05.03.1962
Neðri deild: 59. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 559 í B-deild Alþingistíðinda. (488)

95. mál, erfðalög

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Brtt. og athugasemdir þær, sem fram hafa komið við þetta frv., hafa nú verið til athugunar hjá þeim lögfræðingum, sem unnu að samningu sjálfs frv., og gera þeir, eins og að hefur verið vikið í umræðunni, grein fyrir skoðun sinni á því efni í sérstakri álitsgerð, sem prentuð er sem fskj. með framhaldsnál. hv. allshn. Skal ég ekki rekja það, en einungis taka fram, að ég er þeim athugasemdum, svo langt sem þær ná, sammála.

Þó er sérstök ástæða til þess að víkja að því, sem hv. síðasti ræðumaður, hv. 1. þm. Vestf., hélt fram, að eðlilegast væri að taka kaflann um óskipt bú út úr þessu frv. og hafa hann þá í sjálfum skiptalögunum, og styður það að nokkru við ummæli í álitsgerð erfðalaganefndarinnar. Ég vil einungis vekja athygli á því, að þarna er nokkur misskilningur, vegna þess að í II. kafla þess frv., sem nú liggur fyrir, er fyrst og fremst um að ræða, hvenær réttur sé til að sitja í óskiptu búi og hvaða réttarstaða skapist, þegar sá háttur er á hafður. Í skiptalögunum er hins vegar verið að ræða um allt annað, sem sé hvernig skipti eigi að fara fram, þegar á annað borð er skipt. Á þessu er ljós meginmunur, sem ég veit að menn átta sig á, strax og á þetta er bent. Hitt er svo annað mál, eins og kom fram í hv. Ed. og í þessu bréfi Kvenréttindafélagsins og einnig lýsir sér í tillögu, sem tveir hv. þingmenn úr Ed. hafa flutt í sameinuðu þingi um endurskoðun skiptalaganna, að þau eru orðin gömul, sett 1878, og þess vegna trúlegt, að tími sé kominn til þess að endurskoða þau. Og ég get lýst því yfir, að ég er því samþykkur, að sú þáltill., sem fram er komin um þá endurskoðun, verði samþykkt. En þær reglur, sem í nýjum skiptalögum yrðu settar, mundu fyrst og fremst fjalla um framkvæmd skiptanna, en ekki um rétt til að sitja í óskiptu búi eða það réttarástand, sem þá myndast, þegar seta í óskiptu búi er heimil og ákveðin. Það er og eftirtektarvert, að hv. 1. þm. Vestf., sem er allra manna mestur áhugamaður um þessi efni og einkar vel að sér í þeim, hefur ekki talið ástæðu til að taka upp í brtt. sínar neinar af þeim tillögum, sem Kvenréttindafélagið hreyfir, heldur bendir á, að þá væri nær að fella burt II. kafla sjálfs frv., en sú till. hans hvílir, eins og ég benti á áðan, á nokkrum misskilningi. Ég held því, að sá bezti háttur verði á hafður varðandi þessar ábendingar Kvenréttindafélagsins, að frv. verði þrátt fyrir þær samþykkt óbreytt, en dómsmrn. hlutist síðan, eftir áskorun Alþingis eða án hennar, eftir því sem þingið sjálft vill, til um það, að efnt verði til endurskoðunar á sjálfum skiptalögunum. En það er einhver flóknasta lagasetning og sízt við almenningshæfi að átta sig á af allri réttarfarslöggjöfinni, sem þó er ærið flókin, og þess vegna ekki von, að breytingar verði gerðar á henni nema eftir mikla íhugun og yfirlegu af hálfu þeirra manna, sem bezt eru að sér fræðilega í þeim efnum og mesta hafa æfinguna.

