18.12.1961
Sameinað þing: 29. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 516 í B-deild Alþingistíðinda. (385)

1. mál, fjárlög 1962

Ágúst Þorvaldsson:

Herra forseti. Mig furðar á því, hvað fáir þm. sitja hér í salnum og hlusta á þessar umr., því að ég verð að segja það, að þetta eru einhverjar skemmtilegustu og fróðlegustu umr., sem ég heyri hér á hv. Alþingi. Það eru þessar umr. um fjárlagafrv., þar sem þm. mæla fyrir till. um framfara- og áhugamál íbúanna í hinum einstöku héruðum landsins og lýsa staðháttum í sambandi við það. Ég hygg, að það séu sjaldan jafnfróðlegar umr. hér á Alþingi og einmitt þegar umr. fer fram um þessar tillögur.

Ástæðan til þess, að ég kem nú hér í ræðustólinn, er sú, að ég stend hér að nokkrum brtt. ásamt hv. 4. þm. Sunnl. og hv. 6. þm. Sunnl., og ætla ég að mæla hér örfá orð í sambandi við þennan tillöguflutning.

Það er þá í fyrsta lagi till. nr. II á þskj. 248, brtt. við 12. gr., um það, að hækkað verði framlag til byggingar sjúkrahúsa og læknisbústaða úr 7 millj. í 7 millj. 750 þús., og í öðru lagi, að aftan við liðinn bætist svo hljóðandi aths.: „Þar af 250 þús. kr. til sjúkrahússins á Selfossi og 500 þús. kr. til sjúkrahússins í Vestmannaeyjum.“

Ég ætla ekki, vegna þess að nýlega hafa farið fram umr. hér á hv. Alþingi um sjúkrahúsið í Vestmannaeyjum, að halda neina ræðu um það. Það þarf ekki að lýsa því. Þar er verið að berjast fyrir því að koma upp nýju sjúkrahúsi, og þm. hafa nýlega heyrt umr. um það hér.

Hins vegar er það svo, að á Selfossi er um nokkurra ára skeið búið að vera eins konar sjúkraskýli, vegna þess að í Árnessýslu og austan Hellisheiðar er talin brýn nauðsyn á slíkri stofnun. Og það var tekinn fyrir nokkrum árum læknisbústaðurinn í Selfosslæknishéraði og gerður að sjúkraskýli, og þar var komið fyrir 20 sjúkrarúmum. Síðan hefur svolítið verið bætt við þetta og byggt við, svo að þarna eru nú skilyrði til þess að hafa rúmlega 30 sjúklinga. Ég hef stundum heyrt ýmsa menn segja, og mér hefur þótt það fávíslegt, að þetta væri óþarfaframkvæmd, að vera að koma upp sjúkrahúsi á Suðurlandi, sökum þess, hversu nálægt Þetta væri Reykjavík. En hafa menn ekki gætt að því, að þó að ekki séu nema 60 km til Reykjavíkur frá Selfossi, þá er fjallgarður á leiðinni, sem iðulega teppist á vetrum og verður ófær? Í öðru lagi vildi ég benda á það, að austan úr Skaftafellssýslu eru til Reykjavíkur um 300 km, austast í Skaftafellssýslu, og talsverðu gæti það nú munað í slæmri færð að geta komið sjúklingi þaðan að austan inn í sjúkrahúsið á Selfossi, ef ófærð væri á Hellisheiði. Í Árnessýslu eru búsettir um 7500 manns, en á Suðurlandsundirlendinu öllu munu nú vera um 12000 manns. Nýlega hafa verið reist sjúkrahús hér í grennd við Reykjavík, bæði á Akranesi og einnig í Keflavík, og mun vera um svipaða vegalengd að ræða héðan frá Reykjavík til Keflavikur og er austur yfir fjall. Og ég heyri ekki á nokkrum manni, að það hafi verið taldar óþarfaframkvæmdir eða vitleysa að byggja þessi sjúkrahús, enda eru þau umsetin og ævinlega full. Svo er einnig um þetta sjúkrahús, sem við höfum komið upp austan Hellisheiðar, að þar eru nú yfirleitt rúmliggjandi yfir 30 manns og ekki hægt að taka á móti öllum, sem þangað hafa sótt.

