08.02.1962
Neðri deild: 43. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 525 í B-deild Alþingistíðinda. (398)

138. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis

Forsrh. (Ólafur Thors):

Hæstv. forseti. Eins og allir hv. þm. vita, er svo fyrir mælt í stjórnarskrá landsins, að reglulegt þing skuli koma saman hvert ár fyrir 15. febr., nema annað sé ákveðið með lögum. Það er öruggt mál, að því þingi, sem nú stendur yfir, verður ekki lokið fyrir þennan tíma, og er því lagt til með þessu frv., sem hér er til umræðu, að þing skuli koma saman í haust eigi síðar en 10. okt., nema forseti Íslands ákveði annan fyrri samkomudag Alþingis. Þetta er gamall kunningi hér á Alþingi. Ég hygg, að enginn beri fram ósk um, að frv. verði vísað til nefndar, og tel raunar beztu málsmeðferð vera þá, að það verði afgreitt frá hv. deild nú með þremur fundum, og að nýr fundur hefjist þá þegar að lokinni þessari umræðu.