23.10.1961
Neðri deild: 7. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 606 í B-deild Alþingistíðinda. (648)

21. mál, lausaskuldir bænda

Halldór E. Sigurðsson:

Hæstv. forseti. Hæstv. landbrh. var að ljúka hér máli sínu og gerði nokkrar athugasemdir við það, sem ég sagði hér áðan.

Út af því, sem hæstv. ráðh. talaði um útibúin, þá tók ég það fram hér í minni frumræðu, að þar sem þau væru til staðar, þar voru víxilskuldir bænda hjá þeim. En hins vegar þar, sem ekki eru nein útibú frá þessum bönkum, þessum tveim aðalbönkum, sem hæstv. ráðh. sagði að væru búnir að fallast á að taka þessi bréf upp í sín viðskipti, hjá einstaklingunum þar kæmu vandræðin. Og það voru einmitt þau vandræði, sem ég benti á að mundu verða þess valdandi, að þetta væri mismunandi eftir því, hvar menn væru staðsettir.

En hæstv. ráðh. kom hér inn á nýjan þátt í þessu máli, sem hann hélt að ég hefði ekki komið auga á, og þakka ég honum fyrir þann velvilja að benda mér á það, en það var viðskiptaleiðin um það, að þriðji aðili gæti notað skuldabréfin til þess að greiða fyrir sín viðskipti. Nú er það mikill misskilningur hjá hæstv. ráðh., að ég hafi ekki komið auga á þessa leið, því að ég hef rætt það við bankana, hvort þetta sé hugsað á þann veg. En þannig varð framkvæmdin um sjávarútvegslánin, að það var ekki endilega útgerðarmaður, sem þurfti að skulda beint við banka sinn. Hann gat skuldað þriðja aðilanum og borgað honum með þessu bréfi, og hann gat svo notað það í viðskiptum sínum við bankana. Ef þetta er með þeim hætti, að t.d. sparisjóðirnir mega afhenda Seðlabankanum slík skuldabréf, þegar þeir eiga að skila því til Seðlabankans, sem af þeim er tekið vegna sparifjárinnstæðna, þá er ég sannfærður um, að þeir sparisjóðir, sem ég þekki til, munu nota sér þá leið, og það stendur ekki á velvilja eða skilningi þeirra manna, er með þau mái fara. En það verður að vera möguleiki til þess að framkvæma löggjöfina. Það er löggjöfin sjálf, sem stendur í vegi fyrir framkvæmdinni, og ég fullyrði það við hæstv. ráðherra, að ef sparisjóðirnir mega t.d. afhenda Seðlabankanum þessi skuldabréf, þegar þeir skila þeim vissa hluta af sinni innstæðu til hans, þá munu þeir áreiðanlega nota sér þá leið. En ef þeir verða að taka þessi skuldabréf upp í víxil, sem þeir lánuðu til hálfs árs eða heils árs, og liggja með þau í 20 ár og gefa með þeim, þá verða þeir að velta þeim fyrir sér, áður en þeir fara inn á slíka leið. Og ég fullyrði það líka, að ef kaupfélagið getur farið með þessi skuldabréf inn í bankana hér í Reykjavík og borgað niður sínar skuldir með þeim, þá munu þau hiklaust gera það. En það er það, sem vantaði í ræðu hæstv. ráðherra hér áðan; að þetta væri framkvæmanlegt. Það, sem hann talaði um, var, að bankarnir hefðu fallizt á það að breyta sínum lausaskuldum, þeim sem hjá þeim væru, og einstaklingarnir væru þar með að breyta þeim í löng lán, en ekki öðrum. Og það eru einmitt þessi svör, sem viðskiptabankarnir hafa gefið mér, þegar ég hef verið að ræða þetta mál við þá, því að ég hafði sannarlega komið auga á þessa leið. Ef hún er fær, þá er málið allt annað, og það er einmitt þetta, sem ég legg áherzlu á, að hæstv. ríkisstj. eigi að beita sér fyrir því, að þessi leið sé fær. En ég hef ekki trú á því, að hún sé fær, nema aðstoð Seðlabankans komi þar til, og það er eðlilegast.

Ég þóttist finna það, að hæstv. ráðherra viðurkenndi þetta sjónarmið mitt hér áðan, þegar hann talaði um, að rætt yrði við Seðlabankann, þegar meðferð málsins færi hér fram á hv. Alþingi, svo að ég vona, að hæstv. ráðherra láti sér segjast og sjái, að þetta er í raun og veru eina færa leiðin til þess að leysa úr þessu máli. Það er hægt að finna leiðir til þess að koma þessu fyrir á eðlilegan hátt, eins og hann vitnaði til áðan, í sambandi við viðskipti bankanna við Seðlabankann, ef velvilja og skilningi er beitt til þess að koma því í gegn. Og þar þarf að koma til velvilji og skilningur hjá hæstv. ráðherra. Hann þarf ekki að efast um það, að kaupfélagsstjórarnir í landinu og viðskiptaaðilar yfirleitt, bæði sparisjóðir, verzlanir og kaupfélög, þeir vilja fá sínar skuldir greiddar, ef þeir fá þær greiddar á þann hátt, að þeir bíði ekki tjón við það. En hann mundi ekki sem kaupfélagsstjóri eða aðrir þeir, sem fyrir viðskiptastofnunum standa, og er ekki heldur eðlilegt, fara að taka slík bréf ótilneyddur, ef hann sæi, að hann tapaði verulega á hverju einasta skuldabréfi, sem hann tæki, enda er þannig háttað með viðskiptalífið í landinu yfirleitt, að það þolir ekki að taka á sig slíka ábyrgð. Ég skora því enn á ný á hæstv. ráðherra að sýna nú dugnað sinn og beita velvilja og skilningi á þeim stöðum, þar sem það á við, þ.e. hjá Seðlabankanum, til þess að hægt verði að leysa þetta mál svo, að það megi koma bændunum í landinu yfirleitt að því gagni, sem talið er að þessi lög eigi að gera.