16.02.1962
Neðri deild: 50. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 580 í B-deild Alþingistíðinda. (591)

140. mál, vátryggingarfélag fyrir fiskiskip

Sjútvmrh. (Emil Jónsson)Hæstv. forseti. Það eru aðeins örfá orð út af því, sem hv. 5. þm. Norðurl. v. var að enda við að segja, og þá fyrst og fremst vegna þess, að mér fannst mega skilja það á orðum hans, að hér væri um óhæfilegan drátt að ræða hjá ríkisstj., að ganga ekki frá málinu fyrr eða vera fyrr búin að leggja fram tillögur um það.

Eins og ég hef sagt frá hér áður, var sett þriggja manna nefnd til þess að gera tillögur um nýja skipan á þessum tryggingamálum. Sú nefnd skilaði áliti skömmu fyrir áramótin síðustu, en það nál. var í þrennu lagi eða jafnmörgum pörtum og nefndarmenn voru margir, og einn nefndarhlutinn hefur ekki til fulls skilað áliti sínu enn þá, svo að það er alls ekki hægt að saka ríkisstj. um neinn drátt á þessu. Það hefur verið beðið eftir sérfræðingunum, og þó að ég út af fyrir sig fagni því, sem hv. þm. sagði um það, að Framsfl. mundi vera fús til þess að leggja sitt lið til lausnar þessa máls, þá vil ég nú a.m.k. á þessu stigi leggja fullt eins mikið upp úr því, að sérfræðingarnir geti lokið sínu starfi, áður en málið kemst yfir á þann pólitíska vettvang. Og málið er á því stigi í dag, að það er í höndum sérfræðinganna, sem um það hafa fjallað.

Ég efast ekki um kunnáttu og þekkingu hv. þingmanns á þessu máli, en ég hygg þó, að fullt svo notadrjúgt gæti verið að njóta sérfræðinganna við afgreiðslu þess, a.m.k. enn sem komið er. Ég hef sagt það áður, og ég get endurtekið það hér, að þetta mál kemur til kasta þingsins, undireins og það er komið á það stig, að ég telji það þjóna einhverjum tilgangi. En það er ekki komið á það stig, enn sem komið er, úr höndum sérfræðinganna.