Varðandi brtt. hv. þingmanns, sem hér talaði áðan, 1. þm. Vestf., þá lýsti hann því alveg réttilega, að áhugi hans beinist fyrst og fremst að nokkuð öðrum þætti þessa máls en fjallað er um í þessu frv., sem sé að því, hvaða reglur skuli gilda um erfðafjárskatt, og hann minnti á rökstudda dagskrá, sem samþykkt var um þetta efni hér í deildinni í fyrra. Nú er það svo, að samning erfðalaga heyrir undir annað ráðuneyti en samning frv. um breyt. á erfðafjárskatti. Þar er um sitt hvort efnið að ræða. En ég vil segja, að það er a.m.k. forsenda þess, að hægt sé að semja nýtt frv. um erfðafjárskatt, að búið sé að kveða á um, hvaða reglur menn hugsi sér að gildi um sjálfar erfðirnar, því að því firnari sem erfðir eru, því meiri ástæða er til þess að skatta þær þunglega. Þess vegna er skoðun mín, að það séu skynsamleg vinnubrögð, að Alþingi nú fyrst taki afstöðu til þess, hvort setja eigi ný erfðalög, og síðan verði, að þeirri ákvörðun tekinni, snúið sér að því, hvort menn sjá sér fært eða telja ástæðu til að setja nýjar reglur um erfðafjárskattinn.

Hv. þm. sagði, að það væri meginhugsun sín með þessum sínum lagabreytingum að gera breytingar á erfðafjárskattslögunum auðveldari og gleggra fyrir menn að átta sig á, hvaða skattreglur giltu um hvern erfðaflokk um sig. Ég efast ekki um, að hv. þm. hafi rétt fyrir sér í þessu. En á því er sá annmarki, að sjálfar erfðareglurnar verða mun flóknari og erfiðara að átta sig á þeim eftir þeirri uppsetningu, sem hann leggur til að höfð sé, heldur en er samkvæmt sjálfu frv., og þar sem hér er, eins og hv. þm. tók fram, í raun og veru um sitt hvort atriðið að ræða, þá held ég, að það fari betur á því áfram eins og hingað til að halda þessu tvennu aðskildu og láta þá framsetningu, sem í frv. er nú, haldast. Það er enginn vafi á því, að það er mun hægara að átta sig á því eftir henni, hverjar erfðareglur gildi, heldur en eftir tillögum hv. þingmanns. Ég hef reynt að bera þetta saman og átta mig á því, hvað í hvoru um sig felst, og mér sýnist, að reglur frv. séu auðskildari, og hið sama kemur fram hjá þeim lögfræðingum, sem samið hafa álitsgerðina, að þeir telja frv. ljósara í þessu efni og þeim mun ljósara, að þeir telja nokkur vandkvæði á því að átta sig á, hvað í brtt. felst.

