18.12.1961
Sameinað þing: 29. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 493 í B-deild Alþingistíðinda. (380)

1. mál, fjárlög 1962

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég mun ekki ræða neitt almennt um fjárlögin. Ég átti kost á því við 1. umr., og viðhorfið hefur ekki breytzt. Sé ég því ekki ástæðu til að bæta við það, sem ég sagði þá um fjárlögin.

Það var til þess að mæla fyrir nokkrum brtt., sem ég flyt ásamt þremur öðrum þingmönnum af Austurlandi, að ég kvaddi mér hljóðs.

Það er þá fyrst, að á þskj. 243 flytur fjvn. till. um heimild á 22. gr. til að ábyrgjast lán að upphæð allt að 35 millj. kr. til byggingar og endurbóta síldarverksmiðja og síldarumhleðslustöðva á Austurlandi, gegn þeim tryggingum, er hún metur gildar, hjá öðrum aðilum en ríkisfyrirtækjum. Við leyfum okkur að flytja till. um, að þessi heimild verði hækkuð í 45 millj. kr., og rök okkar eru þau, sem nú skal greina í örfáum orðum.

Síldargengd hefur sífellt farið vaxandi nú við Austurland, og s.l. sumar hefði síldveiðiflotinn tvímælalaust getað veitt mörg hundruð þúsund málum meira, ef sæmileg skilyrði hefðu verið á Austurlandi til þess að taka á móti bræðslusíld. Þetta hefur valdið mönnum þungum áhyggjum, hversu erfitt er að taka þar á móti bræðslusíldinni, bæði þeim, sem byggja þessi byggðarlög, og ekkert síður þeim, sem starfa á síldveiðiflotanum. Þarf ekki að fara mörgum orðum um það tjón, sem af því leiðir, þegar flotinn verður annaðhvort að sækja með hleðslu sólarhringssiglingu eða liggja dögum saman og bíða. Sjá allir, hvílík gífurleg verðmæti fara þá til spillis og hversu háskalegt ástand það er þjóðarbúinu, að þannig standi ár eftir ár. Segja má, að síldin sé hrekkjótt og færi sig mikið til og því vont við þessu að gera til fullnustu. En þess ber að gæta, að ef síldarsaga landsins er skoðuð og litið yfir langt tímabil, kemur í ljós, að sumarsíldveiði hefur verið fyrir Norðurlandi og Austurlandi, þessu landssvæði öllu saman. Þess vegna er tvímælalaust rétt stefna að hafa viðbúnað til að taka á móti síld til bræðslu og söltunar á öllu þessu svæði. Þetta má telja nú orðið eitt veiðisvæði, allt þetta svæði. Það hefur komið í ljós, að stórfellt tjón leiðir af því, hversu illa er búið í haginn fyrir síldarmóttöku á suðurhluta þessa stóra veiðisvæðis fyrir Norður- og Austurlandi. Svo koma aftur síldarmál Suðvesturlandsins sér á parti og verða ekki rædd af mér í sambandi við þessa tillögu.

Dálítið hefur verið bætt úr þessu fyrir Austurlandi á undanförnum árum, en reynslan sýnir glöggt, að það er aðeins lítið af því, sem þarf að gera. Nú hafa menn mikinn gaum gefið þessum málum í sumar og haust á nýjan leik, bæði síldarverksmiðjustjórn ríkisins, sem íhugað hefur þau gaumgæfilega og margt skoðað í því sambandi, og einnig austfirzkir menn, sem hafa af vanefnum að sjálfsögðu reynt að koma sér upp nokkrum verksmiðjum á undanförnum árum með stuðningi ríkisvaldsins.

Það er skemmst af að segja, að síldarverksmiðjustjórn ríkisins hefur lagt til við hæstv. ríkisstj. nú í haust, að byggðar yrðu tvær síldarmóttökustöðvar á Austurlandi á vegum síldarverksmiðja ríkisins, önnur á Vestdalseyri við Seyðisfjörð og hin á Mjóeyri við Eskifjörð. En uppástungur eru gerðar um tvær vegna þess, að síldarverksmiðjustjórninni fannst þýðingarmikið að hafa aðra þessa stöð fyrir sunnan Gerpi. Þar er röst mikil og erfitt um siglingar, en veiðisvæði oft gott. Þótti því síldarverksmiðjustjórninni hyggilegt, að þessar stöðvar yrðu tvær, önnur á Seyðisfirði og hin fyrir sunnan Gerpi. Varð þá Mjóeyri við Eskifjörð fyrir valinu að dómi sérfróðra manna, sem skoðuðu þá staði, sem gátu komið til greina.

Hugsunin er, að þessum stöðvum verði komið upp, þ.e.a.s. bryggjum, síldarþróm, sem eru tankar, og löndunartækjum góðum og umhleðslutækjum, en síldin verði fyrst um sinn flutt í síldarverksmiðjur ríkisins, sem til eru fyrir Norðurlandi. Er þá hugsunin að reyna að nota vélakost þann, sem þar er til, til þess að vinna nokkuð af þeirri síld, sem veiðist fyrir Austurlandi.

Þessum framkvæmdum eru svo vandlega valdir staðir, sem eru sérlega heppilegir til þess, að þar komi síldarverksmiðjur. Er þá að sjálfsögðu útkoman sú, að ef síldin heldur áfram að veiðast verulega fyrir Austurlandi, sem við vonum, þá verði síðar byggðar verksmiðjur á þessum stöðum. En með þessu móti ætti að vera hægt að greiða talsvert fyrir síldveiðiflotanum án þess að leggja í að byggja nýjar verksmiðjur á vegum síldarverksmiðja ríkisins að svo stöddu.