Sjúkrahúsið virðist hafa verið heppið með það, að það hefur fengið ungan og efnilegan skurðlækni, og hann er nú þegar á þessu ári búinn að framkvæma 300 skurðaðgerðir þarna. Af þessu má nokkuð marka það, hvort um óþarfaframkvæmd hefur verið að ræða.

Nú er það hugsjón Sunnlendinga, að þeir ætla sér að byggja fullkomnara sjúkrahús en þarna er um að ræða og hafa þá hugsað sér að koma því undir lögin um fjórðungssjúkrahús. Á undanförnum þingum höfum við ýmsir þm. Sunnl. flutt tillögur hér um fjárveitingu í þessu skyni, sem yrði þá til taks, þegar ráðizt yrði í þessar framkvæmdir. En þær tillögur hafa ekki enn þá séð náð fyrir augum alþm. hv. eða a.m.k. ekki meiri hluta þeirra. Hér er um það að ræða, eins og ég hef sagt, að við flytjum tillögu um, að varið verði 250 þús. kr. til sjúkrahúss á Selfossi. Skal ég svo láta útrætt um það.

Þá er í öðru lagi till. nr. VIII á þessu sama þskj., brtt. við 13. gr., um brúargerðir. Það er, að þar komi nýir liðir: í fyrsta lagi Affall í Rangárvallasýslu, að til þess verði veittar 500 þús. kr., og í öðru lagi Kálfá í Gnúpverjahreppi og í það yrði veitt 350 þús. kr. Um Affallsbrúna í Rangárvallasýslu er það að segja, að eins og kunnugt er, þá er sú brú á Affallinu, á Suðurlandsvegi í Landeyjum, orðin gömul og úr sér gengin og þegar að falli komin. Það er þess vegna talið nauðsynlegt að endurbyggja hana mjög bráðlega. Er þessi till. flutt í því skyni að fá þarna fjárveitingu til byrjunarframkvæmda. En vafalaust yrði um meiri kostnað að ræða en þetta.

Þá er í öðru lagi Kálfá í Gnúpverjahreppi. Austan Kálfár eða í totu, sem myndast milli Kálfár í Gnúpverjahreppi og Þjórsár, eru nokkrir bæir, það eru svonefndir Hofsbæir í Gnúpverjahreppi. Það er Stóra-Hof, tvíbýlisjörð, og Minna-Hof, það eru þrír bæir, sem standa þar í totunni. Þeir eiga alla sína aðdrætti að sækja yfir Kálfá til þess að komast á þjóðveginn, sem liggur um Gnúpverjahreppinn. Yfir Kálfá verða þeir að fara á vaði, og á sumrin, þegar gott er og lítið í ánni, þá er hún enginn farartálmi. En þegar vatnavextir koma og sérstaklega á vetrum, þegar áin bólgnar upp og stíflar sig stundum þarna, þá er oft og tíðum, að þarna er ófært yfir að fara, svo að dögum skiptir. Á þessum bæjum er vitanlega mjólkurframleiðsla, og þarf að koma mjólkinni daglega á mjólkurbílinn, sem gengur um þjóðveginn, en oft og tíðum hefur það ekki verið hægt nokkra daga í einu, þegar áin hefur orðið ófær. Þetta veldur ákaflega miklum erfiðleikum fyrir þessa bæi og sumir af bændunum þarna hafa verið að tala um það, að þeir yrðu að gefast upp á búskapnum á þessum jörðum vegna þessa farartálma. Það hefur verið rætt við vegamálastjóra um það, hvað mundi kosta að byggja þessa brú, og hann hefur talið, að kostnaðurinn mundi geta orðið í kringum 350 þús., eins og hér er lagt til að veitt yrði. Þarna er ekki um stórt átak að ræða, en hins vegar er þarna um stórmál að ræða fyrir þá, sem þarna búa, og fyrir sveitina, þar sem þessir bæir standa.

