18.12.1961
Sameinað þing: 29. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 506 í B-deild Alþingistíðinda. (382)

1. mál, fjárlög 1962

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég ætla mér aðeins í örstuttu máli að mæla fyrir nokkrum brtt., sem ég flyt við fjárlögin.

Sú fyrsta þeirra er á þskj. 252, í fyrsta rómverska liðnum. Það er till. við 12. gr. fjárl., um heilbrigðismál, og er um það, að styrkur til sjúkraflutninga verði tekinn upp í fjárlögin, þegar slíkur kostnaður verður einstaklingum ofviða. Eins og öllum þm. er kunnugt, er til sjóður, sem heitir læknisvitjanasjóður, að ég held, og er ætlað það hlutverk að hlaupa undir bagga með einstaklingum vegna tilfinnanlegs kostnaðar við að sækja lækni, þegar svo stendur á í læknishéraði, að enginn héraðslæknir gegnir héraðinu. Þarna er sæmilega séð fyrir aðstoð við þá menn, sem þurfa að leggja mikið í kostnað til að sækja lækni til fársjúkra manna, þegar héraðið er læknislaust. En það, sem ég vík að í þessari till., er nokkuð annars eðlis. Það er um það, þegar menn, einstaklingar, jafnvel í læknishéraði, þar sem læknir er starfandi, verða að koma fársjúkum sjúklingi til Reykjavíkur eða til sjúkrahúsvistar að læknisráði og þarf til þess að fá flugvél, kannske oftar en einu sinni, því að ég veit a.m.k. dæmi þess, að einstaklingur hefur lent í 20 þús. kr. útgjöldum af þessum sökum nú fyrir örskömmu. Og þau dæmi geta verið stórfelldari og þau geta verið fleiri. En þarna veit ég ekki til að sé gert ráð fyrir neinni aðstoð við einstaklingana, og væri það þó sjálfsagt út frá sama hugsunarhætti og fyrir mönnum hefur vakað með læknisvitjanasjóðnum. Ég legg því til, að í fjárlögin verði tekin fjárveiting að upphæð 100 þús. kr. í þessu skyni, til þess að hjálpa einstaklingum til sjúkraflutninga, þegar kostnaður verður svo stórkostlegur, að þeir rísa ekki undir honum. Ég teldi eðlilegt, ef þessi till. yrði samþykkt, að landlæknir eða Tryggingastofnun ríkisins ætti að meta aðstæður og úthluta þessu fé.

Önnur till., sem ég flyt, er einnig á þskj. 252 og er við 13. gr., er um það, að tekin verði upp fjárveiting til Dalahreppsvegar, að upphæð 100 þús. kr. það var gerð grein fyrir því áðan af öðrum þm. úr Vestfjarðakjördæmi, að seinustu tvö árin hefði enginn eyrir verið ætlaður til þessa vegar. Hann liggur frá Bíldudalskauptúni út með Ketildalahreppi að vestanverðu við fjörðinn, og þessi byggð er þannig stödd nú, að við sjálft liggur, að hún leggist í auðn. Og ástæðan er fyrst og fremst vegleysan um sveitina. Það er aðeins örstutt síðan fært var jeppabifreiðum alla leiðina frá Bíldudal og út í Selárdal, en ógerlegt hafði verið að koma ræktunarvélum um sveitina, og það mýrlendi, sem þarna hefði þurft að vera undirstaðan undir landbúnaði í Ketildalahreppi, hefur þess vegna ekki orðið ræst fram, og það veldur því, að þessi sveit er nú þannig stödd, að full hætta er á, að byggðin leggist af, ef ekki verður gert neitt í því að bæta þarna samgöngur, svo að hægt sé að opna mjólkurmarkað t.d. við Bíldudalskauptún, sem hefði ærna þörf fyrir aukna mjólk, og að venda sér af fullum krafti að því verkefni að ræsa fram mýrlendið í hreppnum og leggja það þannig undir ræktun.