En nýjar verksmiðjur eru nokkuð dýrar nú orðið. Til marks um það má segja, að 2500 mála verksmiðja, sem væri byggð alveg að nýju, án þess að þar væri nokkuð við að styðjast fyrir, með bryggjum að sjálfsögðu og öllum nauðsynlegum útbúnaði, mundi líklega kosta rúmar 40 millj. kr. En þessar framkvæmdir, sem síldarverksmiðjustjórnin hefur gert tillögur um til hæstv. ríkisstj., eru áætlaðar 21 millj., eða sem svarar hálfum stofnkostnaði við að reisa eina 2500 mála verksmiðju alveg að nýju.

En það er trú þeirra, sem sitja í síldarverksmiðjustjórn ríkisins, og þeirra ráðunauta, sem hún styður álit sitt við, að með þessu mundi mega bjarga geysilega miklum verðmætum, samanborið við stofnkostnaðinn, og mætti bjarga miklu meiri verðmætum á þennan hátt en með því að verja tilsvarandi fjárhæð í nýbyggingu á verksmiðjum.

Mér virðist þessi lausn mjög hyggileg og æskileg, og ég held, að flestum sýnist svo, sem þetta mál hafa skoðað.

Ég segi frá þessu hér vegna þess, að hæstv. ríkisstj. hefur lagt til, að heimilt sé að ábyrgjast 35 millj. kr. lán til þess að koma upp nýjum verksmiðjum og endurbæta þær, sem fyrir eru, og löndunarstöðvum, og er þá að sjálfsögðu gert ráð fyrir, að það, sem ríkisstj. fellst á að gera á vegum síldarverksmiðja ríkisins, verði innifalið í þessari fjárhæð. En tillögur síldarverksmiðjustjórnar eru upp á 21 millj.

Þá er þannig ástatt á Austurlandi, að þar eru tveir staðir, sem allvel eru fallnir til síldarsöltunar, en þar sem engin leið er að losna við svo mikið sem úrgang af síldarplönum, hvað þá meira, því að á þessum stöðum er ekki einu sinni aðstaða til að vinna fiskúrgang, hvað þá síldarúrgang eða síld. Þessir staðir eru Reyðarfjörður og Bakkafjörður. Á öðrum þessara staða, Reyðarfirði, hefur verið rekin síldarsöltunarstöð með erfiðleikum, vegna þess að ekki hefur verið hægt að losna við úrganginn. Fjölgar síldarsöltunarstöðvum þar og á að fjölga, ef allt gengur rétta leið, og það þegar á næsta sumri, svo framarlega sem hægt er að leysa þetta vandamál með úrganginn af plönunum og helzt taka við einhverjum slöttum úr söltunarskipum. Söltun hefur ekki verið á Bakkafirði um sinn, en sá fjörður liggur sérlega vel við, og var verið að enda við í sumar að gera það hafnarmannvirki, sem gerir þar söltun sjálfsagða, ef hægt er að gera verðmæti úr síldarúrganginum og losna við smáslatta.

Allir, sem nokkuð hafa komið nálægt sjávarútvegi, vita, að það er óhugsandi að reka útgerð nú á dögum, nema hægt sé að gera verðmæti úr beinunum og öðrum úrgangi úr fiskinum. Það er því lífsspursmál fyrir þessa staði að koma sér upp litlum fiskimjölsverksmiðjum, sem jafnframt gætu brætt nokkuð af síld. Þetta kostar talsvert, og að sjálfsögðu mundi ábyrgð til að greiða fyrir þessum stöðum rúmast í þeirri till., sem hv. fjvn. leggur til, því að gert er ráð fyrir nýbyggingum í því sambandi. En ég held, að varla sé hægt að gera ráð fyrir því, hversu smátt sem í þetta er farið, að það þurfi minna en 8–9 millj. kr. ábyrgð fyrir báða þessa staði samanlagt, þó að þeir legðu fram nokkuð heima fyrir, eins og vant er, þegar svona stendur á.

Loks er svo þess að geta, að á Austurlandi eru þrjár verksmiðjur, Vopnafjarðarverksmiðjan, Neskaupstaðarverksmiðjan og Seyðisfjarðarverksmiðjan. Þær eru nú orðnar nokkurra ára gamlar, en byggðar upphaflega af vanefnum, hafa þó verið endurbættar nokkuð, en alls ekki nægilega, þannig að þær ná engan veginn þeim vinnsluafköstum, sem þær gætu náð, ef allur búnaður og vélakostur væri þar í réttum hlutföllum og sem tryggilegast frá öllu gengið. Það er því alveg lífsnauðsyn að kosta talsvert upp á þessar verksmiðjur, til þess að þær geti aukið afköst sín og orðið að fullu liði fyrir síldveiðiflotann, því að það er náttúrlega fyrst og fremst málefni þeirra, sem stunda síldveiðarnar, að geta losnað við það, sem þeir veiða, og ég vil segja þjóðarinnar allrar, því að skammt mundum við komast, ef síldartekjurnar vantaði í þjóðarbúið.

Ég vil skjóta því hér inn í í þessu sambandi, að ég er fyrir mitt leyti sannfærður um og hef þráfaldlega látið það í ljós á undanförnum árum, að með aukinni tækni við að finna síldina, hvar hún heldur sig, og með aukinni veiðitækni, sem batnar með risaskrefum, þá er ég alveg sannfærður um, að skammt er undan, að síldveiðin verði ein öruggasta búgrein Íslendinga.

