15.03.1962
Efri deild: 64. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 582 í B-deild Alþingistíðinda. (601)

140. mál, vátryggingarfélag fyrir fiskiskip

Fram. (Jón Árnason):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr., er breyting á lögum um vátryggingarfélög fyrir fiskiskip. Er það staðfesting á brbl., sem út voru gefin um sama efni 30. des. s.l. Efni frv. er í því fólgið, að numið er úr gildi ákvæði laga frá 17. maí 1947, þar sem Samábyrgðinni var heimilað að hafa í eigin ábyrgð eða áhættu 25% af vátryggingarupphæð hvers skips, þó ekki hærri upphæð en 100 þús. kr. á einu skipi. Samkvæmt þessu frv. heimilast sjútvmrn. að ákveða, hversu háa upphæð Samábyrgðin tekur í eigin áhættu, bæði hvað snertir hundraðshluta og hámarksupphæð í hverju einstöku tilfelli.

Á s.l. ári námu iðgjöld, sem bátaábyrgðarfélögin greiddu Samábyrgðinni, alls um 32 millj. og 600 þús. kr. Af þeirri upphæð greiddi Samábyrgðin erlendum tryggingarfélögum fyrir endurtryggingar 27.7 millj. kr. En þegar öll tjón, sem átt höfðu sér stað á árinu, höfðu verið gerð upp, kom í hlut hinna erlendu tryggingafélaga sem nettó-upphæð hálf áttunda millj. kr. Samkvæmt ákvörðun sjútvmrn. var samningum við hin erlendu tryggingarfélög sagt upp, en eftir það ákveðið að haga tryggingunum þannig frá 1. jan. s.l., að 10% skyldu vera í áhættu bátaeigenda og 10% hjá bátaábyrgðarfélögum, en eftirstöðvarnar hjá innlendum tryggingarfélögum og skiptust þannig, að 60% af þeirri upphæð yrðu hjá hinum ýmsu tryggingarfélögum, en 40% hjá Samábyrgðinni. Hin ýmsu innlendu vátryggingarfélög munu hafa skipt upphæðinni þannig sín á milli; að í hlut hvers um sig hafa komið 3.5–7%, eftir því sem. sjóðir félaganna hafa leyft. Hvað Samábyrgðina snertir var talið nauðsynlegt eða rétt að þessu sinni, að hún endurtryggði sinn hlut erlendis, þ.e.a.s. þann hluta af hugsanlegum tjónum, sem færi fram úr 400 þús. kr. á hvert skip. Er hér um svokallaðar topptryggingar að ræða, sem eru með mjög hagstæðum kjörum, nema þau iðgjöld samtals 2–3 millj. kr.

Ég hefði talið eðlilegt, að sama gilti um einstaklinga, þegar skipstapi á sér stað eða stórtjón verða. Það er útgerðarmanni, sem verður fyrir því óhappi að missa nýlegt skip sitt, í flestum tilfellum ofviða að hafa svo stóra fjárupphæð algerlega óvátryggða. Með hliðsjón af því, hvað 70–80 rúmlesta vélbátur kostar í dag, er hér um 600–700 þús. kr. upphæð að ræða, þannig að áhætta útgerðarmannsins verður um 50–60% meiri en aðaltryggingarfélagsins, þ.e. Samábyrgðarinnar.

Samkvæmt þeim upplýsingum, sem hæstv. sjútvmrh. gaf við framsögu málsins hér í hv. d., er allt vátryggingarkerfi fiskiskipaflotans nú í endurskoðun. Þegar mun vera búið að vinna allmikið í málinu, og væntanlega verður þeirri endurskoðun lokið, þegar Alþingi kemur saman síðar á þessu ári.

Svo sem fram kemur á þskj. 371, mælir sjútvn. einróma með því, að frv. verði samþ. Það er álit nefndarinnar, að efni frv. sé spor í rétta átt, en hún leggur að sjálfsögðu mikla áherzlu á það, að heildarendurskoðun þessa máls ljúki sem fyrst, svo að aðrar þær breytingar, sem nauðsynlegar eru, verði gerðar og komi sem fyrst til framkvæmda.

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að leggja til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 3. umr.