08.02.1962
Efri deild: 43. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 537 í B-deild Alþingistíðinda. (451)

36. mál, sveitarstjórnarkosningar

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls hér í deildinni beindi ég þeim tilmælum til allshn., sem fjallar um þetta mál, að athuga eitt efnisatriði frv. Nefndin hefur orðið við þessu, eins og frsm. lýsti, og flytur brtt., þar sem þessu atriði eru gerð fullnægjandi skil. En ég vil leyfa mér við þessa umr. að vekja athygli á öðru efnisatriði frv., sem stendur í nokkru sambandi við það, sem brtt. nefndarinnar fjallar um.

Samkv. sveitarstjórnarlögunum, sem samþykkt voru í fyrra, er heimilt að viðhafa framboð við kjör til sýslunefndar, og í 13. gr. þessa frv. er beinlínis fjallað um framkvæmd þeirra kosninga, þegar framboð til sýslunefnda er viðhaft. í 13. gr. þessa frv. segir:

„Nú eru framboð viðhöfð við kosningu sýslunefndarmanna, og skal þá kjörseðill þannig gerður, að prenta skal nöfn frambjóðenda og heimilisföng í stafrófsröð hvert niður af öðru á kjörseðilinn. Kosning fer fram með þeim hætti, að kjósandinn setur kross með ritblýi framan við nafn þess frambjóðanda, er hann vill kjósa.“

Og í athugasemdum frv. við þessa gr. er þetta mjög greinilega skýrt, því að þar segir: „Lagt er til, að kjörseðill og kosning við kjör sýslunefndarmanna, þegar um framboð er að ræða til sýslunefndar, verði með sama hætti og var við kjör alþingismanna í einmenningskjördæmum.“

Í fljótu bragði virðist þessi regla, sem sett er með þessum ákvæðum, vera mjög einföld og greinileg. En þess ber að gæta, að þegar kosnir voru alþm. í einmenningskjördæmum, eins og miðað er við, þá voru aldrei kosnir varamenn, stjórnarskráin heimilaði það ekki. Á hinn bóginn er skylt skv. sveitarstjórnarlögunum, sem sett voru í fyrra, að kjósa varamenn sýslunefndarmanna. Þegar þetta er borið saman, er auðsætt, að á þessu er meginmunur. Og mér sýnist, að sú kosningaraðferð, sem áður tíðkaðist í einmenningskjördæmum við alþingiskosningar, geti ekki hentað, þegar framboð er viðhaft við kjör sýslunefndarmanna, vegna þess að það eru grundvallarreglur, að þegar framboð er viðhaft, þá snýst kosningin um þá, sem í framboði eru, en ekki um hvern þann, sem annars gæti verið kjörgengur, og jafnframt er það grundvallarregla, að sá flokkur, sem fær aðalmann, á einnig rétt á því að hljóta varamannssæti. Með því að nöfnin séu í stafrófsröð og kjósandinn merki við nafn þess manns, sem skráð er á seðilinn, verður þessi grundvallarregla engan veginn tryggð.

Mér sýnist þess vegna, að hér þurfi að breyta þannig til, að kjörseðill við sýslunefndarkjör, þegar framboð er viðhaft, verði sniðinn eins og kjörseðlar voru við alþingiskosningar í tvímenningskjördæmum, þannig að kjósandi merki við listabókstaf þess flokks eða þess bandalags við kosningarnar, sem hann vill styðja, og þá liggur það alveg ljóst fyrir, að sá listi, sem hlýtur flest atkv., fær aðalsýslunefndarmanninn kjörinn og annar maðurinn á þeim lista verður jafnframt varamaður.

Ég hefði ekki á móti því, að þetta frv. gengi til 3. umr. En ég vek athygli á þessu og vænti þess, að nefndin taki þetta atriði enn að nýju til athugunar á milli umræðna.

Þá vil ég að lokum aðeins benda á, þó að það sé smávægilegt, að mér virðist á einum stað vera lítils háttar prentvilla í frv., sem skemmtilegra er að leiðrétta, áður en það fer úr þessari deild. Það er í 17. gr., 2. málsl., sem á að standa óbreyttur skv. brtt. nefndarinnar, þar er vitnað í lög nr. 36, en það mun eiga að vera númer 81. það er á mörgum öðrum stöðum vitnað til þeirra laga í athugasemdunum, svo að hér er um augljósa prentvillu að ræða.