15.02.1962
Neðri deild: 49. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 611 í B-deild Alþingistíðinda. (663)

21. mál, lausaskuldir bænda

Frsm. 1. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Hæstv. forseti. Mál þetta er búið að liggja lengi óafgreitt hér í þingdeildinni, og sannarlega er kominn tími til að þoka því áleiðis. Nefndarálit frá fjhn. voru lögð fram í nóvembermánuði í vetur, en frv. hafði þrátt fyrir það ekki verið tekið til 2. umr., þegar þingfundum var frestað 19. des. Mikill dráttur er þannig orðinn á afgreiðslu málsins í þinginu og lánveitingar samkv. brbl. hefjast miklu síðar en átt hefði að vera.

Rétt þykir mér að minnast á það, að hinn 5. jan. 1961 gaf hæstv. ríkisstj. út brbl. um heimild stofnlánadeildar sjávarútvegsins við Landsbanka Íslands til að opna nýja lánaflokka. Lögin voru sett í þeim tilgangi að bæta fjárhagsaðstöðu fyrirtækja, er stunda sjávarútveg og fiskvinnslu og hafa ekki á undanförnum árrum fengið nægilegt fjármagn til langs tíma til þeirra framkvæmda, er þau hafa ráðizt í, eins og segir í 1. gr. brbl. I brbl. stjórnarinnar varðandi útgerðina, sem hér hafa verið nefnd, voru engin ákvæði um fjáröflun stofnlánadeildar sjávarútvegsins vegna þeirrar lánveitingastarfsemi, sem henni var ætluð í lögunum. En úr því var bætt í þinginu, þegar brbl. voru þar til staðfestingar. Eftir tillögu fjhn. þessarar deildar var samþykkt sú viðbót við 1. gr. l., að stofnlánadeildin gæti stofnað til skuldar við Seðlabankann í þessu skyni, og þannig voru lögin afgreidd á síðasta þingi.

Þegar þessi brbl. um lánveitingar til þess að létta lausaskuldum af útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækjum voru til afgreiðslu á síðasta þingi, var á það bent, að einnig væri nauðsynlegt að gera ráðstafanir til að bæta fjárhagsaðstöðu bænda og fyrirtækja þeirra á svipaðan hátt. Um það náðist ekki samkomulag í þingnefndum, en fulltrúar Framsfl. í fjárhagsnefndum beggja þingdeilda báru fram brtt. um þetta efni. Þar var lagt til, að í frv. yrði bætt ákvæði um lán til bænda og þeirra fyrirtækja í sama skyni. Var lagt til, að sömu reglur yrðu látnar gilda um þær lánveitingar, lánstíma og vexti eins og um lánin til sjávarútvegsins. Ekki vildi meiri hl. þings á þetta fallast, og voru þessar tillögur felldar.

Þannig fór um málið á síðasta þingi. Var þó viðurkennt af sumum þeim mönnum, sem þá beittu sér gegn brtt. okkar framsóknarmanna, að þar væri hreyft máli, sem þyrfti að taka til íhugunar. Við 3. umr. frv. um lánin til sjávarútvegsins, sem fram fór hér í Nd. 16. marz s.l., skýrði hæstv. landbrh. frá því, að haustið 1960 hefðu sérfróðir menn verið til þess settir að gera athuganir á fjármálum útgerðarinnar og eftir að þeir hefðu lokið því starfi, hefðu þeir tekið að sér að gera sams konar athugun á fjármálum bænda og vinnslustöðva landbúnaðarins. Ráðh. sagði enn fremur: „Þessum málum verður komið í gott horf, að svo miklu leyti sem mögulegt er.“

Fjórum mánuðum síðar en þær umr., sem ég hef hér vitnað til, fóru fram í þinginu, eða 15. júlí á næstliðnu ári, gaf ríkisstj. út brbl. um breytingu á lausaskuldum bænda í föst lán. Það eru þau brbl., sem nú eru hér til umr. í lögunum og þeim reglum, sem settar hafa verið um lánveitingar samkv. þeim, er öðruvísi og lakar búið að bændum og þeirra fyrirtækjum en þeim, sem fást við útgerð og vinnslu sjávarafurða og fengið hafa lán til greiðslu á lausaskuldum samkv. lögunum frá síðasta þingi.

