15.10.1961
Neðri deild: 5. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 587 í B-deild Alþingistíðinda. (622)

14. mál, heyrnleysingjaskóli

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Hæstv. forseti. Þetta frv. er samið af nefnd, sem menntmrn. skipaði á sínum tíma og í áttu sæti þeir Brandur Jónsson skólastjóri Málleysingjaskólans, Ásgeir Pétursson deildarstjóri í menntmrn. og Stefán Ólafsson læknir. — Var nefndin sammála um að leggja til við menntmrn., að þetta frv. yrði flutt hér á hinu háa Alþingi í þeirri mynd, sem frv. hefur á þessu þingskjali, sem hér liggur fyrir.

Í I. kafla frv. er rætt um skólann og hlutverk hans.

Í 1. gr. er gert ráð fyrir því, að sá skóli, sem hér hefur starfað síðan 1922 undir nafninu málleysingjaskóli, skuli hljóta nýtt nafn og nefnast heyrnarleysingjaskóli. — Er gerð grein fyrir því í áliti nefndarinnar, hvers vegna sú nafnbreyting sé eðlileg og raunar mjög æskileg. Þeir nemendur, sem stunda nám í þessum skóla, eru fyrst og fremst heyrnarlausir, en ekki mállausir. Þau vandkvæði, sem þeim eru á höndum og gera sérstaka skólagöngu af þeirra hálfu nauðsynlega, er sú staðreynd, að þeir eru heyrnarlausir. Þykir því eðlilegt; að það komi fram í nafni skólans.

Í 2. gr. er kveðið svo á, að læknar skuli tilkynna skrifstofu landlæknis, þegar þeir komast að raun um, að barn innan 7 ára aldurs hafi svo litla heyrn, að lítil líkindi séu til þess, að það læri málið, eða hætta sé á, að það missi málið vegna heyrnarleysis.

Þá er og í þessum 1. kafla frv. ákvæði um það, að foreldrum þeirra barna, sem annaðhvort eru fædd með svo litla heyrn eða heyrn þeirra hefur skemmzt svo af sjúkdómum, slysum eða öðrum orsökum, að það læri ekki málið á eðlilegan hátt, sé skylt að senda þau til náms í heyrnarleysingjaskólanum, þegar þau eru fjögurra ára gömul, og er því gert ráð fyrir, að skólaskylda heyrnarlausra eða heyrnarlítilla barna byrji þegar við fjögurra ára aldur. Þegar sérstakar ástæður eru fyrir hendi, getur fræðslumálastjóri þó í samráði við skólastjóra veitt undanþágu frá þessum ákvæðum um, hvenær barnið skuli koma til náms í skólanum.

Í II. kafla frv. er gert ráð fyrir því, að menntmrh. setji eða skipi skólastjóra og fasta kennara við skólann. Skulu þeir vera opinberir starfsmenn og taka laun samkvæmt launalögum. Stundakennara má svo ráða eftir því, sem þörf krefur, í samráði við fræðslumálastjóra.

Í III. kafla er gert ráð fyrir því, að skólinn sé hreinn ríkisskóli, þ.e. að kostnaður hans greiðist að öllu leyti úr ríkissjóði.

Í IV. kafla er kveðið svo á, að menntmrn. skuli hafa á hendi yfirstjórn skólans, en skólastjóri fara með umboð fræðslumálastjórnar gagnvart kennurum skólans og nemendum og forráðamönnum þeirra.

Kennsla hefur verið höfð um hönd hér á landi gagnvart heyrnarleysingjum allar götur síðan 1865. En 1922, þegar málleysingjaskólinn var stofnaður, var breytt mjög til um kennsluaðferðir og ný kennsluaðferð tekin upp. Þá var hafið að kenna heyrnarleysingjum talmál, en ekki eingöngu byggt á notkun bendingakerfis, svo sem verið hafði fram til þess tíma.

Í frv. hefur verið lögð sérstök áherzla á að kveða sem skýrast á um, hverja heimilt sé að taka í skólann. Í l. frá 1922 um kennslu heyrnarleysingja var líka gert ráð fyrir því, að taka mætti í skólann blind, málhölt og vitsljó börn. En kennsla slíkra barna er í raun og veru algerlega ósamrýmanleg kennslu heyrnarleysingja. Höfuðatriði þeirrar kennslu, sem hefur farið fram við málleysingjaskólann og gert er ráð fyrir að fari fram í heyrnarleysingjaskólanum, er að kenna heyrnarleysingjum mál. Þeir hafa sömu meðfædda hæfileika og aðrir til þess að skapa sér mál, en vegna þess að heyrnina vantar, geta þeir ekki lært málið á sama hátt og þeir, sem heyra. Um blind, málhölt og vitsljó börn gegnir að sjálfsögðu allt, allt öðru máli, og er því eðlilegt að fella úr núgildandi lögum heimild til þess að taka slík börn í þennan skóla, þar sem kennsla þeirra má ekki fara saman.

Í gildandi lögum frá 1922 um kennslu heyrnarleysingja eru engin sérstök ákvæði um sérmenntun heyrnarleysingjakennara. Kennarar með kennarapróf frá Kennaraskóla Íslands hljóta ekki tilsögn í kennslu heyrnarleysingja, enda nám þeirra miðað við það að kenna heyrandi nemendum lögboðnar námsgreinar. Í heyrnarleysingjakennslunni eru hins vegar allar hinar lögboðnu bóklegu greinar almennra skóla, aðrar en móðurmálið, meira og minna aukaatriði, en kennslan öll miðast við að skapa mál hjá nemendunum, því að málið er grundvöllurinn, sem öll önnur kennsla verður að byggjast á. Þess vegna er sérmenntun þeirra kennara, sem þessa kennslu annast, nauðsynleg, til þess að réttur og góður árangur náist. Þar sem þess er hins vegar ekki að vænta, að stofnaður verði hér á næstunni sérstakur skóli fyrir heyrnarleysingjakennara, er ekki um annað að gera en að senda þá til náms við erlendar stofnanir. En þó er hins vegar eðlilegt og sjálfsagt, að þeir fengju áður þá fræðslu um þessi efni, sem hægt væri að láta þeim í té hér heima, og væri það eðlilegt verkefni heyrnarleysingjaskólans.

Að svo mæltu leyfi ég mér að leggja til, hæstv. forseti, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn.