16.11.1961
Efri deild: 17. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 87 í B-deild Alþingistíðinda. (55)

74. mál, lækkun aðflutningsgjalda

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Það var örlítil fyrirspurn til hæstv. fjmrh. út af þeim orðum, er hann lét falla hér áðan um það, að hin almenna endurskoðun tollskrárinnar væri þegar hafin og mundi verða lagt fram frv. á næsta Alþingi eftir þá endurskoðun. Og sérstaklega gat hann þess, að það mundi vera í sérstakri athugun allt, er varðaði atvinnuvegina, landbúnað, sjávarútveg og iðnað. Út frá því vildi ég leyfa mér að spyrja hæstv. ráðh. og ekki sízt út frá þeim ummælum, sem féllu hér í kvöld af vörum hv. 10. landsk., að hann væri þegar búinn að gera mikið til þess, að tollar mundu lækka á landbúnaðarvélum, þá vildi ég vita það hjá hæstv. ráðh., hvort endurskoðunin, sem nú stæði yfir varðandi þær vélar og þau tæki, sem inn væru flutt til atvinnuveganna, væri með það fyrir augum, að stórlækkaðir yrðu tollar. Það er æskilegt að fá þetta þegar fram.