23.10.1961
Neðri deild: 7. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 597 í B-deild Alþingistíðinda. (645)

21. mál, lausaskuldir bænda

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er um að ræða, er frv. að brbl., sem út voru gefin 15. júlí s.l., og miðar það að því að gera bændum mögulegt að breyta lausaskuldum sínum og víxlum, verzlunarskuldum og öðrum ósamningsbundnum skuldum í föst lán. Er gert ráð fyrir því, að veðdeild Búnaðarbankans gefi út nýjan flokk bankavaxtabréfa í þessu skyni. Heimilt skal vera að veita lán til allt að 20 ára. Vextir bréfanna verði 7½% og ½% gangi til Búnaðarbankans fyrir þjónustu og áhættu. Vextir af lánunum verða þess vegna 8%. Gert er ráð fyrir því, að með þessum lögum gefist bændum sérstakt tækifæri til þess að losna við skuldirnar, sem eru ósamningsbundnar og eru oft og tíðum með þungum afborgunum, víxlarnir með sérstaklega háum vöxtum auk stimpilgjalds, og er enginn vafi á því, að verði þetta notað í ríkum mæli, gerir það bændum mun léttara en áður að standa undir þeim skuldabagga, sem á þeim hvílir.

Það hefur líka komið í ljós, að margir bændur hugsa sér að nota sér þennan möguleika. Síðast, þegar ég talaði við Búnaðarbankann, voru milli 1200 og 1300 umsóknir komnar og hefur sennilega borizt eitthvað síðan, og er þess að vænta, að úr verði hægt að greiða fyrir flestum þeim, sem sótt hafa um. Bændur verða þó að uppfylla viss skilyrði, og það er að hafa veð fyrir lánunum, því að gert er ráð fyrir því, að ekki megi hvíla meira á eigninni en 70% að meðtöldum þessum lánum. En því miður getur það verið svo, að allir bændur hafi ekki nægilega tryggt veð til þess að geta komizt að þessum kjörum. Það er vitanlega eðlilegt, að veðdeildin setji þarna föst skilyrði, því að hér er um að ræða að breyta víxlum eða öðrum skuldum, sem aðrir eru ábyrgir fyrir, en um leið og skuldinni er breytt, þá er það aðeins það veð, sem hefur verið tekið fyrir bréfunum, sem stendur á bak við.

Fengizt hefur samkomulag við Búnaðarbankann og Landsbankann um að breyta þeim skuldum, sem þar eru, samkvæmt þessum kjörum. Viðræður hafa farið fram við Útvegsbankann, en útibú Útvegsbankans munu hafa nokkuð af svona lánum, og hafa bankastjórar Útvegsbankans, sem ég hef rætt við, tekið þessu líklega og heitið því að bera það undir bankaráðin. Má því reikna með, að allir ríkisbankarnir, en þar mun mest af skuldunum vera, séu þessu samþykkir.

Hins vegar hefur ríkisstj. ekki tekið að sér að semja við sparisjóði eða verzlanir. Það verður að vera samkomulagsatriði á milli bændanna, sparisjóðanna og verzlananna, hvort samkomulag tekst um að breyta lánunum í 20 ára skuldabréf. Það má vel vera, að kaupfélögin og aðrar verzlanir kæri sig ekki um það að breyta verzlunarskuld í svo langt lán og fá bréf í staðinn. En ég hygg þó, að með þeim vöxtum, sem eru á bréfunum, muni skapast möguleiki til þess að nota bréfin á einhvern máta til greiðslu á skuldum, og þykir mér þess vegna mjög líklegt, að kaupfélög og verzlanir geri sitt ýtrasta til þess að greiða fyrir bændum að þessu leyti. Þá veit ég, að sparisjóðirnir munu gera það, sem í þeirra valdi stendur, en það má náttúrlega segja, að það sé vaxtamismunur. Þeir hafa lánað út með 9½% framlengingarvöxtum af víxlum, en vextir af bréfunum verða aðeins 7½%. Allt verður þetta að vera samningsatriði á milli þeirra, sem skulda, og þeirra, sem skuldina eiga. Það hefur ekki verið talið fært að skylda verzlanir eða sparisjóði til þess að taka að sér þessa breytingu, og ég hygg, að vegna þess að vextirnir voru ekki hafðir lægri af bréfunum en þetta, þá verði miklu auðveldara um samkomulag. Ef vextirnir hefðu verið t.d. 6%, má reikna með, að samkomulagsumleitanirnar hefðu orðið miklu erfiðari.