Hitt er svo auðvitað endalaust deiluefni og þrætu, hversu víðtækur erfðaréttur skuli vera. Á sínum tíma má segja að ég hafi borið ábyrgð á erfðalögunum 1949. Þau voru samin að minni tilhlutan og flutt sem stjórnarfrv., þegar ég þá var dómsmrh. Eftir á efast ég þó ekki um, að þá var gengið of langt í breytingum, og eins og hv. þm. tók dæmi áðan af erfðafjárskatti, að hann kæmi misjafnlega niður og stundum nokkuð af handahófi, þá er því miður hægt að benda á alveg tiltekin raunhæf dæmi um erfðarétt samkvæmt lögunum frá 1949, þar sem mikils handahófs virðist gæta og tilviljun ráða um niðurstöður. Ég hygg því, að sú breyting, sem í þessu frv. er gerð og hv. þm. sagði að væri aftur á bak, — og er það að vissu leyti frá sjónarmiði þeirra, sem vilja takmarka erfðarétt og kannske þar með eignarrétt sem allra mest, að þær breytingar, sem gerðar eru með frv., fara þó ekki lengra aftur á bak frá þessu sjónarmiði heldur en lagareglur standa til um í hinum mjög viðurkenndu velferðarríkjum, í hinum Norðurlöndunum, þannig að ég hygg, að ekki sé hægt að segja, að erfðaréttur sé verndaður óhóflega eða farið langt aftur í forneskju um viðurkenningu hans, meðan þó er ekki farið lengra í að halda honum við heldur en ætlunin er í alveg nýlegri löggjöf og tillögum þessara umgetnu þjóða. Að vísu er rétt, sem hv. þm. sagði, að þó að eðlilegt kunni að vera og sé oft að hafa sem mest samstarf í löggjöf milli Norðurlandaþjóðanna, þá á ekki að fara svo langt í þeim efnum, að brotið sé á móti viðurkenndum réttarhugmyndum í hverju landinu um sig. En ég minni á, að þær réttarreglur, sem hér er verið að örlitlu leyti og einungis örlitlu leyti að færa í fyrra horf, hafa þó ekki staðið lengur en frá 1949 og voru þá mjög róttæk breyting frá því, er áður hafði gilt. Og ég vil sannast að segja mjög efast um, að allur almenningur og jafnvel allir lögfræðingar hafi áttað sig á, fyrr en ákveðin dæmi komu fram um, hversu langt var gengið í breytingunni frá 1949 og hversu hún gat í sumum tilfellum komið mjög einkennilega niður. En þar að auki skulum við viðurkenna, að það er auðvitað beint heppilegt, að með svo skyldum þjóðum, sem við höfum svo margháttuð samskipti við eins og hinar Norðurlandaþjóðirnar, sé í slíku grundvallaratriði eins og erfðarétti jafnlíkar reglur og réttarhugmyndir hverju sinni leyfa.

En ég skal ekki þræta um þetta. Hér koma oft svo persónuleg tillit til, þegar á að fara að meta, hvort erfðaréttur í einstöku tilfelli sé sanngjarn eða ekki, að það er í raun og veru ákaflega erfitt að setja reglur, sem menn fyrir fram geti verið sannfærðir um að rati hið rétta meðalhóf. Það má sjálfsagt ætíð benda á, að tiltekin regla komi illa niður og að stundum fái einhver arf, sem í raun og veru sé ekki eðlilegt að erfi, í öðrum tilfellum séu menn sviptir arfi, sem erfa hefðu mátt, ef full sanngirni hefði verið viðhöfð. Og þá er þess einnig að gæta, að þarna er ekki um skylduarf að ræða á þann veg, að ekki sé hægt að svipta menn þessum erfðarétti með erfðaskrá, svo að ef um verulegar fjárhæðir er að ræða og menn hafa í raun og veru viljað ráðstafa eigum sínum á annan veg, þá hafa þeir möguleika til þess, bæði samkv. núgildandi lögum og þessu frv. En mér dettur ekki í hug, að ekki megi þræta um einstök atriði þessa frv., né neita því, að það séu nokkuð tilviljanakenndar niðurstöður, sem af því geti leitt. En engu að síður hygg ég þó, að það sé til bóta að setja þessar reglur, það leiði til sanngjarnari niðurstöðu en er samkv. gildandi lögum. Einkanlega vek ég athygli á því sama sem hv. 1. þm. Vestf. lagði megináherzlu á í sinni ræðu, að hann getur komið sínum hugsjónum fram um sem mestar tekjur í erfðafjársjóðinn í raun og veru að mestu leyti án tillits til þeirra reglna, sem settar eru í þessum lögum, heldur er með þeim verið að skapa grundvöll til þess að taka erfðafjárskattslöggjöfina upp til nýrrar endurskoðunar, og þá kemur til mats á því, hversu langt menn treysta sér til að ganga í skattheimtunni.

Ég legg því til, að frv. verði samþ. óbreytt, en síðan verði í samræmi við þá þál., sem hér var samþykkt í fyrra, snúið sér að því að endurskoða erfðafjárskattslögin og sjá, hvort menn finna þá lausn á því máli, sem meiri hluti Alþingis geti komið sér saman um.