Ég hef á undanförnum árum notað hvert tækifæri, sem ég hef fengið, til að koma þessari skoðun minni á framfæri, því að ég er sannfærður um þetta. Það kemur óðfluga að því, að menn geta vitað alveg, hvar síldin er í höfunum hér í kring, síldarmagnið virðist mjög mikið, og þegar svo er komið og hægt er orðið þar til viðbótar að veiða síldina í álíka sjóveðri og hægt er að vera með línu og net, verður síldveiðin ein öruggasta búgreinin. Nú er alveg komið að því, að hægt sé að stunda síldveiðar með herpinót frá skipinu sjálfu, með bezta útbúnaði, í álíka löku sjóveðri og net og línu. Þetta er orðin bylting.

Ég verð að leggja áherzlu á, að það vantar talsvert mikið á, að þessar þrjár verksmiðjur eystra séu þannig útbúnar, að þær geti komið að fullu gagni. Og það er enginn vafi á því, að það er einhver bezta fjárfesting, sem hægt er að gera, að leggja fé í að endurbæta þær, og með því nýtist líka margfalt betur það fjármagn, sem búið er að leggja í þær.

Nú þori ég ekki að nefna nákvæmar tölur í þessu sambandi, hvað þarf að ábyrgjast mikið fé til að koma þessu sæmilega fyrir. Þessar verksmiðjur geta talsvert lagt fram sjálfar, því að afkoma þeirra s.l. sumar var nokkuð góð. En ástæðan til, að ég á dálítið erfitt með að nefna nákvæmar tölur, er sú, að forráðamenn einnar af þessum verksmiðjum, þ.e.a.s. Seyðisfjarðarverksmiðjunnar, hafa svo nýlega komið með sínar áætlanir til hæstv. ríkisstj. og þingmanna af Austurlandi.

Ég legg ekki út í að nefna í þessu sambandi nákvæma tölu. En við, sem flytjum þessa till., teljum nauðsynlegt að hækka ábyrgðarheimildina, sem hér liggur fyrir, úr 35 í 45 millj. Okkur sýnist augljóst af því, sem fyrir liggur, að 35 millj. muni ekki nægja til að koma í framkvæmd því bráðnauðsynlegasta af því, sem þarna liggur fyrir, þegar þetta er tekið saman: framkvæmdir síldarverksmiðja ríkisins, framkvæmdir á þessum tveimur stöðum, sem enga aðstöðu hafa núna, hvorki til að vinna úrgang úr fiski né síld, og einnig endurbæturnar á þessum þremur verksmiðjum, sem fyrir eru, og loks að byggja upp á nýjan leik litla verksmiðju, sem brann á Fáskrúðsfirði s.l. sumar og lífsnauðsyn er að koma aftur af stað, eins og gefur að skilja, þar sem það er bæði beinamjölsverksmiðja og síldarverksmiðja og hin eina á þeim stað. Atvinnulíf þess staðar yrði slegið algeru rothöggi, ef hún kæmist ekki upp á nýjan leik, enda þykist ég viss um, að það verði greitt fyrir því samkvæmt þeim undirtektum, sem það mál þegar hefur hlotið.

En þegar þetta er tekið saman, þá sýnist okkur brýna nauðsyn bera til, að hæstv. ríkisstj. fái ríflegri heimild en þá, sem til er greind, og mundi það þá að sjálfsögðu vera á hennar valdi, hvernig ábyrgðirnar yrðu veittar, eins og venja er til.

Það kann að vera, að fljótt á litið sýnist einhverjum 45 millj. vera há tala í þessu sambandi. En sé svo, vil ég biðja menn að athuga, að svo er ekki. Það er byggt á misskilningi, ef mönnum kynni að detta það í hug, því að 45 millj. eru ekki nema rétt ríflega stofnkostnaðarverð einnar 2500 mála verksmiðju. Ég er sannfærður um, að ef þessar framkvæmdir kæmust upp, yrðu margföld not af þeim fyrir flotann á við það að leggja t.d. alla fúlguna í eina 2500 mála verksmiðju, að ég nú ekki tali um fyrir öll þau byggðarlög, sem þarna eiga hlut að máli.

Ef þetta kæmist í framkvæmd, sem kostar ekki meira en þetta, væri t.d. stórlega endurbætt söltunaraðstaða á öllu svæðinu frá Langanesi og suður undir Stöðvarfjörð. En það er vitaskuld alveg lífsnauðsyn, að á þessu svæði stórbatni söltunaraðstaða frá því, sem hún hefur verið, vegna þess, hvernig síldin hefur lagzt. Sjá allir, hvernig færi, ef síldin t.d. legðist enn meira austur og sunnar en hún hefur gert, hvernig það færi með að notfæra sér síldina í salt, ef ekki batnaði aðstaðan frá því, sem nú er. Hér eru því ekki aðeins tvær flugur slegnar í einu höggi, ef svo mætti segja, heldur margar.

Ég er alveg sannfærður um, að þetta yrðu mjög hyggilegar framkvæmdir fyrir þjóðarbúið, enda sé ég, að þeir, sem ráða fyrir í fjvn., munu vera á sömu skoðun, þó að þeirra fjárhæð sé lægri en sú, sem við stingum upp á. Við teljum nefnilega mjög þýðingarmikið, að ekkert af þessu, sem ég hef talað um, verði útundan.

Ég vil leggja mikla áherzlu á, að hér er ekki um neinn glannaskap að ræða. T.d. eru tillögur síldarverksmiðja ríkisins beinlínis og hreinlega miðaðar við að geta notað sem bezt þau verðmæti, sem fyrir eru í vélum og öðrum útbúnaði fyrir norðan, þó að síldin hafi lagzt austur.

