16.11.1961
Efri deild: 17. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 81 í B-deild Alþingistíðinda. (48)

74. mál, lækkun aðflutningsgjalda

Frsm. meiri hl. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umræður, en með tilliti til þeirrar brtt., sem hér liggur fyrir, — og þessar umræður um málið hafa nokkuð dregizt á langinn, — þá sé ég ástæðu til þess að svara nú með örfáum orðum fsp., sem beint var til mín sérstaklega af hv. 5. þm. Norðurl. e. (BjörnJ) við 2. umr. málsins. Ég svaraði henni ekki þá, vegna þess að ég taldi það atriði ekki svo mikilvægt, að ég vildi koma í veg fyrir, að umræðunni yrði lokið fyrir venjulegan fundartíma, með því að kveðja mér hljóðs. En af því að þau atriði, er sérstaklega fólust í þeirri fsp., hefur nú borið á góma, nefnilega verðlagsmálin, þá tel ég rétt að svara fsp. með örfáum orðum. Hún var á þá leið, hvort það væri skoðun mín, að verðlagsyfirvöldin mundu framlengja heimild til afnáms verðlagsákvæða á nokkrum vörutegundum eftir 1. sept. 1962. Svarið er í stuttu máli það, að auðvitað mundi það fara eftir mati verðlagsyfirvaldanna á því, hvort sú heimild, sem hér er um að ræða, hafi verið misnotuð eða ekki, og ég veit, að þeir, sem verzla með þessar vörur, hvort sem það eru kaupmenn eða kaupfélög, gera sér það fyllilega ljóst, að undir því verður það komið, hvort afnám verðlagsákvæðanna verður framlengt eða ekki. Og ég tel, að í þessu felist það aðhald fyrir þessa aðila, að það sé með öllu óþarft að samþ. þá brtt., sem hér liggur fyrir, og aðrar brtt., sem þegar hafa verið hér fram bornar og ganga í sömu átt.

Í öðru lagi vil ég á það benda, — er það ekki rétt með farið hjá mér, að það sé 46. kafli til 52. kafla, sem brtt, nær til? (Gripið fram í: 50.–55., að báðum meðtöldum.) Já, 50.–55. kafli, að báðum meðtöldum, þ.e. aðallega tilbúinn fatnaður. Nokkuð af þeim vörum, sem undir þetta falla, eru hráefni til fatnaðarframleiðslu, svo að með tilliti til þess yrðu verðlagsákvæði að vera víðtækari en fælist í slíkri samþykkt, þannig að þau yrðu þá einnig að ná til innlendrar framleiðslu úr þeim efnum, sem hér er um að ræða.

Annars vil ég gjarnan undirstrika það, sem ég benti á í framsöguræðu minni við 2. umr. og hefur nú einnig komið fram m.a. í ræðu hv. 6. þm. Norðurl. e. (MJ), að það felst ekki í þessari till. sérstakt traust til kaupfélaganna og samvinnuhreyfingarinnar í landinu, en vitað er, að þau verzla í mjög stórum stíl með þær vörur, sem hér er um að ræða, svo að sú vernd, sem samvinnuhreyfingin á að veita neytendunum, væri þá lítils virði, ef sérstök ástæða væri til slíkrar samþykktar, ekki sízt með tilliti til þess, að innflutningur þeirra vörutegunda, sem hér er um að ræða, mun yfirleitt vera frjáls.