Með brbl. var því ekki efnt það fyrirheit hæstv. landbrh. frá 16. marz í fyrra, að málum þessum yrði „komið í gott horf, að svo miklu leyti sem mögulegt er.“ Samkv. 1. gr. brbl. er til þess ætlazt, að veðdeild Búnaðarbankans gefi út nýjan flokk bankavaxtabréfa og lánin, sem fyrirhugað er að veita, verði eingöngu borguð út í slíkum bréfum. Búnaðarbankanum hefur verið falið að framkvæma lánveitingarnar. Eftir að brbl. voru gefin út, birti bankinn auglýsingu um lánin, þar sem fram var tekið, að umsóknir um lán skyldi senda stjórn bankans fyrir ákveðinn tíma, og tilgreint, hvaða skjöl og skilríki ættu að fylgja lánbeiðnum. Til þess að fá nánari upplýsingar um lánin, leituðu menn að sjálfsögðu til Búnaðarbankans, og kom þá m.a. fram, að til þess var ætlazt, að bændur greiddu 8% ársvexti af lánunum. Þá var þess krafizt af bankanum, að lánaumsækjendur sendu yfirlýsingar frá lánardrottnum sínum, öðrum en bönkum, um, að þeir vildu taka bankavaxtabréfin til greiðslu á kröfum sínum. Þegar þessar upplýsingar höfðu fengizt, varð mörgum bændum þegar ljóst, að þeir gátu ekki að óbreyttum lögum og reglum haft not af þessum fyrirhuguðu lánveitingum, vegna þess að lánardrottnar þeirra, t.d. sparisjóðir, treystu sér ekki til að taka bankavaxtabréfin sem greiðslu. Lánbeiðnirnar urðu þar af leiðandi færri en ella hefði orðið. Er þó talið, að þær séu eitthvað á annað þúsund.

Fjhn. fékk þetta mál til athugunar að lokinni 1. umr. þess, 24. okt. í haust. Nefndin sendi frv. til Stéttarsambands bænda í byrjun nóvember til athugunar og umsagnar. Stjórn Stéttarsambandsins sendi skriflegt svar um hæl. Er bréf hennar birt með nál. mínu á þskj. 132. Vil ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa nokkuð upp úr því bréfi frá stjórn Stéttarsambandsins. Þar segir, að stjórn Stéttarsambandsins telji, að það séu einkum þrjú atriði, sem bæta þurfi inn í frv., til þess að það geti komið að viðunandi notum: 1) Að heimilt verði að veita lán út á landbúnaðarvélar. 2) Vextir af skuldabréfum verði ekki hærri en 6½%. 3) Að Seðlabankanum verði gert skylt að kaupa skuldabréfin á nafnverði. Og síðan segir í bréfinu: „Skulu þessi atriði rökstudd nokkru nánar“ — og í framhaldi af því segir í bréfinu:

„Til eru bændur, sem ekki eiga neinar fasteignir, en eru nýbúnir að eignast dýrar landbúnaðarvélar. Sýnist sanngjarnt, að þeim verði gefinn kostur á hæfilegum lánum fyrir lausaskuldum, sem þeir hafa stofnað til vegna vélakaupa, líkt og gert er ráð fyrir um útgerðarmenn, sbr. 2. gr. frv. til l. um heimild stofnlánadeildar sjávarútvegsins við Landsbanka Íslands til að opna nýja lánaflokka.“

Og um vextina segir stjórn Stéttarsambandsins:

„Ekki virðist sanngjarnt, að lán til landbúnaðar í þessu skyni séu með hærri vöxtum en lán til sjávarútvegsins undir svipuðum kringumstæðum. Er því gerð krafa til, að þeir verði ekki hærri:

