14.12.1961
Efri deild: 33. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 542 í B-deild Alþingistíðinda. (467)

95. mál, erfðalög

Frsm. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Þetta frv. felur í sér allmiklar efnisbreytingar frá núgildandi erfðalögum, nr. 42 frá 1949. Stærstu breytingarnar má segja að séu í fyrsta lagi, að eiðsbörn eru eftir þessu frv. gerð arfgeng með sama hætti og önnur feðruð börn og þar með sett á bekk með eiðfallsbörnum svokölluðum. Í öðru lagi, að kjörbörn skulu samkv. þessu frv. að öllu leyti, að því er erfðarétt varðar, sett á bekk með náttúrlegum börnum, en erfðatengsl á milli kjörbarna og kynforeldra að öllu leyti rofin. Í þriðja lagi, að það eru samkv. þessu frv. felld niður þau takmörk, sem hafa verið á erfðarétti ættleggs frá foreldrum. Í fjórða lagi felst svo í þessu frv. rýmkun á erfðarétti maka. Og í fimmta lagi felst í þessu frv. rýmkun á ráðstöfunarrétti arfleifanda. Þetta eru langstærstu breytingarnar, sem felast í þessu frv. frá gildandi erfðalögum, og það má að vísu segja, að þær breytingar séu að mörgu leyti mjög gagngerar. Það er álit allshn., að þessar breytingar stefni yfirleitt í rétta átt og séu þar af leiðandi til bóta, enda þótt í sumum tilfellum sé þar um mjög mikið álitamál að ræða. Þess vegna mælir allshn. með því, að frv. verði samþykkt óbreytt. Nefndin hefur ekki lagt í að gera tillögur um breytingar á orðalagi, þótt sumum kynni að þykja betur fara á öðru orðalagi á stöku stað, en þar er um svo mikið smekksatriði að ræða, að vafasamt er að gera brtt. því viðvíkjandi, enda er þetta frv. samið af hinum færustu mönnum á þessu sviði, þeim hæstaréttardómara Þórði Eyjólfssyni og próf. Ármanni Snævarr.

Fyrir helztu efnisbreytingum þessa frv. var gerð grein í framsöguræðu hæstv. dómsmrh. En vegna þess, hve hér er um mikilvægt mál að ræða, tel ég þó rétt að rifja það upp með fáum orðum, í hverju aðalefnisbreytingarnar frá núgildandi erfðalöggjöf eru fólgnar, þannig að það gæti orðið betra fyrir þá hv. þdm. að setja sig inn í þetta, sem e.t.v. hafa ekki haft tækifæri til þess, þar sem hér er um allmikinn lagabálk að ræða.

Eins og þegar hefur verið sagt, lýtur fyrsta stórbreytingin að erfðarétti svonefndra eiðsbarna, þ.e.a.s. óskilgetinna barna, sem feðruð eru með þeim hætti, að móðir vinnur eið eða drengskaparheit að faðerni þeirra í barnsfaðernismáli. Samkvæmt 2. gr. núgildandi erfðalaga erfir óskilgetið barn því aðeins föður og föðurfrændur og þeir það, að hann hafi gengizt við faðerni þess, hann hafi verið dæmdur faðir þess eða talinn faðir barns, ef honum hefur orðið eiðsfall samkvæmt dómi, þ.e.a.s. að eftir þessu erfa ekki svokölluð eiðsbörn föður og föðurfrændur né þeir það. En í frv. er að þessu leyti til sett gagnstæð regla, því að í 1. tölulið 1. gr. frv. er lagt til, að óskilgetið barn erfi föður og föðurfrændur og þeir það, ef það er feðrað með þeim hætti, er segir í löggjöf um óskilgetin börn. Svo sem þeirri löggjöf er háttað nú hér á landi, þá teljast eiðsbörn vera feðruð. Samkv. frv. eiga því eiðsbörn að vera arfgeng með sama hætti og önnur feðruð börn. Fyllingareiður móður í barnsfaðernismáli er að sönnu ekki traust sönnunargagn, en þó er þess að gæta, að hún fær því aðeins heimild til eiðvinningar, að hún hafi líkur með sér. Og auðvitað má líka orða það, að sönnunin sé ekki heldur traust, þegar lýstum barnsföður verður eiðsfall. Og þess má geta, að á Norðurlöndunum mun nú vera horfið frá því að láta faðerni barns velta á fyllingareiði móður eða synjunareiði lýsts barnsföður. Það þykir ekki vera um slíkt sönnunargagn að ræða, að á sé byggjandi. En íslenzk lög byggja hins vegar enn á eiðnum sem úrslitagagni í barnsfaðernismálum, og á meðan svo er, sýnist varla ástæða til þess að gera upp á milli eiðsbarna og eiðfallsbarna um erfðarétt, eins og gert er í núgildandi lögum.