Sumum mundi kannske finnast, að ástæða væri til að leggja meiri áherzlu á að byggja stórar síldarverksmiðjur fyrir austan, þar sem síldin hefur lagzt á þessa lund. En ég segi fyrir mitt leyti, að ég hef alveg hiklaust tekið þátt í að leggja til, að þrátt fyrir það verði ekki að svo vöxnu ráðizt í að byggja stórar síldarverksmiðjur fyrir austan, heldur áherzla lögð á að byggja nú löndunarstöðvarnar til að geta notað verksmiðjurnar fyrir norðan og sjá betur, hverju fram vindur í þessum málum. En þá er náttúrlega jafnhliða lífsnauðsyn að gera þær verksmiðjur eystra, sem fyrir eru, sem bezt úr garði, svo að þær nýtist til fulls.

Ég vona, að þessar tillögur hljóti hylli manna hér á hv. Alþingi.

Þá eru það nokkur orð um tillögur okkar félaga á þskj. 252. Það er fyrst um vegina. Okkur sýnist lífsnauðsyn að hækka nokkuð framlög til veganna, því eins og horfir með kostnaðinn, eru fjárveitingarnar að verða að engu svo að segja og þetta spólar sig niður. Það er fyrst uppástunga um að taka upp Hjaltastaðaveg og Hróarstunguveg austan Lagarfljóts. Þessir vegir eru báðir hliðarvegir, sem liggja inn á Úthéraðsveginn í Hjaltastaðaþinghá. Hjaltastaðavegurinn er skröltfær sumarvegur, og vantar lítið til, að hann megi teljast það allur. En til hans hefur ekki verið veitt fé síðan 1959. Nú er stungið upp á aðeins 50 þús. kr. til að reyna að laga verstu ágallana á þessari leið, þannig að hægt væri að skrölta að sumrinu til. Hróarstunguvegurinn austan Lagarfljóts er í byggingu. Hann fékk dálitla fjárveitingu 1960, en síðan ekkert. En það er alveg óhjákvæmilegt að halda áfram lagningu þessa vegar. Báðir vegirnir hafa mjög mikla þýðingu fyrir þessi byggðarlög vegna mjólkurflutninga til mjólkurbúsins á Egilsstöðum.

Þá er Jökuldalsvegur eystri. Við stingum upp á, að í hann verði veittar 100 þús. kr. Allmörg undanfarin ár hefur verið unnið að því að koma austurbyggðinni á Út-Jökuldalnum í vegasamband. Nú er ráðgert að fella fjárveitingu niður til þessa vegar, og teljum við alveg óafsakanlegt að fella þessa fjárveitingu niður, eins og þessi mál standa, og leggjum því til, að í þennan veg verði veittar 100 þús. kr.

Þá er næst Viðfjarðarvegur í Helgustaðahreppi. Um æðimörg ár hefur verið veitt nokkurt fé á hverju ári til að leggja þennan veg, sem liggur út frá kaupstaðnum Eskifirði út eftir hreppi, sem Helgustaðahreppur heitir, og áleiðis út í vík í þeim hreppi, sem Vaðlavík heitir. Þessi vegur er afar ófullkominn enn sem komið er á stórum köflum, lítt fær vegna lækja líka og annarra torfæra, sem bólgna upp á vetrum. Nú er hugsun þeirra, sem ráða í fjvn., að strika fjárveitingu til þessa vegar algerlega út. En við viljum ekki láta því ómótmælt og leggjum því til, að 100 þús. kr. verði veittar til þessa vegar. Á þessum vegi er líka heiði nokkur, sem þarf að fara út í Vaðlavíkina. Í víkinni eru fimm bæir og ástandið á heiðinni í vegamálum er hræðilegt. Má segja, að þessir fimm bæir hafi tæpast byggðasamband yfir sumarið.

Þá er vegur, sem Vattarnesvegur heitir. Sá var siður um sinn að veita til þessa vegar smáfjárhæð. Þetta er útvegur, ef svo mætti segja, eða afleggjari frá Fáskrúðsfjarðarvegi, sem liggur frá Reyðarfirði til Búðakauptúns í Fáskrúðsfirði. En þessi vegur liggur út á nes, er Vattarnes heitir, við Reyðarfjörð. Á þessu nesi er fiskipláss gott, nokkrir bæir og útvegur nokkur, en vegasamband með öllu óforsvaranlegt, og leggjum við því til, að áfram verði haldið að veita nokkurt fé í þessu skyni, 50 þús. kr.

Þá kemur næst till. okkar um að hækka framlag í Stöðvarfjarðarveg úr 410 þús. kr. í 700 þús. kr. En þannig er ástatt um þennan veg, að þó að hann heiti Stöðvarfjarðarvegur, er þetta hluti af samfelldum vegi, sem liggur frá Fagradalsbraut í Reyðarfirði, en sú braut er aftur tengd aðalveginum norður og vestur um land. Þessi vegur liggur frá Reyðarfirði af Fagradalsbrautinni, út með Reyðarfirðinum að sunnan, yfir svokallað Staðarskarð til Búða í Fáskrúðsfirði, og þaðan um suðurströnd Fáskrúðsfjarðar til Stöðvarfjarðar, inn fyrir Stöðvarfjörðinn og áfram um svokallaðar Hvalnesskriður og Kyrruvíkurskriður til Breiðdals, síðan áfram suður með ströndinni, svo langt sem vegasamband nær, suður að Jökulsá á Breiðamerkursandi. Hefur lengi verið unnið að því að þoka þessum vegi þarna fram með fjörðunum. Það hefur verið geysimikið átak og gengið afar hægt. En eins og gengur, var svo komið að lokum, að ekki var eftir alveg ófært nema nokkurt haft á milli Stöðvarfjarðar og Breiðdalsvíkur. Var verið í sumar að ryðja veg þarna í skriðunum og koma sambandi á með fjörðunum. Þetta opnar sem sé samband þarna með öllum Austfjörðunum, og í raun og veru opnar þetta vetrarleið. Ég bið menn að taka eftir því, að þetta opnar vetrarleið með fjörðunum. Þetta er stórfellt mál og breytir allri afstöðunni mjög.

