14.12.1961
Efri deild: 33. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 546 í B-deild Alþingistíðinda. (468)

95. mál, erfðalög

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Ég er hv. frsm. sammála um það, að með frv. þessu eru ýmis ákvæði erfðalaganna miklu skýrari en á sér stað með núgildandi löggjöf. Tel ég það mjög vel farið, að svo sé, því að venjulega vill það fyrir koma, þegar á að fara að starfa eftir löggjöfinni, að ýmis ákvæði virðast þá vera óljós. Vildi ég aðeins drepa hér á nokkur atriði, sem ég tel að þrátt fyrir hina ágætu endurskoðun á þessum lögum séu enn þá ekki nógu skýr. Ef þar er um misskilning að ræða hjá mér á hlutaðeigandi atriðum, vænti ég þess, að hæstv. dómsmrh. eða hv. frsm., hv. 3. þm. Norðurl. v., leiðrétti þann misskilning.

Það stendur í 9. gr. frv., í II. kafla, þar sem rætt er um óskipt bú, með leyfi forseta:

„Að öðru leyti kannar skiptaráðandi ástæður og má skipa ófjárráða erfingjum lögráðamann til að gæta hagsmuna þeirra út af umsókn um setu í óskiptu búi.“

Mér finnst, að það sé ekki nógu skýrt á kveðið um þennan lögráðamann. En valdsvið hans kann undir mörgum kringumstæðum að vera nokkuð mikið, og það getur líka verið margvíslegt. Og mér finnst því eðlilegt, að skipun lögráðamanns brjóti ekki í bága við þá, sem hlut eiga að máli, maka og hlutaðeigandi erfingja. Ég tel það höfuðmáli skipta, að skipun þessa manns sé gerð að vilja þeirra aðila, en ekki gagnstætt. Maður gæti hugsað sér hvort tveggja. Þess vegna finnst mér, að það verði að kveða á um það í löggjöfinni, að hann sé skipaður í samráði við hlutaðeigandi aðila. Og afskipti þessa manns skilst mér að eigi fyrst og fremst að vera þau, þegar dæma skal um það, hvort leyfi má veita fyrir setu í óskiptu búi, að lýsa fjárhag og þeim aðstæðum, sem þar eru til staðar. Í öðru lagi, eftir að skipti hafa farið fram, geri ég ráð fyrir, að hinn sami aðili mæti þar fyrir hönd ófjárráða erfingja, þó að ekki sé það fram tekið í lögunum. En það mun hafa tíðkazt, að svo hafi verið. Og í þriðja lagi, eftir að skipti hafa farið fram og hlutaðeigandi arfshluti ófjárráða erfingja verið greiddur út, þarf þá lögráðamaður að hafa nokkur frekari afskipti af hlutaðeigandi ófjárráða erfingjum? Þegar búið er að greiða arfinn og skipti hafa farið fram og arfshlutinn er að fullu greiddur, er hans verksviði þá ekki lokið? Ef svo er ekki og lögráðamaðurinn deyr, áður en börnin eru orðin fjárráða, ber þá hlutaðeigandi skiptaráðanda að skipa annan lögráðamann í staðinn eða ekki?

Að gefnu tilefni hefði ég viljað fá bessum spurningum svarað við þessa umr. Og ég vil enn fremur, að það sé kveðið skýrar á í lögunum um valdsvið þessa manns en fram er tekið á þessum eina stað í 9. gr. Það má vera, að mér hafi sézt yfir þessa hluti, en ef svo er, býst ég við, að það leiðréttist í þessum umræðum.

Þá vildi ég enn fremur spyrja um, hvort það sé réttur skilningur laganna samkv. 41. gr. þessa frv., þar sem rætt er um erfðaskrár, ef hlutaðeigandi aðili, sem gerir erfðaskrá og tekur þar fram, að hann feli sérstökum aðila að annast skipti á dánarbúi sínu, er þá valdsvið fógeta og sýslumanns algerlega burt fallið, um leið og hlutaðeigandi aðili hefur falið öðrum samkvæmt erfðaskrá að fara með skiptin? Og ég geng þá út frá því, að erfðaskráin hafi að öllu leyti verið í lagi. Ef svo er, að þetta ákvæði laganna sé á þann veg, sem ég hef skilið það, þá getur hver einasti aðili, sem vill, ráðstafað sínum eigum, án þess að fógeti eða sýslumaður komi þar nokkuð við sögu. (Gripið fram í: Hvaða grein er þetta?) Þetta er 41. gr. frv. þar ræðir, í miðhluta gr., með leyfi forseta:

„Nú er manni falið í erfðaskrá að standa fyrir skiptum á búi arfleifanda, og getur hann allt að einu vottað arfleiðslu“.

Ég sé ekki, að annars staðar í þessu frv. sé getið um skiptaráðanda. En mér finnst, að þegar skiptaráðanda er falið jafnmikið vald og virðist vera gert þarna, þá þurfi að kveða nokkuð fastar á um hans hlutverk eða þá hitt að taka fram, að hans valdsvið sé í þessum efnum jafnt og hann væri fógeti eða sýslumaður. Þetta tel ég vera mjög þýðingarmikið ákvæði þessara laga og vil því nú undir þessum umr, hreyfa þessu máli og fá úr því skorið, hvort þetta sé á þann veg, sem ég hef skilið það, eða á einhvern annan hátt.

Þá er enn eitt í sambandi við þetta frv., sem ég sé ekki að neins staðar sé fram tekið og vera kann að það sé óþarfi, en þó hygg ég undir sumum kringumstæðum, að það sé ekki. Og það er þegar þannig stendur á, að erfingjar, löglegir erfingjar og ekkert um það deilt, að þeir eru allir löglegir, séu víðs vegar í heiminum, — Þeir geta verið hér á landi og þeir geta verið í Ástralíu, Ameríku og annars staðar og ekki hafi til þeirra náðst, þegar skipti fara fram, — hver er þá rétta aðferðin við skipti hlutaðeigandi dánarbús? Er það það, að skiptaráðandi í samráði við erfingja skipi umboðsmann til að mæta við skiptin fyrir hlutaðeigandi fjarstaddan aðila, ef ekki hefur náðst í hann, þannig að hann hafi ekki getað sjálfur skipað umboðsmann fyrir sína hönd? Þetta er ákaflega þýðingarmikið atriði, þegar ganga skal löglega frá arfaskiptum, ef þau skipti eiga síðar meir á engan hátt að stangast á við löggjöfina. Mér finnst, að um þetta þurfi að vera nokkuð í lögum, og ég hef hvergi getað séð neitt um það hér. En vera má, að þess sé ekki þörf, vegna þess að það séu annars staðar einhver ákvæði í þessum efnum, og vildi ég þá fá það upplýst.