Enn segir í bréfi þess:

„Þriðja atriðið, sem hér að framan er nefnt, er langþýðingarmest. Samkvæmt frv. er ekki gert ráð fyrir neinum aðila, sem ber skylda til að kaupa skuldabréfin. Verzlanir úti um land munu yfirleitt ekki geta breytt lausaskuldum bænda í föst lán til 20 ára, enda eru þær ekki lánastofnanir. Sparisjóðir eru þannig á vegi staddir, að þeir geta ekki bundið meira fé í föstum lánum til langs tíma en þeir hafa gert. Auk þess veldur það erfiðleikum úti á landsbyggðinni, að nú verður að skila Seðlabankanum 30% af árlegri sparifjáraukningu. Meðal annars af þeim sökum virðist í alla staði eðlilegast, að einmitt Seðlabankinn kaupi umrædd skuldabréf.“

Að lokum segir í bréfinu:

„Stjórn Stéttarsambands bænda lítur svo á, að frv. þetta geri ekki það gagn, sem til er ætlazt, þótt að lögum verði, nema gerðar verði á því breytingar í þá átt, sem að ofan greinir, og leggur jafnframt megináherzlu á, að löggjöf um þetta efni verði svo úr garði gerð, að hún komi bændum að fullum notum.“

Bréf stjórnar Stéttarsambands bænda, sem ég hef hér vitnað til, er undirritað af þeim fjórum stjórnarmönnum, sem þá voru staddir á fundi í Reykjavík. Það eru þeir Sverrir Gíslason, formaður Stéttarsambandsins, Einar Ólafsson, Bjarni Bjarnason og Bjarni Halldórsson. Einn af stjórnarmönnum sambandsins var ekki mættur á fundinum.

Ég vil geta þess um leið, að þetta mál hefur verið til meðferðar á fundum bænda og bændasamtaka á nokkrum stöðum á landinu, og gerðar hafa verið samþykktir þar, mjög á sömu lund og stjórn Stéttarsambandsins gerði. Ég get t.d. nefnt tvö erindi, sem borizt hafa til Alþingis varðandi þetta mál.

17. nóv. í vetur barst hingað ályktun bændafundar á Hólmavaði í Aðaldal í Suður-Þingeyjarsýslu, en til þessa fundar hafði verið boðað af Búnaðarsambandi Suður-Þingeyinga. Meðal annarra ályktana er þar skorað á Alþ. að tryggja það, að bændur njóti sömu vaxtakjara og gilda um hliðstæð lán hjá sjávarútveginum og að Seðlabankinn sé skyldugur að kaupa skuldabréfin með nafnverði.

1. des. barst Alþingi ályktun fulltrúafundar Búnaðarsambands Suðurlands, sem haldinn hafði verið 24. nóv. á Selfossi, það var kjörmannafundur Stéttarsambands bænda á starfssvæði Búnaðarsambands Suðurlands, sem gerði um þetta mál ályktanir, í fyrsta lagi um það, að Seðlabankanum verði gert að skyldu að endurkaupa skuldabréf sparisjóða og verzlana úti á landi vegna lausaskulda bænda, vextir af væntanlegum föstum lánum verði ekki hærri en hjá sjávarútveginum af hliðstæðum lánum og stofnunum bændanna, sem vinna úr vörum þeirra, svo sem mjólkurbúum, sláturhúsum og frystihúsum, verði veitt sömu kjör varðandi lausaskuldir og hliðstæðum vinnslustöðvum sjávarútvegsins.

Eins og þegar hefur komið fram, varð ekki samkomulag í fjhn. um þetta mál. Fulltrúar stjórnarflokkanna í nefndinni leggja til í nál. sínu á þskj. 118, að frv. verði samþykkt óbreytt. Ég hef gefið út álit á þskj. 132, og álit frá hv. 4. þm. Austf. er á öðru þskj. Við leggjum til, að frv. verði samþykkt með breytingum.