Það er búið að ryðja þarna, en þá er eftir enn stórfelldur kostnaður við að bera ofan í. Þetta er afar mikil vegagerð utan í snarbröttum skriðum, þar sem menn fyrir ýtutímann héldu, að alls ekki gæti orðið nokkurn tíma lagður bilvegur. Það er eins með Njarðvíkurskriður eystra og ýmsar skriður fyrir vestan o.s.frv., sem menn héldu að ekki væri hægt að vegleggja. Það var ekki fært nema huguðustu mönnum að fara þarna um á hesti, án þess að fara af baki sums staðar. Nú er sem sagt búið að ryðja þarna, en eftir að setja á þetta smiðshöggið. Annað er ekki minna um vert, og það er, að þó að hægt verði nú að koma ofaníburði í þetta, þá eru stórir kaflar á leiðinni frá Fáskrúðsfirði til Breiðdalsvíkur með öllu ólagðir, hreinn og beinn ósæmilegur ruðningur, sem skrönglazt er eftir á þessari leið. Yfir þá kafla hefur verið hlaupið til að komast alla leið. Þarna eru því geysileg verkefni óunnin. Auk þess er búið að taka lán fyrir fram út á fjárveitingar í þennan veg til að reyna að tengja saman. Við leggjum til, að fjárveitingin verði hækkuð um 290 þús. kr.

Þá koma næst Breiðdalsvegir í Breiðdalssveitinni. En Breiðdalur er þannig gerður, að hann greinist í tvo dali og í honum eru þrjár þjóðleiðir: Ein inn í Norðurdal, sem kallaður er. Önnur, sem er hluti af aðalleiðinni og kölluð Austurlandsvegur, sem liggur upp um Breiðdalsheiði til Fljótsdalshéraðs og þaðan norður í land. Það er einn þjóðvegurinn í Breiðdal enn, í svokölluðum Suðurdal, þ.e.a.s. fyrir sunnan Breiðdalsána. Þar er þjóðvegur inn með bæjaröðinni. Þarna vantar mikið á, að vegir séu komnir í nokkuð sæmilegt horf, en fjárveiting aðeins 100 þús. kr., — var lækkuð fyrir tveimur árum úr 150 þús. kr. niður í 100 þús. kr. Nú leggjum við til, að hún verði lagfærð á nýjan leik og sett í 150 þús. kr., eins og hún var fyrir tveimur árum.

Þá koma næst tvær tillögur, sem ég ætla að leyfa mér að mæla fyrir í einu lagi. Það er Berufjarðarvegur, að framlag til hans hækki úr 180 þús. í 350 þús., og Geithellnavegur, að framlag í hann hækki úr 180 einnig í 350 þús. En þannig er ástatt um þessa vegi, að þeir eru báðir hluti af aðalleiðinni umhverfis landið. Þegar komið er að norðan austur á Fljótsdalshérað að Egilsstöðum, þá er farið inn Skriðdal, síðan yfir Breiðdalsheiði og niður í Breiðdal. Þá tekur Berufjarðarströndin við og farið inn fyrir Berufjörðinn, það er þessi Berufjarðarvegur, sem því er hluti af aðalþjóðleiðinni umhverfis landið. Síðan er farið yfir Búlandið, sem kallað er, þar sem Djúpivogur skerst í, þá inn fyrir Hamarsfjörð, suður í Álftafjörð og inn fyrir hann, og er sá vegur kallaður Geithellnavegur, unz komið er suður á Lónsheiði. Á þessu sjá menn, að þessir vegakaflar eru hlutar af aðalþjóðleiðinni í kringum landið og jafnframt af aðalleiðinni með sjó um Austfirðina, sem fyrr var lýst. Segja verður hverja sögu, eins og hún gengur. Þessir vegakaflar eru einhverjir lélegustu kaflarnir á allri þjóðleiðinni umhverfis landið, aðalleiðinni. Hefur oft verið á þetta bent hér á Alþingi, en mjög hægt gengið með fjárveitingar, eins og verða vill, þar sem í mörg horn er að líta. En nú er það beiðni okkar til þm., að þeir vildu styðja okkur í að hækka nokkuð fjárveitingar í þessa vegakafla, þar sem óðum dregur nú að því, að þjóðleiðin í kringum landið annars staðar komist í gott horf. Þykir okkur hart við það að búa, að ekki verði aukinn skriðurinn á lagningu þessara vega.

Í þessu sambandi vil ég skjóta hér inn, get ekki stillt mig um það, enda verður það einhvers staðar fram að koma, að sú óhæfa hefur verið drýgð núna í sambandi við þessa fjárlagaafgreiðslu, að jafnframt því, sem fé af benzínskatti hækkar um 400 þús. kr., er framlag til Austfjarðavega af benzínskatti látið standa óbreytt. Ekki ein króna af viðbótinni er veitt á Austurland. Hika ég þó ekki við að fullyrða, að á Austurlandi og Vesturlandi er mest þörf fyrir aukið vegafé. Ég þykist þekkja það vel til um landið, að mér sé óhætt að fullyrða þetta. En sú óhæfa hefur samt sem áður verið drýgð nú af þingmeirihlutanum, að ekki ein króna af aukningunni á benzínfénu hefur verið veitt til vega á Austurlandi. Hefði þó sannarlega ekki verið úr vegi, að eitthvað af aukningunni hefði komið á þann hluta aðalleiðarinnar umhverfis landið, sem liggur um þessar slóðir, sem ég hef verið að lýsa, og þar sem ástandið er eins og ég hef mjög lauslega greint frá.