Þá er önnur till. mín um vegamál um það, að tekin verði upp fjárveiting til Suðurfjarðavegar, að upphæð 450 þús. kr. Þessi Suðurfjarðavegur liggur frá Bíldudalskauptúni inn fyrir Suðurfirði og er kominn að bænum Trostansfirði. En frá þeim bæ og upp á fjalllendið, þar sem Vestfjarðavegurinn kemur yfir Vestfjarðahálendið sunnan úr Vatnsfirði, er talin um 1012 km leið. En allir þeir, sem þyrftu að leggja leið sína frá Bíldudal og vestan af fjörðunum, Patreksfirði og Tálknafirði, norður á bóginn til annarra byggða Vestfjarða, hefðu auðvitað stytt leið sína mjög mikið, ef þeir gætu farið þessa leið inn á Vestfjarðaveginn, því að að öðrum kosti þurfa þeir að fara vestur yfir fjallveginn Hálfdán frá Bíldudal um Tálknafjörð, vestur á Patreksfjörð, suður á Barðaströnd og þá leiðina til Vestfjarða norðanverðra. Það er, eins og hér var gerð grein fyrir áðan, mikið áhugamál Bílddælinga, að Suðurfjarðavegurinn verði tengdur Vestfjarðavegi, og til þess þarf sem sé að ryðja veg þarna um 10–11 km leið. Þeir hafa sent, eins og hér var upplýst, 1. þm. Vestf. áskorunarskjal, undirskrifað af 125 mönnum í fremur fámennu þorpi, Bíldudal, og beðið hann að koma þessu máli á framfæri við hina aðra Vestfjarðaþingmenn og við fjárveitingavaldið. En þetta bréf hefur víst enginn annar af Vestfjarðaþm. fengið að sjá, svo að það hefur verið farið mjög varlega með það, verð ég að segja. En bréfið sýnir og sannar, að íbúar Arnarfjarðar, sérstaklega Bílddælingar, hafa brennandi áhuga á því, að Suðurfjarðavegurinn verði tengdur Vestfjarðavegi. Till. mín er sú, að til þessa verks verði veittar 450 þús. kr.

Þá er þriðja till. mín um vegamál sú, að til Hnífsdals- og Bolungarvíkurvegar verði varið 300 þús. kr. það má segja, að vegurinn frá Ísafirði til Hnífsdals sé orðinn sæmilegur, bæði nægjanlega breiður og vel frá honum gengið, þannig að hann verði ekki fyrir áföllum af völdum vatns. En það verður ekki sagt um veginn frá Hnífsdal til Bolungarvíkur um hina snarbröttu Óshlíð. Þeirri vegargerð hefur aldrei verið lokið. Fyrir nokkuð mörgum árum var hann ruddur með jarðýtu og gerður bifreiðafær, að því er talið er, en aldrei hefur verið borið ofan í hann á nokkurn hátt og mjög illa ræst frá fyrir ofan veginn, eins og þarf þó nauðsynlega að gera í öllum vegum, sem lagðir eru um snarbrattar fjallahlíðar, því að vatnsrennsli er þar mikið og eyðileggur þessa vegi, ef ekki er ræst fram í gegnum vegina og vatni vel veitt frá þeim fyrir ofan þá. Þetta skortir alveg við Bolungarvíkurveg og gerir það að verkum, að hann bólgnar upp af svellum þarna utan í snarbrattri fjallshlíðinni, strax og haustar og frystir að, og verður bókstaflega stórkostlega hættulegur til umferðar. En um þennan veg flytur hið þróttmikla kauptún, Bolungarvík, allar sínar sjávarafurðir til útflutnings um Ísafjarðarhöfn, auk þeirra fólksflutninga, sem vetur og sumar eru um þennan veg. Honum hefur sem sé alls ekki verið lokið enn þá, og honum verður ekki lokið með viðhaldsfé. Til hans þarf því að veita fjárveitingu, og ég hef lagt til, að í þetta sinn yrðu lagðar 300 þús. kr. til þess að byrja á því verki að fullgera þennan þýðingarmikla veg.