Ég vil næst minnast á nokkur atriði, sem fram komu í ræðu hv. frsm. meiri hl. n. og um getur í nál. meiri hlutans.

Út af till, um það, að Seðlabankinn skuli leggja fram fé til þessara lánveitinga eins og til sjávarútvegsins, segir meiri hlutinn, að það sé fráleitt að ætla að skylda einhverjar lánastofnanir til þess samkvæmt lögum að veita algerlega ótiltekin lán. Ég vil benda á, að þetta var gert á síðasta þingi. Engar nákvæmar upplýsingar lágu þá fyrir um heildarupphæð lána hjá stofnlánadeild sjávarútvegsins. Heyrzt hefur síðan, að þau lán muni nema 350–400 millj. kr. í heild, og ég vek athygli á því, að hægt er að komast af með miklu minna fé í heild til lánveitinga handa landbúnaðinum. Hagstofa Íslands gerir árlega heildarskýrslu um skuldir bænda eftir skattaframtölum þeirra, um leið og búnaðarskýrslur eru gerðar. Skýrslan fyrir 1960 sýnir, að þá voru skuldir bænda, aðrar en veðskuldir, alls um 196 millj. kr. Nú er það vitað, að margir bændur sækja ekki um lán samkvæmt þessum brbl., þó að nokkuð hvíli á þeim af lausaskuldum, og því má gera ráð fyrir, að lánin til bænda verði miklu minni en þessari fjárhæð nemur. Og þó að þar við bætist nokkrar lánveitingar út á vinnslustöðvar landbúnaðarins, þá munu lánin í heild alls ekki nema svo mikilli upphæð, að nokkur vandkvæði séu á því fyrir Seðlabankann að kaupa þessi skuldabréf.

Þá er það um vaxtakjörin. Hv. meiri hluti leyfir sér að halda því fram, að þó að vextirnir verði 8%, muni vaxtakjör landbúnaðarins sízt verða lakari en vaxtakjör sjávarútvegsins, því að vextir þessir muni að verulegu leyti ganga inn í verðlagsgrundvöll landbúnaðarafurða. Ég verð að segja það, að mér finnst þetta mjög einkennilegur málflutningur. Það er vitanlega ekkert sérstakt fyrir landbúnaðinn, að það megi telja vexti með rekstrarkostnaði við atvinnureksturinn. Svo er einnig hjá sjávarútveginum, iðnaðinum og öllum öðrum atvinnugreinum. Alls staðar eru vextir taldir með rekstrargjöldum. Þar fyrir utan má svo vekja athygli á því, að þeir bændur, sem skulda meira en sem nemur skuld á búi að meðaltali, fá ekki í afurðaverðinu nema hluta af þeim vöxtum, er þeir þurfa að borga. Það er vegna þess, að vaxtaliðurinn á þeim gjaldareikningi, sem lagður er til grundvallar, þegar afurðaverðið er ákveðið, mun vera áætlaður miðað við skuldir bænda að meðaltali, þannig að þeir, sem skulda meira en sem nemur meðalskuld á búi, eins og ég sagði áðan, fá aldrei nema nokkuð af þeim vöxtum, sem þeir þurfa að greiða, og það mun einmitt vera þannig ástatt um allan þorrann af þeim bændum, sem hér sækja um lán, að það eru þeir, sem mest skulda. Þessar röksemdir hv. meiri hl. fá því alls ekki staðizt að mínu áliti. Bændur eru rangindum beittir, ef ákvæðinu um vextina fæst ekki breytt. Þeim er ætlað að greiða 8% vexti, þegar útgerðin borgar 6½% af hliðstæðum lánum, og það er vitanlega fjarri öllum sanni, að vaxtagreiðslur af lánum skipti ekki máli fyrir atvinnuvegina, þó að greiddir vextir séu taldir með öðrum rekstrarkostnaði.

