, þegar nánar var að gætt, og skil ég það, að þegar hann skoðar málið í réttu ljósi við nánari athugun, þá er það praktískara og skynsamlegra að ljúka á Ólafsfirði boruninni, sem tekur tiltölulega stuttan tíma og kemur strax að notum, heldur en að fara t.d. fyrst til Húsavíkur og síðan til Ólafsfjarðar, því að það má reikna með, að í Húsavík sé miklu meira verkefni og lengri tími, sem borinn verður þar, heldur en á Ólafsfirði:

Varðandi það, að borinn er ekki tekinn fyrr í notkun en þetta, þá var aldrei ákveðið, að hann byrjaði í fyrrasumar. Menn gerðu jafnvel ráð fyrir því, en það varð ekki af því, og skýringin, sem ég gaf áðan, hefur mikið til síns máls. Það þarf að velja starfsmenn á borinn, það þarf að þjálfa starfsmenn, og það á ekki að byrja með borinn, fyrr en það er nokkurn veginn víst, að hann geti haldið áfram óslitið, til þess að hinir þjálfuðu menn missist ekki, því að það kostar mikið að bjálfa nýja starfskrafta.

Ég tel ekki ástæðu til þess að fjölyrða meira um þetta. Ég heyrði það á hv. fyrirspyrjanda, að hann var eftir atvikum ánægður með þessi svör, sem ég hafði gefið.