06.02.1962
Efri deild: 39. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 566 í B-deild Alþingistíðinda. (499)

96. mál, skipti á dánarbúum og félagsbúum

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Við 2. umr. frv. til l. um breyt. á erfðalögunum ræddi ég nokkuð þessi mál í heild. Eins og hv. 3. þm. Norðurl. v. gat hér um áðan, þá hefur nefndin yfirfarið þessi frumvörp, að mér skilst, síðan við 2. umr., og ekki hugsað sér að breyta þeim neitt.

Þetta frv., sem hér um ræðir, er ekki yfirgripsmikið. Það gefur aðeins eina örlitla bendingu um það, hversu nátengd erfðalögin eru skiptalögunum. Og því virtist það vera nokkuð eðlilegt, að þegar erfðalögin höfðu hlotið jafnýtarlega endurskoðun og þar virðist vera, þá hefðu skiptalögin einnig hlotið sams konar endurskoðun. En svo hefur ekki verið. Og ég hef nú frá því við 2. umr. þessa máls kynnt mér nokkuð skiptalögin og komizt að þeirri niðurstöðu, að sú löggjöf þarf mjög mikilla endurbóta við. Sem kunnugt er, þá er þessi löggjöf frá árinu 1878, og þess er því tæplega að vænta, að í öllum aðalatriðum séu lögin fullnægjandi nú, mörgum áratugum síðar. Það er varla þess að vænta, að þeir, sem þá hafa farið með löggafarvald þjóðarinnar, hafi verið svo framsýnir menn, að löggjöfin þurfi ekki endurbóta við nú eftir svo langan tíma. Og þótt maður grípi ekki niður nema rétt á einum stað, eins og t.d. í 91. gr. skiptalaganna, þá stendur þar, með leyfi forseta:

„Amtmaður veitir umboðið, þegar skiptaforstjórarnir eru tilnefndir í löglegri erfðaskrá, enda sé því að öðru leyti ekkert til fyrirstöðu og menn þeir, er tilnefndir hafa verið, áreiðanlegir og fullveðja. Þar á móti veitir landshöfðingi umboðið, þegar beðið er um að skipa skiptaforstjóra, sem eigi eru tilnefndir í löglegri erfðaskrá, og þegar skiptaforstjóri, sem tilnefndur er í löglegri erfðaskrá, er fallinn frá eða getur eða vill eigi skipta búinu og enginn annar hefur verið tilnefndur í erfðaskránni til að ganga í hans stað.“

Þessi litla lagagrein færir okkur í raun og veru heim sanninn um það, hvernig þessi löggjöf er og á hverju hún er byggð. Hún er byggð á landshöfðingjatímabili þjóðarinnar, þegar erlent konungsvald ríkti hér á landi. Ég veit ekki til, að neinn landshöfðingi sé hér á landi, sem geti veitt þetta leyfi, nema ef það væri í þessu tilfelli hæstv. dómsmrh., Bjarni Benediktsson. Ég veit ekki, að þar stæði annar nær, og séu lögin tekin bókstaflega, eins og yfirleitt er gert með lög, þegar ber að dæma eftir þeim, þá efast ég um, að þessi lagagrein fái staðizt. Og hver er amtmaður í hlutaðeigandi héruðum? Eða hverjir eru amtmennirnir núna? Ég hélt, að fyrir löngu væri búið að afnema þá aðila í þjóðfélaginu. Ég gæti hugsað mér, að forseti sameinaðs þings, sem er bæjarfógeti á Akureyri, væri í þessu tilfelli amtmaður á Norðurlandi. En ég hygg, að hann sé það þó ekki í þess orðs bókstaflegu merkingu.

Þessi lagagrein sýnir það fyrst og fremst, hversu úrelt þessi löggjöf er orðin á fjölmörgum sviðum, þar sem hún er mynduð á konungstímabilinu og landshöfðingjatímabilinu og því ekki þess að vænta, að hún sé fullnægjandi nú.

Ég ætla mér ekki að flytja neinar brtt. við þetta frv. En hins vegar, eftir að ég hef kynnt mér þessa löggjöf, er ég staðráðinn í því að flytja till. í sameinuðu Alþingi þess efnis, að þessi löggjöf fái endurskoðun hið allra bráðasta og verði lögð fram í Alþingi, áður en mörg ár líða, í breyttu og betra formi og aðgengilegra en nú er.

Það er að sjálfsögðu mjög gott að hafa mjög greinileg og góð erfðalög. En framkvæmd erfðalaganna byggist á því, að þeir, sem með skipti dánarbúa fara í landinu, hafi greinileg og góð lög til að fara eftir, því að bara með skiptum dánarbúa má eyðileggja tilgangsgóða erfðalöggjöf. Þess vegna er það engu þýðingarminna, að skiptalögin séu fullkomin og athuguð í fullkomnu samræmi við þá endurskoðun, sem erfðalögin hafa hlotið. Og ég er líka sannfærður um það, að í skiptum dánarbúa hér á landi, ef þau mál eru rannsökuð ýtarlega, þá komumst við að þeirri niðurstöðu, að framkvæmd skiptanna fellur og stendur með þeim mönnum, sem eiga að framkvæma þessi verk, en ekki með löggjöfinni sjálfri, því að það er svo rúmt um hendur þar víða, sem þessir aðilar hafa, að þó að þeir breyti mjög misjafnlega, þá er kannske ekki hægt að segja, að neitt af því stangist á við lög. En til hvers eru þá erfðalög, ef þau eiga ekki með glöggri og greinilegri skiptalöggjöf að ná tilgangi sínum?

Ég vildi benda á þetta við þessa umr., af því að ég veit, að hv. þm. er ef til vill ljóst, hvernig þessi löggjöf er, og ef til vill ekki ljóst, hvernig hún er, og til þess að þeir, þegar þar að kemur, stuðli að því, að þessi löggjöf fái góða endurskoðun, sem nauðsynleg er, svo að erfðalögin, sem nú hafa hlotið mjög greinilega endurskoðun, fái notið sín.

Ég vil einnig minnast á það, af því að mér er það kunnugt, að fyrir hv. allshn. þessa þings lágu tillögur frá Kvenréttindafélagi Íslands um ýmis atriði varðandi erfða- og skiptalöggjöfina. Ég tel, að ýmsar af þeim tillögum hafi við rök að styðjast. Og ég tel líka, að um leið og skiptalögin verða endurskoðuð, þá verði þau sjónarmið, sem Kvenréttindafélagið varpar fram, höfð í huga við þá endurskoðun. Að sjálfsögðu ber að leita til margra fleiri aðila, þegar að því kemur að endurskoða þessa löggjöf, auk þess sem ég geri ráð fyrir, að þar sem annars staðar verði sérfræðingar hafðir með í ráðum, eins og færustu menn okkar í lögum og lagasmíðum.

Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja þetta nú meira, en ég vil benda á, hversu úrelt þessi löggjöf er og þýðingarmikið, ekki sízt eftir endurskoðun erfðalaganna, að þessi löggjöf hljóti sömu og eigi minni endurskoðun en erfðalögin. Ég mun síðar á þessu þingi flytja till. um, að endurskoðun á þessari löggjöf fari fram, þar sem ég tel það mjög nauðsynlegt.