Þá kem ég að næstu till., sem er um að hækka nokkuð framlag í vegina í Öræfunum. Ég veit ekki, hversu margir hv. þm. hafa komið í öræfin eða eru kunnugir þar. En því fer alls fjarri, að vegir þar séu komnir í það horf, sem þarf að vera. Óuppbyggðir vegir eru þar á löngum köflum, en mjög nauðsynlegt að ganga einmitt sérstaklega vel frá vegum í Öræfunum, vegna þess að þar er vatnagangur furðulega mikill. Það hafa aðeins 80 þús. kr. verið ætlaðar í þessu skyni á fjárlagafrv., og förum við fram á, að það verði hækkað í 150 þús. kr. Ég er alveg sannfærður um, að ef hv. þm. væru kunnugir staðháttum, mundu þeir ekki sjá eftir því að veita þessa fjárhæð til að laga vegina í þessari sveit.

Ef einhverjum skyldi detta í hug, að hér væri farið fram á háar fjárveitingar yfir höfuð, þegar menn hlýða á þetta mál og mál annarra þm., sem hafa talað hér fyrir hækkunartill. sínum í vegamálum og brúamálum og öðru slíku, þá er mönnum hollt að hugleiða, að þó að allar þær tillögur væru samþykktar, sem fyrir liggja, hver ein og einasta, mundu fjárveitingar til vega ekki verða jafnmiklar raunverulega, miðað við framkvæmdir, og þær voru fyrir aðeins tveimur til þremur árum. Þó að hver einasta till. væri samþykkt, sem hefur verið lögð fram um þessi efni, hver ein og einasta, mundu ekki jafnmiklar framkvæmdir ráðgerðar og unnar voru fyrir þremur árum, 1958.

Þá kem ég að tillögum um brúamál.

Það er fyrst till. um að hækka fjárveitingu til brúargerðar á Fögruhlíðará. Þannig háttar, að þessi á, Fögruhlíðará, rennur út eftir Jökulsárhliðinni, hliðstætt við Jökulsá, eftir að dregur nálægt sjónum. Þjóðvegur liggur svo út eftir hlíðinni, en á þessi, Fögruhlíðaráin, hindrar torfærulausar samgöngur fjallabyggðarinnar inn á aðalþjóðveginn. En þá leið þarf að fara, ekki aðeins til aðdrátta og ferðalaga, heldur líka til að flytja afurðir. Úr þessu er hægt að bæta með tvennu móti: Annaðhvort að leggja veg frá yztu bæjum fyrir vestan Fögruhlíðarána inn á þjóðveginn við bæinn Fögruhlíð eða með því að byggja tvær brýr yfir ána og koma þannig fjallabyggðinni í vegasamband. Nú stendur svo sérstaklega á, að það er hægt að fá þarna ódýrt efni til vegagerðarinnar vegna þeirra stóru framkvæmda, sem ekki alls fyrir löngu voru við Lagarfljót. Mundi því vera hægt að koma þessum brúm upp sérlega ódýrt. Hvor þeirra um sig mundi kosta um 180 þús. kr. Þarna eru æðimargir bæir, sem eiga hlut að máli, og atvinnureksturinn í veði. Þar að auki er kostnaðurinn við brýrnar aðeins lítið brot af því, sem þyrfti að leggja fram til að koma vegi alla leiðina fyrir vestan ána. Því leggjum við til, að fjárveitingin til brúa á Fögruhlíðará verði hækkuð úr 180 þús. í 360 þús. Ég skal taka fram, að við allir þm. af Austurlandi erum sammála um, að þessar brúarframkvæmdir ættu að vera þær, sem kæmu næst til greina í Norður-Múlasýslu.

Þá er till. um að veita 300 þús. kr. til að koma brú á Selá í Álftafirði. Fyrir nokkrum árum voru veittar 100 þús. kr. í þessu skyni, sem hafa verið geymdar ár eftir ár. Leggjum við nú til, að þetta verði hækkað og fjárveitingunni komið upp í 400 þús., sem er langdrægt nóg til að koma brúnni á. Þetta er á, sem afar oft er mikil torfæra, og fyrir sunnan ána, úr Álftafirði skoðað, eru tvær jarðir og sjúkraflugvöllur byggðarinnar. Mælir því allt með, að þessi á verði brúuð, enda hlýtur hún að verða það, en búið að bíða afar lengi með þessa framkvæmd.

Þá er Kotá í Öræfum. Þessi á er hið versta forað og hefur flæmzt þar fram og aftur um stórt landssvæði og eyðilagt. Hefur nú þegar verið unnið að fyrirhleðslum nokkrum við þessa á, sem ég kem að síðar, en brúin er ógerð, en lífsnauðsyn að koma henni upp. Það er ekkert ofsagt, að þessi á er hið versta forað. Ég held meira að segja, að Öræfingum þyki hún slæm, og kalla þeir þó ekki allt ömmu sína í því tilliti, það er alveg óhætt að fullyrða. Menn fá sig fullkeypta að glíma við hana, en hún rennur þarna á milli bæja í miðri sveitinni.