Þá er fjórða till. mín um vegamál um fjárveitingu að upphæð 250 þús. kr. til Ísafjarðarvegar, til endurlagningar á Breiðadal. Þessi vegur liggur frá Ísafjarðarkaupstað vestur um Breiðadalsheiði, Önundarfjörð, Dýrafjörð og á Vestfjarðaveginn suður á Barðaströnd og áleiðis til Reykjavíkur. Þessi kafli, sem hér er hugsað til, eru svokallaðar Skógarbrekkur. Þar hefur vegurinn verið lagður eftir hinum gömlu reiðgötum í ótal kröppum beygjum, sem varla eru færar stærri bifreiðum, og verður ófær við fyrstu snjóa á haustin. Verkfræðingar vegamálastjóra hafa mælt fyrir vegi á þessum sjóðum og telja, að það þurfi að leggja þessar skörpu vegarbeygjur upp hinar svokölluðu Skógarbrekkur af og leggja veginn vestan af Breiðadalsheiðinni í einum sveig fyrir dalbotninn og láta hann síðan liggja hinum megin ár niður í Breiðadal á Önundarfjarðarveginn þar. Þetta er bráðaðkallandi að gera, því að það er, eins og ég áðan sagði, varla hægt að segja, að Breiðadalsheiðarvegurinn að vestanverðu sé fær stærri bifreiðum. En hann er nú sú eina leið, sem tengir Ísafjarðarkaupstað og byggðirnar vestan hans við akvegakerfi landsins. Nokkuð mikill hluti af vöruflutningum til Ísafjarðar fer nú fram í stórum vöruflutningabifreiðum landleiðina og þannig um þennan veg, og þetta er sá kafli alls vegarins frá Reykjavík til Ísafjarðar, sem fyrst teppist á haustin, og er í raun og veru hættulegt að aka um hann á svo stórum og þungum bifreiðum sem þarna er um að ræða, alveg sérstaklega í vöruflutningunum.

Það hefði verið fyllsta ástæða til að flytja miklu fleiri tillögur um fjárveitingar til vestfirzkra vega. Eins og hæstv. fyrrv. forsrh., held ég maður verði að segja, Ólafur Thors, sagði einu sinni um veginn til Keflavíkur, að hann væri Ódáðahraun íslenzkra vega, þá má sannarlega ekki síður segja það um vestfirzku vegaslóðana, sem kallaðir hafa verið akvegir, að það er reglulegt Ódáðahraun íslenzkra vega og þyrfti um að bæta. Ekki síður væri ástæða til þess að taka nokkurra milljónatuga fjárveitingu til vegagerðar á Vestfjörðum en til Reykjanesbrautarinnar á milli Reykjavíkur og Keflavíkur, en það mun hafa verið farið fyrst af öllum vegum út í það vegna hans að taka, ég held allt að 50 millj. kr. lán, til þess að endurbyggja hann og umbæta. Það tel ég engan veginn eftir, en tel, að þörfin hefði ekki verið minna brýn vegna vegleysanna á Vestfjörðum.

Þriðji rómverski liðurinn á þskj. 252 eru tillögur frá mér í fjórum undirliðum um fjárveitingar til hafnarbóta.

Ég legg þá í fyrsta lagi til, að fjárveiting til hafnarmannvirkja á Flateyri, sem er á fjárlagafrv, núna 100 þús. kr., hækki í 250 þús. kr. Um það skal ég ekki fara mörgum orðum. Flateyrarkauptún er þróttmikið útgerðarkauptún. Hafnarmannvirki eru þar ófullnægjandi fyrir þann vélbátaflota, sem nú er til í kauptúninu og er nú að vaxa eftir nokkurt atvinnuáfall, sem kauptúnið varð fyrir, þegar þeir togarar, sem þar voru gerðir út af einkaframtakinu, voru látnir sigla suður á Reykjavíkurhöfn til legu þar. En nú er svo komið, að viðlegupláss fyrir þessa báta er ekki nægjanlegt við hafnarmannvirkin á Flateyri, og þyrfti því að lengja þann hafnarbakka verulega, til þess að aðstaða vélbátaútgerðarinnar á staðnum væri sómasamleg. Þarna er um að ræða 150 þús. kr. hækkun frá því, sem gert er ráð fyrir á fjárl.

Önnur till. mín um hafnarbætur er þess efnis, að í staðinn fyrir 50 þús. kr. fjárveitingu til bryggju í Hnífsdal komi 200 þús., hækkun um 150 þús. Ég sé ekki, hver er eiginlega tilgangurinn með því hjá hv. meiri hl. fjvn. að vera að bera fram tillögur, að vera að eyða í það bleki að ákveða 50 þús. kr. fjárveitingu til hafnarmannvirkja. Hvers konar leikaraskapur er þetta? Það er til einskis. Það er nauðsynlegt fyrir útgerðina í Hnífsdal, að Hnífsdalsbryggja verði lengd, og fyrir því greiða 50 þús. kr. ekkert, og væri alveg eins gott að hafa þá enga fjárveitingu og vera að nefna slíka hégómaupphæð, sem að engu gagni kemur. 200 þús. kr. er algert lágmark þess, sem eitthvað gæti dugað til þess, að Hnífsdælingar gætu ráðizt í að lengja bryggju sína um 10–12 metra, og yrðu þó áreiðanlega að leggja þegar í stað sín framlög á móti og vafalaust að taka einhver lán upp á væntanlegar greiðslur frá ríkissjóði til þess að geta leyst þann áfanga.