Önnur meginbreyt. frv. á gildandi erfðalögum lýtur að erfðarétti kjörbarna. í 18. gr. núgildandi erfðalaga er mælt fyrir um erfðatengsl kjörbarna við kjörforeldra annars vegar og kynforeldra og kynfrændur hins vegar. Samkv. þeim fyrirmælum núgildandi l. erfir kjörbarn og niðjar þess kjörforeldra sem það væri getið og fætt barn þeirra, eins og þar stendur. En erfðaréttur kjörforeldra eftir kjörbarn er allmiklum takmörkunum háður. Þrátt fyrir ættleiðsluna helzt svo erfðaréttur milli kjörbarns og niðja þess annars vegar og kynforeldra þess og kynfrænda hins vegar. Þessari skipan er sem sagt breytt í frv. Í 5. gr. þessa frv. er lagt til, að fullkomin erfðatengsl verði á milli kjörbarns og niðja þess annars vegar og kjörforeldra og ættingja þeirra hins vegar, eins og um eigið barn kjörforeldra væri að ræða, en aftur á móti falla niður að öllu leyti við ættleiðinguna lögerfðatengsl milli kjörbarna og kynforeldra þeirra og annarra ættingja.

Því er ekki að neita, að hér er um mikið álitamál og vandamál að ræða. Það hafa um þetta efni verið miklar umræður á Norðurlöndum að undanförnu, hvernig skipa skuli erfðarétti kjörbarna. Það má segja, að yfirleitt muni skoðanir hafa hnigið í þá átt að veita kjörbörnum ríkari eða víðtækari erfðarétt en áður var. Það má í stuttu máli segja, að það hafi komið fram tvenns konar skoðanir um þetta efni. Önnur á rætur að rekja til norskra laga, sem þar hafa verið gerð um breytingu á lögum um ættleiðslu, en samkv. þeim lögum getur ættleiðslan verið með tvennum hætti: annars vegar ættleiðsla, þar sem erfðatengsl haldast á milli kjörbarns og kynforeldra þess og annarra ættmanna, og hins vegar ættleiðsla, þar sem þessi erfðatengsl rofna algerlega, og taka þá kjörbörn arf eftir ættingja kjörforeldra, eins og þau væru eigin börn kjörforeldranna. Ein skoðunin er sú, að það sé óheppilegt að láta ættleiðslu hafa tvenns konar eða geta haft tvenns konar réttaráhrif um erfðarétt og réttara sé að fella algerlega niður erfðasambandið milli kjörbarns og kynforeldra þess og annarra ættingja, en veita barninu þess í stað fullkominn erfðarétt eftir kjörforeldra og ættingja þeirra og svo gagnkvæmt.

Þar sem þetta tvenns konar skipulag hefur verið heimilt, eins og í Noregi, þar sem sem sagt hefur verið um þessar tvær leiðir að velja, þá hefur reynslan orðið sú, að kjörbarni hefur langoftast verið veitt réttarstaða kynbarns að öllu leyti og erfðatengsl við kynforeldra og önnur ættmenni þá rofin.

Niðurstaðan hjá þeim norrænu erfðalaganefndum, sem sömdu frv. að erfðalögunum, varð sú að skipa málum þessum á þann veg, sem gert er í þessu frv.

Þriðja stórbreytingin samkv. þessu frv. lýtur svo að því að fella niður þau takmörk á erfð í öðrum erfðaflokki, sem eru eftir gildandi lögum. En samkv. 4. gr. núgildandi erfðalaga taka foreldrar arfleifanda, börn þeirra og barnabörn arf, en ekki aðrir fjarlægari niðjar foreldra. Þar er því staðnæmzt við systkinabarn arfleifanda. í 3. gr. þessa frv. er lagt til, að þessi takmörkun eða stýfing á ættlegg frá foreldrum arfleifanda sé felld niður og gangi sá ættleggur allur til arfs, eins og var, áður en erfðalögin núgildandi, nr. 42 frá 1949, tóku gildi. Og það má geta þess, að á Norðurlöndunum munu ekki vera dæmi til þess, að það sé gengið jafnlangt og hér hefur verið gert í því að stýfa lögerfðirnar að þessu leyti til. En ástæðan til þess, að þetta var tekið upp á sinni tíð, mun hafa verið sú, að það var talið, að arfurinn dreifðist óeðlilega mikið með því að hafa þessa reglu, að láta þetta haldast óbreytt.

