13.02.1962
Neðri deild: 48. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 553 í B-deild Alþingistíðinda. (482)

95. mál, erfðalög

Frsm. (Jón Pálmason):

Hæstv. forseti. Þetta frv. til nýrra erfðalaga, sem hér liggur fyrir, er stjórnarfrv. og samið af tveimur mönnum, sem til þess voru valdir, þeim Ármanni Snævarr háskólarektor og Þórði Eyjólfssyni hæstaréttardómara. Þetta frv. hefur gengið í gegnum hv. Ed. ágreiningslaust, og í hv. allshn. þessarar deildar var samþ. að mæla með því, að frv. yrði samþykkt eins og það liggur fyrir.

Í þessu frv. eru nokkrar breytingar frá eldri erfðalögum og mörg ákvæði, sem gerð eru skýrari en var, en meginbreytingarnar eru tvær, eins og tekið var fram af hæstv. ráðh. við 1. umr. málsins. Önnur breytingin er sú, að samkv. þessu frv. er ákveðið, að óskilgetin börn hafi erfðarétt eftir föður sinn eins og skilgetin börn hafa. Það má telja, að þetta sé mikil sanngirni, og þó að oft hafi þetta verið framkvæmt þannig, þá hefur það kostað nokkra vafninga og umsóknir og örðugleika haft í för með sér, sem ekki þurfa að verða, ef þetta frv. verður samþykkt. Það, sem einna gleggst mælir kannske með þessari breytingu, er, að það hefur miklu meira en fyrr tíðkazt á undanförnum síðustu áratugum, að trúlofað fólk býr saman eins og hjón að öllu leyti án þess að láta vígja sig í hjónaband. Og ein helzta orsökin til þess mun vera skattalögin, vegna þess að það hefur verið svo á undanförnum árum, að skattur hefur verið miklu hærri á hjónum en persónum, sem telja fram sitt í hvoru lagi, og að það komi að nokkru leyti fram á börnunum, er náttúrlega algerlega ósanngjarnt. Þessi breyting er þess vegna framför.

Hin aðalbreytingin er sú, að það er aukinn nokkuð réttur þess hjóna, sem lifir hitt, þannig að samkvæmt gildandi ákvæðum, sem lengi hafa verið í gildi, erfir eftirlifandi maki ¼ af eignum hins dána, en samkv. þessu frv. 1/3 Þetta kemur þannig út, ef við tækjum t.d. 100 þús. kr. eign, að þá væru það samkvæmt eldri ákvæðum 25 þús. kr., sem eftirlifandi maki fær, en samkv. þessu frv. rúml. 33 þús. kr. Þetta er í sjálfu sér líka sanngjarnt, vegna þess að þegar eftirlifandi maki verður annars vegar að annast uppeldi barnanna, hins vegar að halda áfram sinum atvinnurekstri, þá er það eðlilegt og sanngjarnt, að þessi erfðahlutur sé aukinn.

Ég skal taka það fram, að eftir að allshn. hafði skilað sínu áliti, sem var útbýtt hér í gær, barst öllum nefndarmönnum langt bréf og nokkrar brtt. frá Kvenréttindafélagi Íslands, og þær brtt. snerta aðallega framkvæmd á því, þegar eftirlifandi maka er leyft að sitja í óskiptu búi. Ég skal ekki ræða þessar brtt., en tel sjálfsagt, að þær verði teknar til athugunar, og er í því efni um það tvennt að ræða, hvort þessari umr. verði frestað nú vegna þessara brtt. ellegar málið látið ganga til 3. umr. og nefndin taki tillögurnar til meðferðar á milli umræðna og fengi þá að sjálfsögðu umsögn dómsmrn. um þær. Hvort heldur verði, læt ég hæstv. forseta eftir að ákveða, hvort heldur skuli fresta þessari umr, vegna þessara brtt. eða þá geyma meðferð þeirra til 3. umr.

Að öðru leyti sé ég ekki — fyrir hönd allshn. — ástæðu til þess að fjölyrða á þessu stigi meira um þetta mál.