Þriðja till. mín um fjárveitingar til hafnarmála er um það, að til Hólmavíkur verði veittar 325 þús. kr. í staðinn fyrir 200 þús. kr., sem eru á fjárlagafrv. Þannig stendur á, eins og margir þingmenn vita, að á s.l. tveimur árum var gerður stór áfangi í því að endurbyggja bryggjuna í Hólmavík. Það var trébryggja gömul og var komin að falli og var hættuleg, eins og hún var, hún gat hrunið þá og þegar. En á s.l. sumri var svo langt komið, að landgangur hafði verið byggður að nýju og bryggjuhaus myndaður á ný, þannig að rammað hafði verið niður stálþil utan um allan bryggjuhausinn og jarðfyllingu að mestu leyti komið fyrir í þessum stálhring, þessum stálkraga. Eftir er að ganga frá öllum brúnum á bryggjunni og uppfyllingu og að steypa ofan á bryggjuhausinn og landganginn, og er sýnilegt, að því fer fjarri, að 200 þús. kr. geti dugað, til þess að þessum áfanga verði lokið og þannig gengið frá Hólmavíkurbryggju. Það er þess vegna, að ég tel nauðsynlegt, að þessu annars myndarlega mannvirki, sem nú er komið langleiðina, verði lokið, að ég legg til, að fjárveitingin verði 325 þús. kr., og hygg, að af þeirri upphæð veiti sízt, til þess að hægt sé að fullu að ganga frá Hólmavíkurbryggju.

Þá er það fjórða till. mín um hafnarmannvirki. Hún er um það, að í staðinn fyrir 50 þús. kr. til hafnarinnar á Patreksfirði komi 500 þús. kr., tíföld upphæð. Það er sjálfsagt öllum þm. kunnugt, að fyrir mörgum árum var það till. vitamálastjórnarinnar, að kvíabryggjurnar innan við Vatneyrarodda væru látnar falla og ekki haldið við og í staðinn grafin höfn inn í Vatneyri, inn í það stöðuvatn, sem þar var í miðri eyrinni. Þessu verki er ekki nándar nærri hálflokið enn þá, langt í frá, og að ýmsu leyti er höfnin ekki örugg og ekki nægilega góð, af því að hún er ekki nándar nærri hálfgerð. En þó að svo standi og í raun og veru milljóna mannvirki séu í hættu vegna landbrots í hafnarmynninu, þá gengur fjvn. svo frá þessu máli, að hún ætlar Patreksfjarðarkaupstað 50 þús. kr. til sinna hafnarmála, 50 þús. kr., með hálfgerða höfn eða tæplega það. Og mætti þó ætla, að fyrst og fremst ætti að koma í veg fyrir, að milljónatjón yrði af því, að töf yrði á áframhaldandi framkvæmdum á staðnum. Þetta er annar stærsti kaupstaður á Vestfjörðum, upp undir 1000 íbúar þarna, þróttmikil útgerð, tvö hraðfrystihús, mikið atvinnulíf og ríkisvaldið sýnir þessum stað þá forsmán, vil ég segja, að ætla til hafnarmálanna þarna 50 þús. kr. upphæð, sem dugir ekki til þess að kaupa fyrir eitt íbúðarherbergi, hvað þá heldur að það vegi nokkurn skapaðan hlut í því hlutverki að byggja upp höfn. Ég hef ekki gert till. um fjárveitingar til ýmissa hafna á Vestfjörðum, sem ekki er ætlaður einn einasti eyrir, eins og t.d. til Súðavíkur og fleiri staða, sem er þó eiginlega alveg óverjandi að hjálpa ekki til að bæta hafnaraðstöðuna, því að vestfirzkar byggðir eiga allt undir því, að hafnirnar verði forsvaranlegar.