Fjórða meginbreytingin er svo um rýmkun á erfðarétti maka, en hann er rýmkaður með tvennum hætti. Samkv. 2. gr. frv. á erfðahluti maka, þegar niðjar hins látna eru á lífi, að vera 1/3 í stað ¼ hluta, eins og nú er. Í annan stað er svo fyrir mælt í frv., að í stað þess að maki taki aðeins helming arfs, þegar skipt er arfi með honum og útörfum hins látna, þá taki hann 2/3 hluta arfs, ef foreldri hins látna er á lífi, en ef það er ekki á lífi, þá allan arf. Í þessari reglu felst það nýmæli, að systkin og aðrir fjarskyldari ættingjar arfleifanda taka engan arf, ef maki hins látna er á lífi. Það eru færðar ýmsar ástæður fram fyrir þessari breytingu, m.a. þær, að þegar svona stendur á, þá sé oft erfitt um skipti, þau geti valdið óheppilegri og óeðlilegri truflun á atvinnurekstri hins eftirlifandi maka og þetta þess vegna talin eðlileg regla. Norrænu erfðalaganefndirnar, að íslenzka fulltrúanum undanskildum, vildu ganga enn lengra í þessu efni, af því samkvæmt þeirri tillögu var það svo, að maki skyldi taka allan arfinn, þegar engir niðjar væru á lífi, þ.e.a.s. það átti samkv. þeim tillögum líka að útiloka foreldra. En í þessu frv. er ekki fallizt á það sjónarmið, og hefur það ekki þótt sanngjarnt gagnvart foreldrum að útiloka þau alveg, enda eru íslenzk lög að öðru leyti um samband barns og foreldris öðruvísi en norræn lög, Norðurlandalög, m.a. að því leyti, að samkv. íslenzkum lögum hvílir nú framfærsluskylda á börnum gagnvart foreldrum án tillits til aldurs. En svo mun nú ekki vera á hinum Norðurlöndunum.

Fimmta meginbreytingin varðar heimild arfleifanda til þess að ráðstafa eignum sínum með arfleiðsluskrá, þegar skylduerfingjar, annaðhvort niðjar eða maki, eru á lífi. Samkv. núgildandi erfðalögum er honum, þegar þannig stendur á, heimilt að ráðstafa fjórðungi eigna sinna, ef niðjar eru á lífi, en helmingi, ef maki er á lífi, en niðja nýtur ekki. Í þessu frv. er hins vegar ákveðið, að arfleifandi geti ráðstafað með erfðaskrá einum þriðja eigna sinna frá niðjum og maka. Þar af leiðir, að ráðstöfunarheimildin er þannig rýmkuð gagnvart niðjum, en þrengd gagnvart maka, og er sú regla í samræmi við þá heildarstefnu, sem er í þessu frv., að gera hlut maka í erfðaréttarlegu tilliti betri en nú er. Ráðstöfunarheimildin gagnvart niðjum er hins vegar að núgildandi lögum þrengri hér en á hinum Norðurlöndunum.

Auk þessara meginbreytinga, sem eru óneitanlega mjög víðtækar breytingar, eins og ég hef drepið á, víðtækar breytingar á erfðalöggjöfinni, þá felur þetta frv. í sér margar aðrar breytingar, margar smærri breytingar. Það yrði of langt mál að ræða þær hér eða fara út í þær hér, en að dómi allshn. manna eru þær yfirleitt til bóta, og því er mælt með frv. óbreyttu, eins og áður hefur verið sagt og nál. ber með sér, en þó svo, að nm. hafa óbundnar hendur, bæði að því er tekur til flutnings á brtt. og eins til að fylgja brtt., sem fram kunna að koma.

Ég vil geta þess, að eftir að gengið hafði verið frá nál., bárust tillögur eða athugasemdir frá nefnd í Kvenréttindafélagi Íslands, sem hefur haft þetta mál til athugunar. Þær athugasemdir lúta sérstaklega að þeim kafla þessa frv., sem fjallar um setu í óskiptu búi. En það er raunar nýtt, að upp í þetta frv. og þar með upp í erfðalög eru tekin ákvæði um setu í óskiptu búi, en þau ákvæði hafa til þessa verið í öðrum lögum, lögum um réttindi og skyldur hjóna. Má sjálfsagt um það deila, á hvorum staðnum ákvæðin eigi betur heima, en það hefur verið horfið að því í þessu frv. að taka þessi ákvæði upp í frv. Það hefur ekki unnizt tími til að athuga þessar tillögur frá þessari nefnd Kvenréttindafélagsins, en ég geri ráð fyrir því, að allshn. muni taka þær til athugunar fyrir 3. umr. og þá gera grein fyrir því við 3. umr., ef hún telur ástæðu til þess að taka þær upp eða breyta frv. að einhverju leyti vegna þeirra ábendinga, sem þar koma fram. Það leikur ekki á tveim tungum, að erfðalöggjöf er þýðingarmikil, og liggja til þess margar ástæður, sem ég ætla ekki að fara að rekja hér. Ég verð að segja, að það er að mínum dómi óheppilegt að vera að hringla með slíka löggjöf fram og til baka á fárra ára fresti. Okkar gildandi erfðalög eru ekki gömul, aðeins frá 1949. Þess er að vænta, ef frv. þetta verður lögfest, að þá sé þar tjaldað lengur en til einnar nætur, og allar líkur eru til þess, að svo verði, því að ég tel, að hér sé um vandaða lagasmíð að ræða.