Þá kem ég að till., sem með nokkru móti má kallast í sambandi við þessa, þótt hún sé sjálfstæð. Og það er till. á sama þskj. við 16. gr., að framlag til fyrirhleðslu við þessa Kotá verði hækkað úr 40 þús. kr. í 70 þús. kr. Með bréfi, dags. 2. des., skrifaði vegamálastjóri fjvn. um nauðsyn þess, að hækkað yrði framlagið til fyrirhleðslu á Kotá í Öræfum. Í þessu bréfi er m.a. upplýst, að í fjárlögunum undanfarin tvö ár hefur verið dálítið framlag til fyrirhleðslu á Kotá. Í tillögum til rn. um fjárveitingu á þeim fjárlögum, sem nú er verið að afgreiða, þegar verið var að semja frv., hafði vegamálastjóri lagt til, að veittar yrðu til árinnar í fyrirhleðsluna 40 þús. kr., og hafði hann þá talið, að það mundi nægja til að ljúka verkinu. En á s.l. hausti kom mikið flóð í ána og raskaðist nokkuð mannvirkið, sem búið var að gera. Og til að endurbæta það mannvirki og vegna hækkunar á kostnaði lagði hann sem sagt til að hækka liðinn úr 40 þús. í 70 þús. kr. Enn fremur hefur vegamálastjóri tekið fram, að verði þetta ekki gert, þ.e. mannvirkinu lokið, sé mannvirkið allt í hættu, bráðri hættu. Fór hann fram á það við hv. fjvn., að hún tæki Þessa leiðréttingu eða hækkun inn. En nefndin hefur ekki gert það af einhverjum ástæðum. Ég held, að það hljóti að vera hér um einhvern misskilning að ræða, og vildi ég beina þessu til hv. frsm. n., sem hlýtur að heyra þetta, því að ég trúi ekki öðru en hann hlusti á umr., þótt ég sjái hann ekki. (Gripið fram í) Það getur ekki verið. Ég sé hann ekki. Það hljóta einhverjir nm. að vera hér, sem segja honum þá frá þessu. Annars er tæpast hægt að halda umræðunni áfram, ef hv. frsm. meiri hl. n. lætur ekki svo lítið að hlusta. Ég man satt að segja ekki eftir því, að það hafi nokkurn tíma komið fyrir, að frsm., — nú sé ég, að hann er að koma. — Ég vildi fara fram á, að hv. n. athugi þetta, hvort ekki sé hægt að mæla með þessari till., því að mannvirkið er allt í bráðri hættu, eftir því sem vegamálastjóri segir, ef þessi fjárhæð fæst ekki.

En annars er það sannast að segja um þessa Kotá og fyrirhleðsluna og brúna, að þó að þessi mannvirki séu ekki dýrari en hér er greint, þá mun gróa þarna upp óhemju landssvæði, þegar búið er að koma þessum framkvæmdum í höfn, sennilega nægilegt land fyrir margar jarðir, undir mörg bú. Hér er því um merkilegar framkvæmdir að ræða, þótt ekki séu þær kostnaðarsamar. Þetta er auðvitað ekkert nýtt fyrir mönnum, sem hafa séð, hvílíkt óhemjuland nýtist við þær fyrirhleðslur, sem farið er að gera við margar af jökulánum.

Þá er till. við 20. gr. frá okkar hendi. Hún er um nokkrar fjárveitingar í flugvelli á Austurlandi. Ég vil finna að því, að reynt skuli vera að draga valdið til að skipta framkvæmdafénu til flugvalla úr höndum Alþingis með alls konar vífilengjum, eins og þeim, að það séu ekki komnar tillögur frá flugmálastjórninni. Eins og það sé frambærileg ástæða, komið fram undir jól. Þetta er hneyksli, að það skuli koma í ljós, að ekki sé hægt að vinna að skiptingu á fjárveitingum til flugvalla, vegna þess að ekki séu komnar tillögur eða skýrslur frá flugmálastjórninni. Mér finnst, að fjvn. hefði átt að bæta úr þessu og ganga í málið, þannig að hægt væri að gera tillögur um skiptingu þessa fjár í fjárl., eins og a.m.k. oftast nær hefur verið gert. En hvað sem þessu líður, höfum við út af þessu lagt fram fjórar tillögur varðandi flugvelli. Það er fyrst til Norðfjarðarflugvallar 1 millj. Þannig er ástatt um þennan flugvöll, að nú í nokkur ár hefur verið veitt til hans fé, þótt mjög væri hægt á því. eftir að núverandi þingmeirihluti tók við. Nú vantar loks ekki nema herzlumuninn, til þess að þessi flugvöllur verði nothæfur, eftir að koma á hann slitlagi, en búið að byggja undirbygginguna, sem gerð er með þeim hætti mest, áð dælt er upp úr sjávarlóni og þannig gerð undirbyggingin. Nú vantar slitlagið, og því leggjum við til, að veitt verði í þessu skyni 1 millj., til þess að flugvöllurinn komist í gagnið.

Þá leggjum við til, að til Egilsstaðaflugvallar verði veittar 700 þús. kr. Þetta er orðinn einn mesti umferðarvöllur landsins og samgöngulífæð. En sá er hængur á, að flugvöllurinn er tæpast nothæfur fyrir stærri gerð véla, eins og ástatt er. Hann er of gljúpur, og þarf að bæta úr því með nokkrum kostnaði. Enn fremur þarf enn að bæta öryggisþjónustu, m.a. vantar byggingu, ekki mjög dýra að vísu. Leggjum við til, að til endurbóta á Egilsstöðum verði þessu sinni veittar 700 þús. kr.

Þá er Hornafjarðarflugvöllur, sem er samgöngulífæð þeirra Hornfirðinga og miklu fleiri, því að hann er mjög mikið notaður í sambandi við langferðalög um landið. Hann er á tanga sunnan Hornafjarðaróss og sunnan Hornafjarðar, en aðalbyggðin í Hornafirði er norðan fjarðarins og norðan óssins. Verður því að ferja farþega og allan farangur og allan flutning yfir fjörðinn við árósana. Þar er mjög erfið aðstaða, ekki sízt á veturna, þegar ísrek bætist við straumþunga og aðra erfiðleika. Þess vegna verður að stefna að því að byggja nýjan flugvöll í Nesjunum sjálfum, rétt innan við Hafnarkauptúnið. Við leyfum okkur að leggja til, að 700 þús. kr. verði veittar til að byrja á þeirri framkvæmd. Þar hlýtur flugvöllurinn að koma.

