19.12.1961
Sameinað þing: 31. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 522 í B-deild Alþingistíðinda. (392)

1. mál, fjárlög 1962

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Þegar vitað var, hver yrði heildarupphæð til skipta í vegi, brýr og hafnir í hinum ýmsu héruðum, hélt ég fund með hv. þm. Vestfjarða, ásamt hv. 4. þm. landsk., til þess að ná samkomulagi um, hvernig skipta skyldi þeirri upphæð. Þá lá fyrir erindi um það, að Bílddælingar hefðu boðizt til þess að leggja fram 50 þús. kr. sem gjafafé til þessarar vegagerðar, sem hér á að greiða atkv. um, ef á móti kæmi veruleg upphæð frá ríkissjóði. Þá lágu einnig fyrir upplýsingar um það, að þessi vegagerð mundi kosta 3½ millj. kr., að tengja þessa tvo vegi saman frá Trostansfirði og upp á heiðina, og enn fremur aðrar 3½ millj. kr. til þess að gera veginn færan frá Bíldudal og að Trostansfirði ásamt kostnaði við brúargerðir. Það lágu engar tillögur þá frá flm. um að færa til það fé, sem ákveðið var í aðra vegi í sýslunni, og fullt samkomulag um, hvernig því fé skyldi varið, og um leið samkomulag um að bera ekki fram neinar brtt. í sambandi við skiptingu á vegafé. Þess vegna lít ég á þessar tillögur sem hreinar yfirboðstillögur, án nokkurrar ábyrgðar aðila, og segi nei.