Nú veit ég, að að því verður spurt hér, hvernig stendur á því, að bændum er boðið upp á það að taka lán með 8% vöxtum, þegar útgerðin fær það með 6½%, að mig minnir. Þá er því til að svara, að útgerðarlánin voru aðeins í tveimur bönkum. Bændalánin eru að einhverju leyti í öllum ríkisbönkunum, í sparisjóðunum úti um land, í kaupfélögunum og öðrum verzlunum, og það er ósköp hætt við því, að ef vextirnir hefðu verið ákveðnir mjög lágir, þá hefði lítið orðið úr framkvæmdum. Ég get búizt við því, að einhverjir segi þá: Hvers vegna ekki að láta þá einhvern annan aðila greiða vaxtamismuninn? Hvers vegna ekki láta ríkissjóð eða Seðlabankann taka að sér að greiða þetta? — Ég býst við, að sú krafa kunni kannske fram að koma. En þá er því til að svara, að fyrir fram er ekkert vitað um, hvað þetta sé mikil upphæð, sem um er að ræða. Það má reikna með, að þarna verði nokkrir tugir milljóna, — ég segi ekki hundrað eða hundruð milljóna, en áreiðanlega margir tugir milljóna, og fyrir fram er engin leið að gera áætlun um, hvað þessi upphæð verði mikil.

Í öðru lagi er rétt að taka það fram, að bændur eiga að fá í verðlagi landbúnaðarvara þá vexti, sem þeir borga, og það hafa þeir fengið að mestu leyti, þá vexti, sem þeir greiða út. En þeir hafa ekki fengið fulla vexti af því kapítali, sem þeir hafa fast í búunum, jörðum og bústofni. Og deilan hefur að mestu staðið um það, hvort bændur gætu fengið fulla vexti reiknaða af því, en ekki, hvort þeir fá fulla vexti reiknaða að þeim vöxtum, sem þeir raunverulega borga af skuldum. Það hygg ég, að þeir fái að mestu leyti, eins og nú standa sakir. Einmitt vegna þess er vaxtaspursmálið á þessum lánum ekki eins mikið atriði og ætla mætti í fyrstu. Ég vil þó segja, að það hefði verið æskilegra, að vextirnir gætu verið lægri en þetta, en í framkvæmdinni er það ákaflega örðugt, vegna þess að það er um svo marga aðila að ræða: sparisjóðina, kaupfélögin, aðrar verzlanir og ýmsa fleiri aðila, þar sem bændur skulda. Aðalatriðið er það frá mínu sjónarmiði, að bændur notfæri sér þetta, að þeir breyti lausaskuldunum í 20 ára lán og geri búskapinn og þá starfsemi, sem þeir hafa með höndum, auðveldari en hefur verið. Það er aðalatriðið. Og það er líklegt, að það verði notað í ríkum mæli, einmitt vegna þess að vextirnir eru ekki svo lágir, að verzlanir og sparisjóðir ættu að geta fært þá fórn, sem í því felst að taka bréfin í staðinn fyrir víxilinn og í staðinn fyrir skuldina.

Ég held, að það sé ekki ástæða til að svo stöddu að fara fleiri orðum um þetta mál. Ég legg til, að því verði vísað til 2. umr. og fjhn.