Á þskj. 133 flyt ég ásamt hv. 4. þm. Austf. nokkrar brtt. við frv. Við höfum tekið þar upp þær till., sem stjórn Stéttarsambands bænda hefur gert, og þar að auki till. um lánveitingar út á vinnslustöðvar landbúnaðarins. Í 1. brtt. okkar og í a-lið 2. brtt. er farið fram á, að fyrirtæki, sem hafa komið upp vinnslustöðvum fyrir landbúnaðarafurðir, njóti sama réttar og fyrirtæki, er annast fiskvinnslu, en þau hafa fengið slík lán samkv. lögunum um stofnlánadeild frá síðasta þingi. 2. og 3. till. okkar, þ.e.a.s. um lán út á vélar í eigu bænda og um vextina, að þeir verði eigi hærri en 6½% á ári og að Seðlabanki Íslands kaupi bankavaxtabréfin, sem notuð verða til lánveitinga samkv. 1. gr., fyrir nafnverð, þessar till. eru í fullu samræmi við það, sem stjórn Stéttarsambands bænda hefur farið fram á. 4. brtt. tel ég rétt að taka aftur til 3. umr. Þegar hún var flutt í nóvembermánuði, gerðum við flm. ráð fyrir, að málið fengi fullnaðarafgreiðslu í desember. Það þarf því að breyta till. að því er varðar umsóknarfrestinn, og er hægt að gera það fyrir 3. umr. En það liggur í augum uppi, að þegar nauðsynlegar lagfæringar hafa fengizt á frv., þarf að gefa bændum kost á að senda nýjar umsóknir. Það er vegna þess, að eftir að lagfæringar hafa fengizt á frv., munu ýmsir lánardrottnar, eins og sparisjóðir og jafnvel fleiri, sjá sér fært að taka slík bréf sem greiðslu, þó að þeir neituðu að gefa yfirlýsingar um slíkt á s.l. hausti.

Ég hef gert hér grein fyrir till. minni hl. fjhn. um breytingar, sem nauðsynlegt er að gera á frv. í tillögum okkar er lagt til, að Seðlabankinn veiti aðstoð við lánveitingar til bænda og þeirra fyrirtækja, eins og hann veitti stofnlánadeild sjávarútvegsins lán til þess að breyta lausaskuldum útgerðarinnar í föst lán, að vextirnir verði lækkaðir, svo að þeir verði ekki hærri en af hliðstæðum lánum til sjávarútvegsins, að lán verði veitt út á vélar í eigu bænda eins og útvegsmanna og að lán verði veitt út á vinnslustöðvar landbúnaðarins eins og útgerðarinnar. Vinnslustöðvar fyrir landbúnaðarafurðir eru flestar eign félagsfyrirtækja bændanna, sem hafa haft forgöngu um að koma upp slíkum stöðvum til þess að auka vöruvöndun og hækka verð afurðanna. Þessi félög hafa ekki fengið nægilegt fjármagn til langs tíma til þeirra dýru, en nauðsynlegu framkvæmda, og veldur það erfiðleikum. Örðugleikar þeirra hafa einnig vaxið síðustu tvö árin af þeim sökum, að lánveitingar út á landbúnaðarafurðir hafa verið miklu minni en áður, miðað við magn og verðmæti framleiðslunnar.

Það er réttlætismál, að bændur og félög þeirra njóti í öllum atriðum sömu fyrirgreiðslu og útvegsmenn og þeirra fyrirtæki, þegar lög eru sett um ráðstafanir til að breyta lausaskuldum í föst lán. Reynslan hefur sýnt, að ekki er ótryggara að lána fé til landbúnaðar en sjávarútvegs. Fáist frv. ekki breytt og verði lakar búið að bændum en útvegsmönnum í þessum efnum, er rangindum beitt, og þá hljóta menn að spyrja, hér í þingi og annars staðar: Hvers eiga bændur að gjalda? — En ég vil vænta þess, að málinu verði komið í viðunandi horf. Ekkert getur verið því til fyrirstöðu, ef aðeins vilji er til þess hjá þingi og stjórn að láta bændur njóta sömu kjara og útvegsmenn.