16.11.1961
Efri deild: 17. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 79 í B-deild Alþingistíðinda. (42)

74. mál, lækkun aðflutningsgjalda

Alfreð Gíslason læknir:

Herra forseti. Hv. 6. þm. Norðurl. e. sagði hér nokkur orð og mælti gegn þeirri till., sem ég var nú að bera fram. Mér heyrðist hann bregða upp gamalli plötu, sem oft heyrist hjá Sjálfstæðisflokksmönnum, þar sem þeir reyna að setja upp samvinnuhreyfinguna gegn kaupmannasamtökunum. Nú skal ég ekkert fara út í það, hvort ég treysti betur samvinnufélögunum eða kaupmannasamtökunum. Það þarf ekki að vera til umr. hér. Hér er aðeins það til umr., hvaða vald í þessu efni Alþingi vilji veita þessum aðilum. Og ég er þeirrar skoðunar, að vegna mikilvægis þeirra nauðsynjavara fyrir almenning, sem ég ræddi hér um, eigi Alþ. ekki að sleppa valdinu frá sér í þessu efni. Að öðru leyti kom fram hjá þessum hv. þm. skoðun Sjálfstæðisflokksmanna á verðlagsákvæðum og ákvörðun um hámarksálagningu. Í því er ekki neitt nýtt. En ég vil aðeins benda hv. þm. á, að hér í þessari hv. þingdeild eru Sjálfstæðisflokksmenn e.t.v. þeir einu um þessa skoðun. Ég veit ekki betur a.m.k. en Alþfl. sé enn þá inni á því, að verðlagseftirlit og ákvörðun um álagningu sé til hagsbóta neytendunum í landinu. Þrátt fyrir allt er mér ekki kunnugt um, að Alþfl. hafi gengið af þessari trú sinni.