Þá víkur næst að flugmálum. V. liðurinn á þskj. 252 er um fjárveitingu til flugmála á Vestfjörðum. Ég heyrði það í dag, að hv. formaður fjvn. sagði, að það væri því miður ekki hægt að leggja fram fyrir Alþingi neina sundurliðun á fjárveitingum til flugmála, af því að viðkomandi embættismenn, flugmálastjóri og flugráð, væru ekki búnir að ljúka sínum tillögum. Þetta er trúleg saga eða hitt þó heldur. Það hlýtur að vera þannig, að hv. nefnd hafi gleymt sér, hafi ekki rekið eftir því að fá þessi nauðsynlegu gögn, og fyrir bragðið erum við þm. þannig staddir, að við vitum ekkert, hvaða fyrirætlanir eru um það, hvernig eigi að skipta fjárveitingum til flugmála. En það hefði átt að liggja fyrir nú í síðasta lagi við 3. umr. fjárl., en gerir það ekki. Ég veit því ekkert um það, hvort till. eru á döfinni um það að verja einhverju fé til flugvallargerða á Vestfjörðum. Vonandi er það. En þar sem maður veit ekkert um þetta, þá er mín till. sú, að við liðinn bætist, og breytir þar með ekki heildarupphæðinni, sem til flugmála er ætluð, — þar við bætist: „Þar af til flugvallar á Hólmavík 700 þús. kr. og til Þingeyrarflugvallar 500 þús. kr.“ Sannarlega hefði verið þörf á að nefna eina þrjá, fjóra staði aðra á Vestfjörðum, eins og t.d. flugvallargerð við Patreksfjörð, því að það er skiljanlega lítt við unandi fyrir Vestfirðinga, að flugsamgöngur til landsfjórðungsins hafa lagzt niður á öllum þessum stöðum, sem ég nú var að nefna, nema til Ísafjarðar eins. En því nefni ég þó sérstaklega fjárveitingar til Hólmavíkurflugvallar og Þingeyrarflugvallar, að þar eru til flugvellir, sem aðeins þarf að lengja nokkuð og mundi þess vegna sennilega vera hægt að ljúka og gera nothæfa fyrir þær flugvélar, sem notaðar eru nú í áætlunarflugi innanlands, og koma þannig þremur stöðum á Vestfjörðum í flugsamband við Reykjavík. Þá er þó búið að bæta upp nokkuð af því áfalli, sem Vestfirðingar hafa orðið fyrir að því er snertir samdrátt í flugsamgöngunum á seinustu árum. Næsti áfangi væri svo sá að taka fleiri staði fyrir og þá sérstaklega vestari hluta Vestfjarðanna, Önundarfjörð, Arnarfjörð og Patreksfjörð. En vonandi er það svo, að í þeim till., sem þm. hafa ekki fengið að sjá frá flugráði og flugmálastjóra, sé eitthvert fé ætlað til Vestfjarðaflugvallanna, og er það þá vel og mundi það þá geta fallið vel saman. En ef svo er ekki, þá tel ég óverjandi annað en hv. Alþingi samþykki till. um það að fullgera þessa tvo flugvelli af fjárveitingum til flugvalla á þessu ári.

Mér er það ekki nóg, þó að einn af hæstv. ráðh. komi hér, þegar hv. 1. þm. Vestf. hafði talað sig dauðan, og upplýsi það, að hann hefði gert einhverjar till. til ríkisstj. í einhverri leynilegri nefnd, sem maður er alltaf að frétta um, nýja og nýja leynilega nefnd, sem ríkisstj. hafi skipað eða kosið á kjörtímabilinu og hafi verið að gera till. til ríkisstj. um þessi og hin mál, þ. á m. þetta, að hæstv. flugmrh. kemur hér og segir, að 1. þm. Vestf. hafi eiginlega leyst þessi mál og það hafi því verið óþarft af hv. 4. þm. Vestf. að vera að tala um þau. En það hafi verið skiljanlegt, af því að hann hafi ekki vitað, hvað hv. 1. þm. Vestf. hafði verið búinn að gera mikið í málinu, og þess vegna hefði ræða hans, eins og hann úrskurðaði, verið eðlileg. Ég verð að segja, að ég kann illa þeirri forustu hv. 1.. þm. Vestf. og vænti, að hann sé hér nálægur og heyri mál mitt, því að hann víkur sjaldan úr þingsal, — það má hann eiga, hann situr venjulega á þingfundum, — og láti nú þingmenn Vestfjarða vita um bréf, sem kjósendur skrifa okkur öllum og senda til hans, en það er upplýst í þessum umr., að hann hefur farið svo leynilega með það bréf frá Bílddælingum um framlög til eins vegar, að enginn annar Vestfjarðaþm. mér vitanlega hefur fengið að sjá það enn þá, og eins hitt, að allan þann tíma, sem hann hefur starfað í þessari nefnd, skuli hann ekkert samráð hafa haft við Vestfjarðaþm. um það, hvað væru óskir Vestfirðinga almennt í flugvallagerðarmálum og flugmálum fyrir fjórðunginn. En það eru aðeins örfáir dagar síðan okkur hinum Vestfjarðaþm. var trúað fyrir því, að þessi leynilega nefnd hefði verið skipuð og hann hefði verið í henni.