Þá er það Vopnafjarðarflugvöllur. Þar er nú aðeins sjúkraflugvöllur ófullkominn, eins og gengur, en hefur þó komið að liði sem sjúkraflugvöllur. Leggjum við til, að 200 þús. kr. verði veittar til þess að byrja að koma þar upp farþegaflugvelli.

Þá kemur loks till. við 22. gr., heimildagreinina, að gefa eftir aðflutningsgjöld af bifreið, sem keypt hefur verið vegna happdrættis til stuðnings vegagerð yfir Öxi, en þessi Öxi er hefðin á milli Skriðdals og Berufjarðar. Þetta er leið, sem mundi stytta ferðalög úr syðsta hluta Suður-Múlasýslu og Skaftafellssýslu og allra þeirra, sem eiga leið þar um að sunnan, um 70–80 km, miðað við að fara út Berufjarðarströndina og inn Breiðdalinn og síðan Breiðdalsheiði til Skriðdals, sem er aðalleiðin nú.

Nú er ekki gott að gera allt í senn, og því hefur ekki verið hægt að fá fjárveitingar til að koma þarna upp bílvegi. Hefur orðið að snúa sér að því að koma upp vegi á Breiðdalsheiðinni, út Breiðdalinn, um Berufjarðarströndina og inn fyrir Berufjörðinn, þessa leið, sem ég var að lýsa áðan fyrir mönnum sem hluta af aðalleiðinni umhverfis landið. Sú leið liggur líka mest um byggðirnar, og þess vegna hefur orðið að leggja fjármagn fyrst í þá leið.

En menn hafa séð, hvað Öxi var vel fallin til ferðalaga, og haft geysilegan áhuga á því að koma þar upp vegi. Þessi áhugi hefur orðið svo mikill, að heimamenn í þessum sveitum, sveitunum fyrir sunnan Öxi, eru búnir að leggja mörg hundruð þúsund króna verðmæti í ruðning yfir Öxi. Sumpart hafa þeir skrapað saman fé að láni heima fyrir og sumpart lagt fram peninga og vinnu og nú loks af miklum áhuga lagt í happdrætti til stuðnings þessari vegagerð. Ég hygg þetta sé algert einsdæmi á öllu landinu um langa hríð, að svo hafi verið fórnað miklu og lagt mikið að sér til að koma á vegasambandi.

Nú standa vonir til, að á næsta sumri verði jeppafært yfir Öxi. Það var byrjað í hittiðfyrra að styðja þessa framkvæmd lítillega af fjallvegafé og dálítið aukið í fyrra, og ég geri mér vonir um, að með hjálp fjvn. verði enn eitthvað aukinn stuðningur við þetta næsta sumar. Þetta hrekkur allt saman afar skammt, en það standa þó vonir til, að þarna verði jeppafær ruðningur eftir næsta sumar. Vil ég benda mönnum á að fara þessa leið. Þetta er afar skemmtileg leið. Þarna er oft talsvert af hreindýrum og mjög stutt að fara inn á þær öræfaslóðir, þar sem mikið er um hreindýr og annað öræfalíf. Þetta verður þó ekki aðeins nytsamlegur ferðavegur, heldur einnig alveg sérstaklega tilvalinn vegur fyrir þá, sem vilja og þurfa að létta sér upp, skemmta sér og skoða óbyggðirnar.

Nú hefur það orðið þeirra hlutskipti, sem hafa efnt til happdrættisins, að borga mjög hátt aðflutningsgjald af bifreið, sem þeir keyptu til að halda happdrættið um. Hafa þeir farið fram á, að hv. Alþingi vildi ganga til móts við þá og falla frá því að innheimta aðflutningsgjöld af þessari happdrættisbifreið, — bifreið, sem keypt er til landsins til að afla fjár í veg, sem ríkissjóður á að réttu lagi að kosta. Það yrði óbeint framlag ríkisins til þessarar vegagerðar.

Mér er vel kunnugt um, að það er nokkuð vandfarið með tollaundanþágur á bifreiðum. En ég hef samt ekki hikað við að gera þessa till., vegna þess að ég veit ekki til, að það gæti komið til mála, að það yrði hættulegt fordæmi að veita þessa undanþágu. Hér er sem sé um að ræða fyrirtæki eða happdrætti til stuðnings vegagerð, sem ríkið að öðrum kosti yrði innan tíðar að kosta að fullu og öllu, því að það dregst ekki nema í mesta lagi nokkur missiri, að ríkissjóður taki að veita fé á fjárlögum til þessarar leiðar. Þó að hinar leiðirnar með byggðinni séu mjög nauðsynlegar, eins og ég hef drepið á, er engu að síður mjög nauðsynlegt að fá þennan veg. Ég held ég megi segja, að það séu aðeins 16 km af veginum fyrir botni Berufjarðar yfir Öxi og á Breiðdalsheiðarveginn í daladrögum Skriðdals og styttir langferðaleiðina um 70–80 km a.m.k., má ég fullyrða.

Þarna hafa verið lögð fram mikil verðmæti af heimamönnum og sýndur ótrúlegur dugnaður og framtak við það að hefjast handa og hrinda verulega áleiðis. Vona ég, að hv. Alþ. treysti sér til að koma til móts við heimamenn á þessa lund. Ég tel, að menn þurfi alls ekki að óttast þetta fordæmi. En ef farið yrði að tíðka annars staðar að koma á fót happdrætti til að leggja fé í vegina, þá sýnist mér, að það væri síður en svo nokkur skaði skeður fyrir ríkið, þvert á móti mikill ávinningur, þótt undanþiggja þyrfti vinningana tollgreiðslu.