Ég stend hér að fleiri till., en hugmyndin var nú, að hv. 4. þm. Sunnl. mælti fyrir þeim, en ég sé, að hann er hér ekki viðstaddur, svo að ég vil aðeins drepa á þessar tillögur einnig.

Það er XV. till. á þessu sama þskj., við 14. gr., um það, að við bætist nýir liðir. Það er í fyrsta lagi um heimavistarskóla í Hrunamannaskólahverfi, 960 þús. kr. fjárveiting, sem við gerum till. um. Í öðru lagi Þykkvabæjarskólahverfi, þar er um að ræða skólastjóraíbúð, 120 þús. kr., og í þriðja lagi Hvamms- og Dyrhólahreppsskóli, 224 þús. kr. fjárveiting, sem við leggjum til. Um þetta er það að segja, að í Hrunamannahreppi, þar sem Hrunamannaskólahverfi er, búa rúmlega 400 manns. Þeir byggðu einn fyrsta heimavistarskólann á landi hér fyrir 1930, en þá var þekking á steinsteypu miklu minni en nú er og erfiðara að ná í gott efni til þeirra hluta en nú er orðið vegna bættra samgangna, og mölin, sem notuð var í þetta skólahús, mun hafa verið í raun og veru ónothæf. Nú er svo komið, að þetta skólahús er þegar að hrynja, er mér sagt, og er að öðru leyti orðið ófullkomið og á allan hátt úr sér gengið. Þeir hafa nú sótt um það að mega byggja skóla, og fyrir liggja teikningar að því húsi. Ég hygg, að áætlun um þetta hús sé einhvers staðar á 7. millj. Hér er því aðeins farið fram á byrjunarfjárveitingu, 960 þús. kr. Þá er um að ræða skólastjóraíbúð í Þykkvabænum í Rangárvallasýslu. Þar er nauðsyn á að byggja skólastjóraíbúð, eigi skólastjórinn ekki að vera húsnæðislaus. Við förum fram á 120 þús. kr. fjárveitingu til þess. Og í þriðja lagi er umsókn um byggingu barnaskóla í Hvamms- og Dyrhólahreppum í Mýrdal í Vestur-Skaftafellssýslu. Þar er ófullkomið skólahald, og þeim er nauðsyn á þar að geta byrjað sem fyrst að byggja barnaskóla. Þessi till. er fram borin í því skyni, að þeir fengju byrjunarfjárveitingu til þeirra hluta.

Þá er XVI. till. á sama þskj., við 14. gr., um nýjan lið um heimavist og skólastjóraíbúð að Skógum undir Eyjafjöllum. Þar vantar nauðsynlega íbúð og auknar heimavistir fyrir nemendur, og höfum við farið fram á 350 þús. kr. fjárveitingu með þessari till. Teikningar að þessari byggingu munu vera fyrir hendi og mikil nauðsyn, eins og ég hef sagt, á því, að hægt væri að hefjast handa.

Ég held, að ég hafi þá minnzt fáum orðum á allar þær tillögur, sem ég stend að ásamt öðrum. En ég vildi geta þess, áður en ég lýk máli mínu, að á þskj. 253 er till. frá mér ásamt sömu þm., sem tekin var aftur til 3. umr., það er 2. till. á því þskj., brtt. við 11. gr. um, að þar komi nýr liður: til löggæzlu á Selfossi. Ég vil taka fram, að þessi till. er tekin aftur sökum þess, að hv. fjvn. mun hafa tekið tillit til þeirrar þarfar, sem fyrir hendi er um fé til aukinnar löggæzlu á Selfossi, hún mun hafa tekið tillit til þess í sínum till., og er ég þakklátur fyrir það.