Ég heyrði það af ræðu hv. 1. þm. Austf. áðan, að það eru eitthvað öðruvísi vinnubrögðin hjá þeim, Austfjarðaþm. Þeir flytja allar sínar till. við fjárlögin saman, og mér er kunnugt um það, að þegar þeir þurfa að herja á einhvern ráðh. í ríkisstj., þá storma þeir þangað allir. Og mér er ekki kunnugt um, að neinn úr hópi Austfjarðaþm. hafi verið skipaður í leynilegar nefndir, sem menn fréttu fyrst um eftir dúk og disk, og svo komi ráðh. og segi: Eiginlega eruð þið að tala um málin af engri þekkingu, en ykkar 1. þm. er búinn að leysa öll mál í þessari og hinni nefndinni, sem ríkisstj. hefur holað honum í. — Ég segi það alveg hreinskilnislega: ég kann ekki við svona vinnubrögð og þakka ekkert fyrir svona forustu, þó að hæstv. ráðherrar komi og þakki þetta sem góða forustu.

Þá flyt ég að síðustu í rómverskum lið VII á þskj. 252 ásamt 5 öðrum þm. Alþb. till., sem er dálítið stærri í sniðum en þær, sem ég hef nú verið að gera grein fyrir, og er um það, að ríkisstj. verði á 22. gr. heimilað að taka lán, allt að 50 millj. kr., vegna húsnæðismálastofnunar ríkisins. Þetta lánsfé á húsnæðismálastjórnin að endurlána þeim húseigendum, sem eiga á hættu að missa íbúðir sínar vegna fjárhagsörðugleika, og lánin á að veita eftir nánari reglum, sem húsnæðismálastjórnin sjálf setji í samráði við ríkisstj. Húsnæðismálin hafa verið rædd áður á þessu þingi, og það hafa komið fram till. um að hækka heimildina, sem í lögum er nú, um hámarkslán, þannig að heimildin fyrir hámarkslán breytist úr 100 þús. kr. á íbúð í 200 þús. kr. Hins vegar hefur það einnig verið upplýst, að um 1500 umsóknir liggi a.m.k. óafgreiddar hjá húsnæðismálastjórn, sem hún hafi ekki enn þá haft neitt fé til þess að sinna. Enn fremur er upplýst, að mjög hafi dregið úr byggingu íbúðarhúsnæðis, bæði í Reykjavík og þó alveg sérstaklega úti um land, og vita allir, að það er afleiðing af því, að kaupgeta almennings hefur dregizt saman, fjárhagsgetan er minni en áður og bitnar jafnvel á því, að menn hafa ekki efni á að ráðast í að byggja íbúð yfir sig og sína. En samt sem áður er það hins vegar staðreynd, að hér í Reykjavík hefur á s.l. hausti verið meira framboð á íbúðum en nokkru sinni fyrr eða síðar að sögn fasteignasalanna. Og hvernig stendur á því? Hvernig samrýmist þetta þeirri staðreynd, að það hafi dregið úr byggingu íbúða? Þeim hefur fækkað. Þær hafa á seinni árum aldrei verið eins fáar og nú og aldrei verið eins mikið framboð á íbúðum í Reykjavík og nú. Það er af því, að fjöldi fólks, sem lenti undir okurvöxtunum og varð fyrir hækkandi verðlagi á öllum sviðum með sitt kaupgjald óbreytt, hefur ekki getað haldið sínum íbúðum. Þær eru á sölumarkaðinum út af neyð fólksins umvörpum. Þannig stendur á þessu mikla framboði. Og þess vegna er það, að við flm. þessarar till. teljum, að þetta lánsfé, 50 millj. kr., eigi húsnæðismálastjórnin að endurlána þeim húseigendum, sem vegna fjárhagsörðugleika eiga á hættu að missa íbúðir sínar ella. Till. er beint borin fram vegna þess ástands, sem hefur skapazt vegna þeirrar fáránlegu og vitfirrtu efnahagsmálapólitíkur, sem hæstv. ríkisstj. rekur.