08.02.1962
Neðri deild: 45. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 552 í B-deild Alþingistíðinda. (480)

95. mál, erfðalög

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Hæstv. forseti. Frv. það til erfðalaga, sem hér kemur til umræðu, var lagt fyrir hv. Ed. í fyrra og var þá ekki útrætt þar og var lagt fyrir deildina aftur nú í haust, efnislega óbreytt, með smávægilegum formlegum breytingum. Frv. þetta er samið af háskólarektor Ármanni Snævarr og hæstaréttardómara dr. Þórði Eyjólfssyni og er mjög svipað frv. um erfðalög, sem undirbúin hafa verið af norrænum lögfræðingum, er unnið hafa að því að fá sem líkasta norræna löggjöf um þetta efni.

Að þessu hefur nú verið unnið nokkuð lengi með þeim árangri, að í öllum verulegum atriðum hefur tekizt að koma á svipuðum heildarreglum eða tillögum um réttarreglur. En þó eru nokkrir misbrestir þar á, þannig að löggjöfin verður ekki að öllu leyti eins í öllum löndunum fimm, þó að frv. nái fram að ganga, en það er sem sagt í atriðum, sem telja verður minni háttar, og verulega hefur áunnizt í samræmingu, þrátt fyrir það þó að ekki verði að öllu leyti um samhljóða löggjöf að ræða.

Ég skal mjög stuttlega gera grein fyrir þeim meginbreytingum frá núverandi löggjöf, sem felast í þessu frv.

Það er þá í fyrsta lagi, að reynt er í frv. að gera erfðalöggjöfina heillegri en verið hefur, þannig að í þessu erfðalagafrv. eru saman komin flest ákvæði, er varða erfðir, eða mun fleiri en hafa verið í fyrri erfðalögum okkar.

Efnisbreytingarnar eru hins vegar í fyrsta lagi þær, að samkv. gildandi lögum erfa þau börn, ef faðerni þeirra er sannað með eiði eða drengskaparheiti móður, ekki föður né föðurfrændur. Í þessu frv. er lagt til, að um erfðatengsl slíkra barna við föður og föðurfrændur fari sem um önnur feðruð börn. Úr því að þessi háttur er viðurkenndur sem sönnun fyrir faðerni, virðist það eitt vera eðlilegt, að um erfðaréttinn fari að öllu leyti eins og um erfðarétt annarra barna. Annars er í raun og veru verið að draga í efa, að sönnunin sé fullgild. En ráðið við því er ekki að gera börnin réttarminni, heldur að viðurkenna ekki þennan sönnunarhátt, og hann er sums staðar ekki viðurkenndur. En hjá okkur hefur hann verið lengi í gildi og engar tillögur um að fella hann niður, og þykir því eðlilegt, að þessi breyting á erfðaréttinum verði gerð.

Þá er ætlazt til þess, að kjörbarn fái sams konar erfðarétt til kjörforeldris og um eiginlegt barn væri að ræða og erfðaréttur milli kjörbarns og kynforeldris þess og ættingja falli alveg niður.

Þá er ráðgert, að sú takmörkun á erfðarétti afkomenda foreldra arfleifanda, sem lögleidd var hér 1949, verði nú felld niður. Sú takmörkun hefur leitt til ósamræmis og þekkist ekki annars staðar á Norðurlöndum.

Enn fremur er boðið, að erfðaréttur þess hjóna, sem lengur lifir eftir látinn maka, verði rýmkaður með tvennum hætti. Í fyrsta lagi er lagt til, að erfðahluti maka, þegar niðjar hins látna eru á lífi, verði 1/3 hluti eigna í stað ¼ hluta, eins og hingað til hefur verið. Í öðru lagi er ætlazt til, að í stað þess að maki taki aðeins helming arfs, er skipt er arfi með honum og útörfum hins látna, þá taki hann 2/3 hluta arfs, ef foreldri hins látna er á lífi, en ella allan arf.

Loksins er breytt heimild arfleifanda til að ráðstafa eignum sínum með erfðaskrá, þegar skylduerfingjar, niðjar eða maki, eru á lífi. Samkvæmt gildandi erfðalögum er honum heimilt að ráðstafa ¼ hluta eigna sinna, ef niðjar lifa, en helmingi eignanna, ef niðja nýtur ekki, en maki er á lífi. Í frv. er ákveðið, að arfleifandi geti ráðstafað með erfðaskrá 1/3 eigna sinna frá niðjum og maka, og er ráðstöfunarheimildin þannig rýmkuð gagnvart niðjum, en þrengd gagnvart maka.

Þetta eru aðalefnisbreytingarnar í frv., auk þess sem ýmsar breytingar varðandi setu í óskiptu búi og varðandi formshlið er að finna í þessu frv. og gerð grein fyrir þeim í aths. við einstakar greinar frv. Sé ég ekki ástæðu til að rekja þær.

Náskylt þessu frv. er frv. til laga um breyt. á lögum um skipti á dánarbúum og félagsbúum o.fl., frv. til l. um breyt. á l. um réttindi og skyldur hjóna og frv. til l. um breyt. á l. um ættaróðal og erfðaábúð. Þessi frv. eru öll í samhengi, og má segja, að reglur þeirra þriggja síðasttöldu leiði af sjálfu frv. um ný erfðalög. Sé ég þess vegna ekki ástæðu til þess að fjölyrða um þau sérstaklega.

Ég leyfi mér að leggja til, að þessu frv. og hinum þremur frv., að lokinni umr. um þau, verði öllum vísað til 2. umr. og til hv. allshn.