18.12.1961
Sameinað þing: 29. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 505 í B-deild Alþingistíðinda. (381)

1. mál, fjárlög 1962

Gunnar Jóhannsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. 3. þm. Norðurl. v. (ÓlJ) að flytja brtt. á þskj. 248 við 13. gr. fjárlaga, II. lið, þjóðvegi, tölulið 64: Siglufjarðarvegur ytri. Leggjum við þar til, að í staðinn fyrir 400 þús. komi 500 þús. kr.

Ég sé ekki ástæðu til að tala langt mál um þessa till. Eins og öllum hv. alþm. mun kunnugt, er vegasamband við Siglufjörð eitt hið versta, sem er, miðað við flesta aðra kaupstaði á landinu. Vegurinn liggur yfir háan og illfæran fjallgarð, Siglufjarðarskarð. Sá vegur getur lokazt á hvaða tíma árs sem er, og er slíkt ástand illþolandi, sérstaklega fyrir bæ, sem hefur fjölmenna byggð og þar sem er jafnmikið atvinnulíf og þar er yfir sumar-, vor- og haustmánuði.

Það er alllangt síðan byrjað var á lagningu nýs vegar, sem á að ná í gegnum fjallið Stráka, en því verki hefur miðað mjög hægt áfram, eins og flestum mun vera kunnugt. Það er óumdeilanlega ósk allra Siglfirðinga, að þessi vegur komi sem allra fyrst, svo að úr því ástandi verði bætt, sem við nú búum við og ríkir í þessum málum.

Um mánaðamótin maí-júní s.l. fór ég ásamt mörgum öðrum yfir Siglufjarðarskarð. Á leiðinni brast á stórhríð, ein versta, sem ég hef komið út í. Eftir miklar tafir og erfiði tókst hinum dugandi bílstjórum að komast yfir skarðið. Á sama tíma urðu tvær stórar fólksbifreiðir fullar af skólakrökkum, sem voru að koma úr ferðalagi að vestan, að snúa við á skarðinu og börnin, sem voru í bílunum, voru í hrakningum alla nóttina og langt fram á næsta dag, og það var aðeins fyrir dugnað og hörku fólks heima í héraðinu, að tókst að brjótast yfir skarðið og ná börnunum heim til Siglufjarðar daginn eftir. Mér datt í hug, þegar ég var í þessu ferðalagi, að mikið hefði það nú verið ánægjulegt að hafa alla hv. þm. með sér í bílunum — og jafnvel ríkisstj. líka, því að þá hefðu þessir ágætu alþm. og hæstv. ríkisstj. af eigin raun getað kynnt sér það ástand, sem við Siglfirðingar eigum við að búa í þessum málum. Ég held, að allir flokkar, sem hér eiga menn á þingi, hafi lýst sig fylgjandi því að leysa sem fyrst vegamál Siglfirðinga. Það er náttúrlega ágætt, svo langt sem það nær, að gefa góð og falleg loforð, en þó er það nú þannig, að það er ekki nóg að gefa loforð, efndir verða að fylgja loforðunum. Í trausti þess, að hv. þm. vilji nú sýna vilja sinn í verki, vonumst við flm. til þess, sem stöndum að þessari mjög svo hóflegu till., að hún verði samþ., þegar til atkvgr. kemur.