16.11.1961
Efri deild: 17. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 79 í B-deild Alþingistíðinda. (45)

74. mál, lækkun aðflutningsgjalda

Ásgeir Bjarnason:

Ég tel það vera brot á þingsköpum og öllum venjulegum reglum, þegar um svona mikið stórmál er að ræða, að hraða því svo mjög og gefa þingmönnum ekki kost á að athuga málin eins og nauðsynlegt er. Hér er um löggjöf að ræða, sem færir ríkissjóði hundruð millj. kr. tekjur árlega. Og þegar það er vitað, að sú tollalækkun, sem á sér stað samkv. frv. þessu, mun nema eitthvað í kringum 40 millj. kr. eða í kringum 260 kr. á hvert mannsbarn í landinu, þá fæ ég ekki séð, að hér sé um svo þýðingarmikinn þátt að ræða, sem hér er tekinn út úr, að það megi ekki íhuga málið frekar og færa fram óskir til leiðréttingar á tollalöggjöfinni, því að við vitum það, að margt má þar til betri vegar færa. Ég viðurkenni, að hér sé um nokkra leiðréttingu að ræða, en miklu minni en þeir, sem að frv. standa, vilja vera láta.

Ég vil játa, að ég varð fyrir mjög miklum vonbrigðum áðan, þegar hv. 10. landsk. (BGuðm), sem hafði lýst því hér við 1. umr., að nauðsyn bæri til að lækka toll á heimilisdráttarvélum og ýmsum tækjum til landbúnaðarins, brást, þegar honum gafst sannarlega kostur á því að fá óskir sínar uppfylltar með eigin atkv. Ég hefði gjarnan viljað færa fram aðrar óskir í sambandi við landbúnaðarmálin, og af þeim ástæðum óskaði ég eftir því, að umr. yrði frestað til morguns. En nú gefst þess ekki kostur, og ég lýsi megnustu ótrú á svona vinnubrögðum.